Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, telur ekki skynsamlegt að taka upp myntráð í stað núverandi fyrirkomulags í gengismálum. Þetta sagði hann í viðtali í Speglinum í kvöld, en myntráð var eitt helsta kosningaloforð Viðreisnar í efnahagsmálum fyrir síðustu kosningar. Flokkurinn fer nú með fjármálaráðuneytið en samið var um það þegar ríkisstjórnin var mynduð að málefni Seðlabankans yrðu færð til forsætisráðuneytisins.
Í myntráðsfyrirkomulagi felst að einn gjaldmiðill er tengdur við annan með þeim hætti að stjórnvöld skuldbinda sig til þess að skipta innlendum gjaldmiðli út fyrir kjölfestugjaldmiðil, svo sem evru, á fyrirfram ákveðnu gengi.
Fram kom í viðtalinu við Þórarin að slík einhliða fastgengisstefna myndi aldrei geta komið í veg fyrir sveiflur á raungengi og vöxtum. „Einhliða fastgengisstefna eins og velt hefur verið upp undanfarið held ég að sé ekki skynsamleg lausn ef myntbandalagsvalkosturinn er ekki fyrir hendi,“ segir hann og bendir á að raungengissveiflur þekkist í löndum sem búa við myntráð. „Það er ekki til neitt fyrirkomulag peningamála sem mun láta svona sveiflur hverfa.“
Í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar um efnahagsaðstæður á Íslandi sem kom út í lok júní voru Íslendingar hvattir til að halda sig við núverandi gengisfyrirkomulag í stað þess að binda krónuna við annan gjaldmiðil. Fram kom að fastgengisstefna myndi draga úr sjálfræði Íslendinga á sviði peningamála og skapa aukna þörf fyrir sveiflujafnandi ríkisfjármálastefnu til að tryggja stöðugleika. Reynslan sýndi að Íslendingum hefði ekki alltaf gengið vel að sporna við ofhitnun hagkerfisins með stjórntækjum ríkisfjármálanna. Bent var á að binding gjaldmiðilsins við aðra mynt gæti gert Ísland berskjaldaðra fyrir spákaupmennskuárásum og jafnvel kallað á endurupptöku fjármagnshafta til að verja hagkerfið fyrir slíku. Raunar væri enginn gjaldmiðill í boði sem hentaði sérstaklega vel sem akkeri fyrir krónuna.
OECD telur að það væri mun æskilegra fyrir Íslendinga að gerast aðilar myntsamstarfi, svo sem í gegnum Evrópusambandið, en slíkt krefjist þess að pólitískur vilji sé fyrir því á Íslandi.
Sú staða er hins vegar ekki uppi í dag, enda var samið um það við myndun núverandi ríkisstjórnar að stjórnarmeirihlutinn, þar á meðal þingmenn Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, muni hindra að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið allt fram til loka kjörtímabilsins.
Athugasemdir