Kim Jong Un forseti Norður-Kóreu og Donald Trump Bandaríkjaforseti hóta nú hvor öðrum eldi og brennisteini og má vart á milli sjá hvor hljómar verr. Kim hefur meðal annars hótað því að skjóta kjarnorkuflaugum að eyjunni Gvam í Kyrrahafi sem Bandaríkjamenn ráða, en hvaða eyja er þetta?
Gvam er um 540 ferkílómetrar, sem þýðir að eyjan er á að giska jafn stór og rétt rúmlega helmingur Reykjanesskagans á Íslandi.
Þetta er eldfjallaeyja, syðst hinna svonefndu Maríana-eyja, og er um það bil 2.500 kílómetra frá næstu stóru eyjum, en það eru Japan, Filippseyjar og Nýju Gínea. Þær eru allar í nokkuð svipaðri fjarlægð frá Guam.
Til samanburðar er fjarlægðin frá Íslandi suður á Biskajaflóa ekki ósvipuð.
Fjarlægðin frá Gvam til Havaí-eyja er aftur á móti nærri 4.000 kílómetrar.
Talið er að menn hafi sest að á Gvam fyrir 4.000 árum, það er að segja um það bil árið 2000 fyrir Krist. Þar voru á ferð sæfarar frá Austur-Asíu - Filippseyjum, Malasíu og Indónesíu, sem nú heita - og voru byrjaðir að sigla ótrúlega víða um Kyrrahafið svo snemma. Þá voru enn 3.000 ár þangað til Evrópubúar hættu að sigla eingöngu með ströndum og lögðu á úthaf.
Fátt er vitað með vissu um sögu næstu 3.500 ára eftir landnám á Gvam. Þar þróaðist sérstök þjóð, Kamarró-þjóðin. Hún verslaði við íbúa annarra Maríanaeyja, en að öðru leyti héldu Gvam-búar sig að mestu út af fyrir sig, að því er talið er.
Árið 1521 rambaði leiðangur Portúgalans Magellans til Gvam, en hann var þá á leiðinni kringum hnöttinn. Kamarró-menn komu hinir kátustu um borð í þau þrjú skip sem Magellan réði þá yfir og stálu þar öllu steini léttara. Ástæðan var þó ekki illgirni í garð hinna nýkomnu, eða græðgi, heldur var það einfaldlega hluti af hugsunarhætti Kamarró-manna að sér til lífsbjargar mætti hver taka það sem hann þyrfti.
Þá er talið að um 50.000 manns hafi búið á eyjunni. Íbúarnir skiptust niður í þrjár stéttir. Yfirstéttin bjó við sjóinn, þar sem bestur aðgangur var að fiskimiðum og siglingum. Ofar í landinu bjó millistéttin en lágstéttin inn í skógunum innst á eyjunni. Menn af yfirstétt og lágstétt töluðust helst ekki við, en fengu menn af millistétt til að bera boð sín á milli ef þurfti.
Ekki varð um landnám Evrópumanna að ræða fyrr en um það bil einni og hálfri öld síðar, þegar Spánverjar settust að á Gvam og gerðu hana að áfangastað á siglingaleiðinni milli Mexíkó og Filippseyja, sem þeir höfðu lagt undir sig. Þá hófust þeir handa við að kristna íbúana, sem gekk að lokum, þótt enn muni raunar eima eftir af „frumstæðum“ trúarbrögðum eyjarskeggja að ýmsu leyti.
Ófriður braust stundum út, sóttkveikjur frá Evrópu unnu mikil hervirki og þegar kom fram á 19. öld voru íbúar aðeins um 7.000. Árið 1898 braust út stríð Bandaríkjamanna og Spánverja og þá hirtu Bandaríkjamenn Gvam af Spáni, rétt eins og Filippseyjar.
Eyjan varð síðan svokallað yfirráðasvæði Bandaríkjanna.
Daginn eftir árás Japana á flotastöð Bandaríkjanna á Havaí 7. desember 1941 lenti japanskur innrásarfloti við Gvam. Fátt varð um varnir og Japanir réðu síðan eyjunni þar til í júlí 1944 þegar Bandaríkjamenn lentu þar á ný.
Japanir léku eyjaskeggja illa og talið er að 2.000 af þá 20.000 íbúum hafi verið drepnir eða dáið af illri meðferð. Kamarró-karlar voru gerðir að vinnuþrælum og konur að kynlífsþrælum.
Japanir vörðust innrás Bandaríkjamanna af gríðarlegri hörku. Þeir felldu um 1.800 Bandaríkjamenn en tíu sinnum fleiri Japanir, um 18.000 hermenn, féllu áður en síðustu 485 dátar þeirra gáfust upp 10. ágúst.
Og þó ekki allir. Tíu japanskir hermenn flúðu inn í frumskóginn á miðri eyjunni og neituðu að gefast upp. Sjö þeirra fóru síðan frá hinum þremur og ekki er ljóst hvað af þeim varð. Hinir þrír héldu fyrst hópinn en fluttu hver í sinn helli. Þeir heimsóttu þó hver annan stöku sinnum þar til 1964 að tveir þeirra fórust í flóði.
Sá síðasti, Shoichi Yokoi að nafni, fannst og var yfirbugaður 1972 eftir að hafa verið í felum í nærri 28 ár.
Bandaríkjamenn tóku nú aftur við stjórn Gvam og hafa haldið henni síðan. Þar var reistur mikill flugvöllur sem var þýðingarmikill í Víetnam-stríðinu og þar eru enn mikil umsvif.
Íbúar á Gvam eru nú rúmlega 160.000. Rúm 37 prósent eru af kamarróskum uppruna, um 30 prósent eiga rætur á Filippseyjum, um 7 prósent eru af evrópskum og bandarískum uppruna og um 7 prósent frá eyjunni Tsjúk eða Trúk sem er í um 1.000 kílómetra fjarlægð úti í hafinu.
Hreyfing er á Gvam um að öðlast aukið sjálfstæði frá Bandaríkjunum en hún hefur enn sem komið er ekki orðið verulega öflug. Mjög margir eyjaskeggjar hafa atvinnu af ferðamönnum, sem eru meira en milljón á ári, flestir frá Japan. Einnig hafa margir vinnu í tengslum við bandarískar herstöðvar en á Gvam er ekki aðeins flugstöð heldur einnig stór flotastöð þar sem hin stærstu flugvélaskip hafa reglulega viðdvöl.
Og þessar bandarísku herstöðvar eru vitaskuld ástæða þess að Kim Jong Un sér nú ástæðu til að hóta árás á eyjuna.
Athugasemdir