Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra ætlar aftur að leggja fram frumvörp um notkun stera og rafrettna. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, en frumvörpin verða endurflutt frá síðasta þingi.
Heilbrigðisráðherra boðar frumvarp til laga um bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum. „Engin lög eru í gildi sem taka á misnotkun vefjaaukandi efna og stera, en óskað hefur verið eftir af ýmsum aðilum að lögfestar verði reglur á þessu sviði. Höfð er hliðsjón af sambærilegri danskri löggjöf,“ segir í lýsingu á fyrirhuguðu frumvarpi. „Regluverkinu er m.a. ætlað að taka á ólöglegri starfsemi er varðar, framleiðslu, innflutning og dreifingu á þessum efnum en fjallar ekki um neytendur eða refsingu þeirra.“
Um frumvarp til laga um rafrettur segir að til standi að setja heildstæðan ramma um sölu, neyslu og annað tengt rafrettum. Frumvarpið sé að hluta til innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB.
Athugasemdir