Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur látið að því liggja í viðtölum að dómsmálaráðuneytið hafi falið úrskurðarnefnd um upplýsingamál að skera úr um hvort eðlilegt væri að birta upplýsingar um mál manna sem fengið hafa uppreist æru.
Hið rétta er að ráðuneytið synjaði fjölmiðlum og brotaþolum Roberts Downey um gögn sem nú liggur fyrir að úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur almenning eiga rétt á samkvæmt upplýsingalögum.
Það var Alma Ómarsdóttir, fréttakona á RÚV, sem kærði ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um synjun upplýsingabeiðninnar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Dómsmálaráðuneytið var ekki hlutlaus áhorfandi að málinu heldur útskýrði og varði þá ákvörðun sína fyrir úrskurðarnefndinni að hafa synjað beiðni RÚV um gögnin.
Í umsögn ráðuneytisins vegna málsins er því haldið fram að „öll gögnin [hafi] að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar“ sem undanþegnar séu upplýsingarétti almennings. Þannig taldi ráðuneytið að það væri brot gegn 8. tl. 2. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og 9. gr. upplýsingalaga að afhenda umræddar upplýsingar.
Upplýsti Bjarna þrátt fyrir afstöðu ráðuneytisins
Brynjar Níelsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem sjálfur er reyndur lögmaður og sérfræðingur á sviði refsiréttar, hefur gefið þær skýringar á leynd stjórnvalda að það geti varðað refsiábyrgð að afhenda persónuupplýsingar sem leynt eiga að fara samkvæmt lögum.
Þrátt fyrir skýra afstöðu ráðuneytisins ákvað Sigríður Andersen dómsmálaráðherra að upplýsa forsætisráðherra um nafn eins af meðmælendum Hjalta Sigurjóns Haukssonar í lok júlí.
Sjálfur var Bjarni ekki aðili að málinu og átti ekki rétt á að fá slíkar upplýsingar samkvæmt þeirri lagatúlkun dómsmálaráðuneytisins sem kemur fyrir í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Hafnar því ranglega að hafa farið á svig við upplýsingalög
„Við töldum okkur ekki heimilt að afhenda öll þau gögn og fórum þá leið, sem er lögum samkvæmt, og RÚV, að fá úrskurð frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem féllst á sjónarmið ráðuneytisins að því leyti að ekki væri hægt að birta gögnin eins og þau koma fyrir,“ sagði Sigríður Andersen í viðtali í kvöldfréttum RÚV í gær. Sem fyrr segir er rangt að ráðuneytið hafi sjálft farið þá leið að fá úrskurð frá úrskurðarnefnd.
Sigríður hafnaði því í viðtali við Stöð 2 að hafa farið á svig við upplýsingalög með því að synja upplýsingabeiðnum um mál Roberts Downey og meðmælendur hans.
„Ég hjó eftir því í fréttunum að talað er um leyndarhyggju og að dómsmálaráðuneytið hafi farið á svig við upplýsingalög. Það er auðvitað ekki rétt,“ sagði Sigríður.
„Í júní fengum við ósk um gögn í máli Roberts Downey og tókum ákvörðun um það, ráðuneytið, lögum samkvæmt að neita því, vegna þess að í þeim kynnu að vera ákveðnar persónulegar upplýsingar sem lögum samkvæmt þurfa að fara leynt.“
Hið rétta er að úrskurðarnefnd um upplýsingamál komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum að dómsmálaráðuneytið hefði gengið lengra í upplýsingaleynd en eðlilegt væri samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.
Athugasemdir