Hér ríkir mikið góðæri samkvæmt öllum helstu fréttamiðlum. Það er uppsveifla og húsnæðisverð hefur aldrei verið hærra og hvaða moldarkofi sem er selst dýrum dómum svo framarlega sem hann er íbúðarhæfur fyrir túrista. Ferðalög seljast eins og heitar lummur þegar sumarið lætur standa á sér hérna heima og sala nýrra bíla nær nýjum hæðum.
Facebook-grúppur eins og Skreytum hús eru fullar af fólki sem er að breyta og bæta og peningar virðast ekki vera fyrirstaða hjá mörgum. Sem sagt, hin margfrægu hjól atvinnulífsins snúast hratt og örugglega og atvinnuleysi hefur varla verið minna í áraraðir.
Það að hér varð hrun virðist öllum gleymt nema nokkrum Pírötum og öðrum tuðandi kverúlöntum eftir því sem nýlegir bakþankar Fréttablaðsins greindu frá.
Lyf og annar lúxus
En hvað er á bakvið þessa glansmynd? Hafa virkilega allir það svona gott?
Stutta svarið er nei, langt í frá! Það eru margir sem hafa það verulega skítt og eiga varla fyrir mat og húsnæði hvað þá lúxusvarningi eins og lyfjum.
Góðærið virkar fyrir þá sem eiga peninga, eru í góðum stöðum og hafa þak yfir höfuðið. Oft er vitnað í meðallaun sem mér skilst að hafi aldrei verið hærri en meðaltöl segja ekki neitt þegar að er gáð. Það þarf ekki svo marga með ofurtekjur til að draga það uppá við og það er nákvæmlega það sem er að gerast.
Þeir sem eru í millitekjuhópnum geta jú sennilega leyft sér eitthvað örlítið meira í svona uppsveiflu en oft er það gert út á krít og skuldadagarnir koma fyrr en varir.
Sá hópur sem hefur það viðvarandi slæmt er lágtekjufólk með börn, öryrkjar og eldri borgarar. Þessir hópar þurfa mun meiri aðstoð heldur en mætti ætla í öllu góðærinu og hagur þeirra hefur ekki vænkast í samræmi við aukna hagsæld. Hjá þessum hóp er sama ástandið og áður. Á hverjum degi er háð barátta fyrir lífinu, slítandi og erfið barátta sem engan enda sér fyrir á.
„Á hverjum degi er háð barátta fyrir lífinu, slítandi og erfið barátta sem engan enda sér fyrir á.“
Kíkt undir glimmerið
Það eru alltaf á hverjum tíma við líði ákveðnar meðaltekjur og það verða alltaf einhverjir sem hafa það verulega gott og einhverjir sem líða skort. En munurinn hefur aukist og bilið breikkað og það uggvænlegt að hugsa til þess að hér er að þróast elíta sem býr á öðrum stöðum en almenningur og síaukinn fjöldi glímir við fátækt nánast allt sitt líf.
Þegar maður kíkir undir allt glimmerið sem fylgir góðærinu þá blasir við heldur ófögur mynd. Það þjóðfélag er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir. Skortur á sjúkrahúsrýmum fyrir alvarlega veikt fólk, skortur á lyfjum sem fólki eru nauðsynleg vegna þess að ríkisvaldið segir nei það eru ekki til peningar og þeir sem minnst bara úr bítum þurfa að neita sér um lyf og læknishjálp.
Þegar litið er á menntamálin þá eiga flestar menntastofnanir við erfiðleika að etja í fjármálum og ef þú ert eldri en 25 ára og átt ekki peninga þá getur þú ekki tekið stúdentspróf hvort sem er í venjulegum framhaldsskóla vegna aldurs eða í einhverri háskólabrúnni vegna blankheita.
Lendingin verður hörð
Húsnæðisskortur hefur sjaldan verið meiri og fæstir sem eru með lágar tekjur sjá fram á að geta eignast húsnæði eða fengið leigt á skynsamlegu verði.
Það er orðið daglegt brauð að sjá settar af stað safnanir til að styðja við bakið á þeim sem eru veikir eða hafa misst ættingja. Svona safnanir voru nánast undantekning á árum áður en virðast vera orðnar norm núna.
Þetta Ísland má helst ekki tala um því að það passar ekki inn í góðærismyndina sem er búið að byggja upp. Það má heldur ekki tala um að þetta góðæri er ekki að þakka djúpvitrum stjórnmálamönnum og gjörðum þeirra heldur er þetta bara hrein hundaheppni. Ísland varð allt í einu einn heitasti áfangastaður túrista og hér flæðir inn gjaldeyrir í samræmi við það.
Það eru hins vegar merki um að hér sé að hægja á straumnum til landsins, hvort um er að kenna lélegum innviðum eða okri á ferðamönnum er óvíst en lendingin getur orðið hörð og þá væri gott að við værum búin að fjárfesta í heilsu og menntun og gera þeim sem minnst hafa á milli handanna fært að lifa mannsæmandi lífi.
Áður en það kemur annað HRUUUUN.
Athugasemdir