Fyrir nokkrum árum síðan kom ég og baðst afsökunar á slæmri hegðun minni í Foldaskóla þau ár sem ég var þar við nám. Vegna þess að ég trúði því að ég hefði verið vandamálið.
Ég vil hér með draga þessa afsökunarbeiðni mína til baka. Ég ætla mér að skila ábyrgðinni þangað sem hún á heima. Til ykkar. Ég var ekki vont barn.
Ég er greindur með ADHD á mjög háu stigi og hefur það háð mér alla tíð og ykkur að segja var ég komin með þessa greiningu þegar ég gekk í Foldaskóla, en það breytti engu fyrir mína skólagöngu.
Í Foldaskóla fékk ég enga viðeigandi aðstoð við mínu ástandi eða rétt umhverfi til að geta sinnt mínu námi. Kennarar sýndu mér engan skilning og með sinni óþolinmæði létu þeir mér líða eins og ég væri heimskur og gjörsamlega vonlaus að geta ekki fylgst með eða verið rólegur í tímum (Guð má vita að mig langaði það).
Það voru engin uppbyggjandi úrræði sem mér stóðu til boða, enginn stuðningsfulltrùi mér til handar eða einhvers konar atferlismótun til að hjálpa mér að byggja upp sjálfstraust og að geta sinnt námi. Vegna þessa missti ég trúna á sjálfum mér og upplifði mig heimskan og vonlausan. Það tók mig mörg ár að gera mér grein fyrir að svo væri ekki. Ófagmannleg vinnubrögð í það minnsta.
„Ég upplifði mig sem vandamál allra í kringum mig, vandamál sem ég átti sjálfur að leysa“
Í Foldaskóla var ég beittur andlegu ofbeldi af hálfu kennara. Hann ítrekað sendi mig út í sjoppu til að athuga hvað klukkan var einungis til að losna við mig og hlaut mikinn hlátur nemenda við það, hann lét mig sitja heilu skólastundirnar við hliðina á sér við kennaraborðið þar sem ég þurfti að horfa framan í samnemendur mína sem glottu, einnig lamdi hann í borðið reglulega með priki og var mjög ógnandi. Hann gerði lítið úr mér ítrekað og fékk bekkinn til að hlæja að mér.
Þetta var mjög niðurlægjandi reynsla. Ég upplifði mig sem vandamál allra í kringum mig, vandamál sem ég átti sjálfur að leysa. En auðvitað gat ég það ekki, þar sem ég hafði hvorki næga innsýn, vitsmunalega getu eða andlegan þroska vegna aldurs. Ég þurfti á hjálp að halda og þið brugðust mér. Kennarar og skólastjórn.
Börn eru aldrei vandamálið, það er umhverfið sem er vandamálið. Umhverfi sem gerir ekki ráð fyrir börnum með röskun og veitir þeim ekki viðeigandi hjálp.
Ég vona frá mínum dýpstu hjartarótum að ástandið sé betra í dag og að þið veitið þeim nemendum, sem einhverra hluta vegna passa ekki inn í hið hefðbundna skólakerfi, betri aðstoð en ég fékk. Það eruð þið sem ættuð að biðjast afsökunar.
Athugasemdir