Geir Jón Þórisson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili og yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu til fjölda ára, skrifaði meðmæli fyrir mann árið 1996 sem var dæmdur fyrir nauðgun í Vestmannaeyjum árið 1989.
Þetta kemur fram í gögnum dómsmálaráðuneytisins sem Stundin fékk afhent eftir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu að almenningur ætti rétt á upplýsingunum, þvert á afstöðu dómsmálaráðuneytisins og fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.
„Hann lenti í þessu“
Geir Jón staðfestir við Stundina að hann hafi sjálfur komið að rannsókn kynferðisbrotamálsins sem lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum. „Ég rannsakaði málið á sínum tíma, það passar,“ segir hann.
Þegar Geir Jón skrifaði meðmælin, sjö árum síðar, starfaði hann hins vegar sem aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Reykjavík.
„Á þeim tíma vottaði ég hvernig maðurinn hafði staðið sig eftir að hann lenti í þessu og afplánaði sinn dóm,“ segir Geir Jón um mál hins dæmda kynferðisbrotamanns. „Hann bætti ráð sitt, sat inni í fangelsi.“ Aðspurður hvað honum finnist um þetta í dag segist hann ekkert hafa við málið að athuga.
Í meðmælum sínum um manninn tekur Geir Jón sérstaklega fram að hann hafi komið að máli mannsins sem lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum eftir að brotið var framið.
Maðurinn nú reglusamur
Umræddur maður var 24 ára þegar dómurinn féll þann 19. desember 1989, og var honum gert að sæta tveggja ára fangelsisvist fyrir nauðgun sem hann framdi í Vestmannaeyjum árið áður. Þá var hann dæmdur til að greiða þolanda 300 þúsund króna skaðabætur.
Í meðmælum Geirs Jóns kemur fram að hann geti staðfest að maðurinn hafi staðið sig „mjög vel undanfarin ár og misseri“. Geir segist hafa haft „mikið með hans mál að gera“ þegar hann starfaði sem lögreglufulltrúi í Vestmannaeyjum.
Eftir að Geir flutti til Reykjavíkur hafi hann jafnframt „fylgst mjög vel með honum“ og geti staðfest að maðurinn hafi tekið sig á og sé „reglusamur í dag“. Maðurinn hlaut uppreist æru að tillögu dóms- og kirkjumálaráðherra þann 1. október 1996.
Athugasemdir