Nyrst í Ástralíu er þjóðgarðurinn Kakadu. Hann er gríðarlega stór, samsvarar nærri 20 prósentum af stærð Íslands. Og nú hafa fundist þar munir sem líklega verða til þess að hugsa þarf upp á nýtt alla sögu mannsins.
Eftir ýmsar nýlegar uppgötvanir - meðal annars að manntegundir hafi verið fleiri í árdaga en talið hefur verið - þá voru vísindamenn orðnir nokkuð sammála um þá atburðarás sem hér greinir:
Fyrir um 100.000 árum voru nokkrar manntegundir í heiminum - Neanderdalsmenn í Evrópu, Denisovar og Sólómenn í Asíu, Homo Sapiens í Afríku. Og vafalaust fleiri.
Þessar tegundir voru allar komnar af Suðuröpum í Afríku, þær voru ósköp svipaðar, stóðu allar á nærri því sama tæknistigi, og við - Homo Sapiens - vorum frændfólki okkar á engan hátt fremri.
Fyrir um 70.000 árum gerðist hins vegar eitthvað. Einhver stökkbreyting í heilastarfsemi Sapiens varð til þess að hann fór að hugsa hlutina upp á nýtt í bókstaflegri merkingu.
Hvað þetta var nákvæmlega er ekki vitað. Sumir vilja raunar ekki tala um eina einstaka stökkbreytingu, heldur fremur „þróunarstökk“. Það verður þó að liggja milli hluta hér.
Altént gerðist eitthvað ótrúlega hratt.
Kannski var það fólgið í aukinni getu til að tjá sig og eiga samskipti. Kannski snerist það frekar um að draga ályktanir og hugsa fram í tímann.
Hvað sem því líður, þá varð þetta þróunarstökk eða stökkbreyting til þess að Homo Sapiens tók heljarstökk fram úr frændum sínum og frænkum.
Mjög fljótlega eftir að þetta gerðist lagði hann upp frá Afríku og dreifðist um heiminn. Einna fyrst virðist hann hafa lagt af stað meðfram ströndum Asíu frá Arabíuskaga og um Indland og inn í Suðaustur-Asíu.
Þaðan komst hann svo furðu fljótt yfir til Ástralíu og var mættur þangað fyrir 45.000 árum eða svo.
Að fara alla þá vegalengd á aðeins 20.-25.000 árum var vel af sér vikið.
Fljótlega eftir að maðurinn kom til Ástralíu þá dó þar út mikil fána risavaxinna pokadýra af ýmsu tagi. Og segir sig sjálft að Sapiens hlýtur að vera sterklega grunaður um að hafa banað dýrunum.
Þessi atburðarás er til dæmis lögð til grundvallar í bókinni „Sapiens“ eftir ísraelska sagnfræðinginn Yuval Noah Harari sem ýmsir hafa lesið.
Og henni er líka fylgt í þessari flækjusögugrein hér sem ég skrifaði í Fréttablaðið fyrir tveimur árum.
En nú hafa fornleifafundirnir í Kakadu komið þessari sögu í algjört uppnám.
Eftir miklar rannsóknir hafa munir, sem þar fundust, verið tímasettir þannig að þeir séu alls ekki yngri en 65.000 ára gamlir, og ef til vill séu þeir allt að 80.000 ára gamlir.
Þetta þýðir ýmislegt. Ef menn hafa verið komnir til Ástralíu svo snemma hafa þeir til dæmis búið ásamt með og innan um stóru pokadýrin miklu lengur en áður hefur verið talið.
Það þýðir að það er ekki endilega beint samhengi milli komu mannsins og útrýmingar pokadýranna.
Þetta er samt ekki mesta byltingin sem hinir nýju fornleifafundir kunna að valda.
Því hvað verður um hina snyrtilegu kenningu um stökkbreytinguna í Afríku fyrir 70.000 árum (eða þróunarstökkið) - sem olli því að hugsun mannsins dýpkaði svo mjög og hann æddi af stað í ferðalög - ef það kemur svo í ljós að Homo Sapiens var þá þegar kominn til Ástralíu?!
Þetta er ekki bara spurning um að færa margnefnda stökkbreytingu aftur um 30.000 ár eða svo, þannig að hún hafi orðið fyrir 100.000 árum og menn hafi þá lagt af stað frá Afríku.
Heldur blasir þá við spurningin:
Af hverju höfum við fram að þessu ekki fundið nein merki um þessa blessuðu stökkbreytingu á tímabilinu fyrir 100.000-70.000 árum?
Hafa þau einfaldlega farið framhjá okkur?
Eða var framgangur Homo Sapiens afleiðing af þróun, sem fór fram víða um heim, en ekki einstöku stökki?
Og áttu hinar manntegundirnar - frændfólkið góða - kannski meiri þátt í þeirri þróun en talið hefur verið?
Spennandi tímar í vændum í forsögufræðum, svo mikið er víst!
Afkomendur frumbyggja á Kakadu-svæðinu eru altént hæstánægðir en fornleifauppgröfturinn fór fram í góðri samvinnu við þá.
Á vef Guardian er haft eftir einum talsmanni Mirarr-manna, sem þar búa:
„Við viljum gjarnan segja fólki að við höfum verið hér lengi - segja öllum Balanda [allir aðrir en frumbyggjar Ástralíu] þær sögur, að [okkar] fólk hafi verið hér í mjög langan tíma.“
Það má sannarlega til sanns vegar færa, og að því er virðist mun lengur en talið hefur verið.
Athugasemdir