Ég lenti í Leifsstöð um miðja nótt og var kominn í gegn á örfáum mínútum þrátt fyrir að tollurinn gegnumlýsti töskurnar í fyrsta skipti í nokkra áratugi. Silfurgrái jepplingurinn beið eftir mér á stæði fyrir framan flugstöðvarbygginguna og nokkrum mínútum síðar ók ég af stað út á þjóðveginn. Allt gekk þetta svo hratt fyrir sig að ég náði ekki að reima skóna almennilega eða skreppa á salernið sem var reyndar staðsett á asnalegum stað undir komusalnum. Ég var eitthvað að velta þessum búksorgum fyrir mér þegar ég kom auga á mannveru sem trítlaði eftir hægri vegöxlinni í rökkrinu, svolítið eins og svartur sauður með allt of stóran bakpoka á bakinu.
Þarna sá ég mér strax leik á borði að slá nokkrar flugur í einu höggi; ég snarhemlaði úti í kanti, drap á vélinni, vatt mér út, fór að reima skóna og bauð um leið túristanum far rétt áður en ég óð lausgyrtur út í móa til að míga í guðsgrænni náttúrunni.
Í sveitinni vorum við vön að stökkva af baki, drattast að næsta skurði, setja hnefa vinstri handleggs á mjöðm og míga upp í vindinn. Ég var að sýna útlendingnum gott fordæmi.
Þegar ég var að renna upp og leit um öxl sá ég hins vegar hvernig litla viðrinið var að taka mynd af jepplingnum með síma. Þegar hann sá að ég tók eftir þessu fór hann að afsaka sig í bak og fyrir. Hann væri frá París og í París stoppaði enginn fyrir honum nema glæpamenn. Engir glæpamenn á Íslandi, sagði ég. Bara 330 þúsund Íslendingar, og það ekkert mikið betra. Svo reif ég af honum bakpokann og henti í barnasætið aftur í, vísaði honum á farþegasætið fram í og ók af stað.
Parísardrengurinn sagðist bara vera að millilenda hérna í auðninni því hann væri á leiðinni til Kanada. Hann hafði ætlað að taka leigubíl á Base Hotel en verið sagt að farið kostaði fimm hundruð evrur svo hann ákvað að fara þangað fótgangandi, enda með GPS í símanum.
Fimm hundruð evrur? Glæpamenn! tautaði ég sem var nýbúinn að lýsa því yfir að það væru engir glæpamenn á Íslandi. Parísardrengurinn spurði hvort ég vildi eitthvað „kass“ fyrir aksturinn en þá sagðist ég nú varla fara að rukka fyrir tveggja mínútna hjáleið í gegnum hringtorg og upp eina brekku. Þegar við komum upp í hverfið sagði ég honum frá því að þessa viku sem ég hafði skotist til Evrópu hefði myrkrið hellst yfir Ísland, hann yrði eiginlega að heimsækja landið einhvern tímann aftur og upplifa sumarnóttina.
Eftir um tveggja mínútna akstur vorum við komnir að Base Hotel. Þarna höfðu fjölskyldur hermanna búið á árum áður en nú var búið að mála þessar dapurlegu húsblokkir í felulitum.
„Það var fyrst þá að ég áttaði mig á því að drengurinn frá París hafði verið svolítið smeykur við mig.“
Ég steig út úr bílnum til að kveðja drenginn með handabandi. Það var fyrst þá að ég áttaði mig á því að drengurinn frá París hafði verið svolítið smeykur við mig. Ég er alveg þokkalega vígalegur maður og örugglegri ógurlegri en Axlar-Björn í síðsumarsrökkrinu úti í eyðimörk. Mannkertið virtist vera þakklátt fyrir að vera í heilu lagi. Hann fór að tala um ég væri „góður maður“ og þá fór ég aðeins hjá mér, fékk góða-fólks-tár í augun og sagði honum á móti að ég hefði svo oft sjálfur verið í hans sporum í Evrópu og Norður-Afríku. Vannærður unglingur að þvælast eitthvað beint að augum. Fólk hefði almennt verið gott við mig. Bóndi í Atlas-fjöllum Marokkó hafði gefið mér sauðaost með flatbrauði að borða og sagt við mig á brotinni frönsku að Marokkómenn væru góðir og húsmóðir í Kalabríu hafði gefið mér heimatilbúið pasta og sagt eitthvað ámóta um ítölsku þjóðina með sínum stóru brúnu augum. Heimurinn væri smekkfullur af góðu fólki og satt að segja þá væru Íslendingar almennt frekar gott fólk – þótt við værum auðvitað allir gráðugir glæpamenn líka. Hann mætti ekki gleyma því.
Að því mæltu kvaddi ég og keyrði áfram til Reykjavíkur, ennþá með vott af góða-fólks-tárum í hvörmunum, klukkan að detta í eitt. Ég var að hlusta á Spotify og Lou Reed nýbúinn að hvísla einhverju í eyra mér um skítugar breiðgötur þegar ég fór allt í einu að efast. Af hverju hafði ég sagt að Íslendingar væru góðir? Erum við það?
Þegar stríðshrjáð börn þessa heims leita til okkar þá vísum við þeim úr landi bara vegna þess að Dyflinnarreglugerðin leyfir okkur það. Síðasti starfandi forsætisráðherra landsins var klappaður upp á fundi með öldruðum Íslendingum þegar hann sagði það hafa verið mjög vont mál að bjarga langveikum albönskum börnum fyrir nokkrum árum síðan, það geta nefnilega komið fleiri börn. Jafnvel milljón börn, öll fárveik auðvitað. Þess vegna yrði helst að taka upp vegabréfsáritanir þannig að aðeins ríkt, hvítt fólk með sjúkratryggingar geti heimsótt okkur og þá alls ekki einhverjir Parísarkettlingar sem eru hvort eð er bara á leiðinni til Kanada. Ef forsætisráðherra hefði fengið að ráða þá fengi svona kríli aldrei að sjá landið mitt nema gegnum glerrúðuna á flugstöðinni, því unglingsstrákar sækja ekki um vegabréfsáritanir, þeir arka eftir vegöxlum og undir brýr, þiggja mat og far af ókunnugum í því endalausa ævintýri sem lífið er.
Athugasemdir