Sveinn Eyjólfur Matthíasson, sem starfaði sem verkefnastjóri hjá Kynnisferðum um árabil, segir að fyrrverandi stjórnarformaður og framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi beitt sig þrýstingi í máli Hjalta Sigurjóns Haukssonar, dæmds kynferðisbrotamanns sem fékk uppreist æru í fyrra.
Kynnisferðir eru meðal annars í eigu foreldra, föðurbróður, systkina og frændsystkina Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra.
Athygli hefur vakið að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna og einn af eigendum Kynnisferða, skrifaði meðmæli fyrir Hjalta Sigurjón. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa þeir Benedikt þekkst í mörg ár og héldu sambandi eftir að Hjalti var dæmdur fyrir gróf og ítrekuð kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.
Hjalta var sagt upp störfum sem bifreiðastjóri hjá Kynnisferðum árið 2013 eftir að umræða vaknaði um að hann hefði hlotið dóm fyrir barnaníð.
„Þáverandi framkvæmdastjóri fór í kjölfarið fram á það við mig að hann yrði endurráðinn. Þeim fyrirmælum neitaði ég að fylgja,“ segir í yfirlýsingu sem Sveinn Eyjólfur sendi fjölmiðlum rétt í þessu.
Þá kemur fram að síðar hafi framkvæmdastjórinn spurt Svein Eyjólf og aðra starfsmenn „hvort ekki væri eitthvað sem [þeir gætu] gert fyrir Hjalta Sigurjón“ en þeir ekki talið það ráðlegt. Í kjölfarið hafi þáverandi stjórnarformaður fyrirtækisins farið þess á leit við Svein að hann skrifaði meðmælabréf fyrir Hjalta.
Sveinn segist ekki hafa orðið við því, en síðar hafi Hjalti sjálfur komið til sín með tilbúið bréf um að hann væri stundvís og góður bílstjóri. „Þetta stutta meðmælabréf var sannleikanum samkvæmt. Sökum þess þrýstings sem ég hafði verið beittur af yfirmönnum mín mínum skrifaði ég undir það,“ segir í yfirlýsingu Sveins Eyjólfs.
„Það bréf var ætlað til stuðnings umsóknar hans um starf hjá olíudreifingarfyrirtæki og lofaði hann því að bréfið yrði ekki notað til umsóknar um önnur störf. Afrit af meðmælabréfinu sem Hjalti Sigurjón skilaði inn vegna umsóknar sinnar um uppreist æru barst mér ekki fyrr en laugardaginn 16. september s.l. frá ráðuneytsistjóra dómsmálaráðuneytsins. Ég ritaði ekki undir það meðmælabréf og kannast ekki við þá umsögn sem mér er ætluð.“
Athugasemdir