Hersveitum sem dönsk yfirvöld sendu til Grænlands var skipað að vera í viðbragðsstöðu fyrir mögulega árás Bandaríkjanna, að því er danska ríkisútvarpið (DR) greindi frá í dag.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, dró í bili til baka hótanir um að ná Grænlandi með valdi eftir fund með Mark Rutte, framkvæmdastjóra NATO, á miðvikudag og sagðist hafa náð „rammasamkomulagi“ um eyjuna á norðurslóðum, sem þó hefur ekki verið kynnt fyrir grænlenskum stjórnvöldum.
Þar áður hafði Trump ekki útilokað beitingu valds og fullyrt að Bandaríkin þyrftu á Grænlandi að halda vegna „þjóðaröryggis“.
DR sagði að í tilskipun hersins í síðustu viku hafi komið fram að hermenn á Grænlandi skyldu vera búnir skotfærum.
Þar var einnig lýst fjölfasa aðgerð sem fól í sér möguleikann á að senda viðbótarliðsafla og búnað síðar, ef þörf krefði.
Bæði borgaralegar og hernaðarlegar flugvélar hófu þá að flytja hermenn og búnað til Grænlands, að sögn DR.
Herflutningurinn var opinberlega hluti af heræfingunni Arctic Endurance undir forystu Dana – sem danska stjórnin hefur sagt að muni halda áfram „stóran hluta næsta árs“.
Nokkrum dögum eftir að Trump tilkynnti að Bandaríkin myndu ná Grænlandi „með einum eða öðrum hætti“ sendu átta Evrópuríki nokkra tugi hermanna til Grænlands, opinberlega til að undirbúa æfinguna. Þar á meðal sendi íslenska landhelgisgæslan tvo menn.
Sumir hafa síðan farið, þar á meðal um 15 manna hópur Þjóðverja og nokkrir Svíar, á meðan aðrir halda áfram að koma.
DR greindi einnig frá víðtækum pólitískum stuðningi, bæði frá dönsku ríkisstjórninni og stjórnarandstöðunni, við að veita viðnám ef til árásar Bandaríkjanna kæmi.
Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, neitaði að tjá sig um fréttina þegar hann ræddi við fréttamenn í dag.



















































Athugasemdir