„Helvítis tík,“ sagði hann, eftir að hafa skotið hana í höfuðið í þremur tilraunum.
Hann hefur „algera friðhelgi“, sagði varaforsetinn JD Vance og sakaði hana um að vera „geðbilaða“.
Hún er sek um „hryðjuverk“ sagði heimavarnaráðherrann Kristi Noem.
Hún sýndi „vanvirðingu“, sagði forsetinn.
Á sama tíma og mesta herveldi heims hótar útþenslu og segir annað „óásættanlegt“ en að fá „að lágmarki“ að taka Grænland gegn vilja íbúanna, hafa aðferðir fólskunnar tekið yfir æðsta vald alríkisins.
„Þetta verður vandamál fyrir hann,“ sagði Bandaríkjaforsetinn, um æðsta kjörna ráðamann Grænlands, að hann vilji ekki leyfa honum að yfirtaka landið.
Háð sem valdbeitingartæki
Frá upphafi upprisu forsetans innan hans samfélags var aðferðin að niðurlægja og hóta fólki, oft undir formerkjum gríns. Núna lætur hann sér oft nægja að hóta án þess að dempa það með háði.
Í Hvíta húsinu er við einn ganginn röð ljósmynda af forsetum Bandaríkjanna, en forveri hans er ekki á mynd, eins og hinir. Þar er mynd af sjálfvirkum penna sem forsetar hafa notað við undirritanir. Eftir sjálfan sigurinn veltir hann sér upp úr niðurlægingu andstæðinga sinna.
Hér á landi höfum við smjörþef af innleiðingu niðurlægjandi háðs frá fólki sem „stundar stjórnmálaumræðu og uppistand jöfnum höndum“ og safnar viðhlæjendum með því að hæðast að útlendingum og útliti kvenna, svo dæmi sé nefnt, þannig að mörkin færast til og fólska verður smám saman lenska. Þeir sem andmæla eru svo sakaðir um að vera vinstrimenn, áður en yfirgangsseggurinn veltir sér yfir í fórnarlambsstöðu vegna fúkyrða sem einhverjir mæta fólsku hans með.
Fólskan getur borist til Íslands með eftiröpun, en líka með meðvirkni og yfirgangi.
Nú er fólskan orðin hrein, laus við húmor og háð, en niðurlæging blönduð við hreinar lygar sem byggja á endurskilgreiningu tungumálsins. Orð eins og öryggi, hryðjuverk og friður, öll orðin öfugsnúin, öll vopnvædd.
Hin tæra fólska
Eitt það mest sláandi er ekki fólskuverkin sjálf heldur fölskvalaus óskammfeilnin.
Atvikin hafa sum gerst áður, í grófri skilgreiningu þeirra. Lögregla hefur drepið manneskju. Bandaríkin hafa ráðist inn í lönd, en þá reynt að réttlæta gjörðir sínar, þó stundum óheiðarlega. Nú er ekki reynt að réttlæta neitt, vegna þess að ríkjandi stjórnvöld viðurkenna ekki lögmæti neins annars en leiðtogans, sem sjálfur segist ekki þurfa alþjóðalög, aðeins eigið siðferði.
Eftir að George Floyd var drepinn af lögreglumönnum með því að þrengja að öndun hans við handtöku hófust Black Lives Matter mótmæli, sem leiddu meðal annars til þess að 17 ára piltur, Kyle Rittenhouse, ferðaðist til Wisconsin með AR-15 riffil á mótmæli og skaut þrjár menneskjur, þar af tvær til bana, en var svo sýknaður.
Þegar Renee Nicole Good hafði verið skotin til bana af ICE-fulltrúa í síðustu viku og fólk hóf mótmæli spurði Rittenhouse: „Ætti ég að ferðast yfir ríkismörkin yfir til Minnesota?“
Þetta er valdefling valdbeitingarinnar.
Það eru ekki blekkingarnar sem bregða, heldur róttækur heiðarleikinn sem felst í því að gera enga tilraun til að hylja óheilindin og dylja ódælskuna. Ráðamenn birta myndbönd sem sýna að konan sem var skotin reyndi að komast burt og forðast mennina sem öskruðu: „Farðu út úr helvítis bílnum.“ Sýna innflytjendalögreglu skjóta hana frá hlið, en fullyrða andspænis augljósum sönnunargögnum að hún hafi framið hryðjuverk, kona sem brosti að þeim, reyndi að snúa við bílnum og sagðist ekki vera reið. Í viðbrögðunum felast skilaboð um afhelgun lífsins.
Afhelgun
Ein aðferðin til að innleiða fólsku er að beita valdi til að afhelga það sem er heilagt, svo úr verður meinhæðni og meinfýsni. Valdbeitingin er þannig ekki nóg, heldur er háð og niðurlæging látin fylgja.
Jólakveðjur frá bandaríska alríkinu þetta árið voru öðruvísi en vestræn siðmenning á að venjast.
Heimavarnaráðuneytið gaf út jólalag sem beint var að innflytjendunum um brottvísun þeirra.

Hvíta húsið setti út kvikmyndaplakat með tilvísun í jólamyndina The Polar Express. „Trúðu því að þú getir farið heim!“ sagði þar undir titlinum Brottvísanalestin. „Það skiptir ekki máli hvert þú ert að fara. Það skiptir máli að fara um borð“.
„Nú er árstíð kærleika og friðar,“ segir í íslenskum jólatexta. Sama orðalag er þekkt vestanhafs í hvers kyns fögnuði yfir jólunum. „Nú er árstíð … fjöldabrottvísana,“ sagði í jólakveðju Heimavarnaráðuneytisins, Hvíta hússins og fleiri stofnana. „Kæru ólöglegu útlendingar, fljúgið heim um hátíðirnar!“
Glaðhlakkalegur boðskapurinn um valdbeitingu og fjöldahandtökur, í bland við hátíðleika, er bæði hluti af yfirgengileika sem á að rýma fyrir öllu athæfi og svo leið til að stuða og lama gagnrýnendur.

Bandaríkjaforseti óskaði þeim sem hefðu látist í loftárásum hans á Nígeríu gleðilegra jóla og stríðsmálaráðherrann bauð okkur „velkomin í 2026“ eftir hernaðaraðgerðina í Venesúela, þar sem 70 voru drepnir og forsetinn handtekinn, samhliða yfirlýsingu um að olían yrði nýtt og þeir sjálfir myndu stýra landinu.
Afhelgunin hófst löngu fyrr. Eins og áður var notað háð. Síðasta vor birti forsetinn mynd af sér í klæðum páfa. Síðar á árinu deildu þau myndböndum af honum að setja á sig kórónu, sem gengur gegn öllum gildum bandarísku stjórnarskrárinnar, sögu og stjórnmála, á meðan stjórnmálamenn, sem ekki hafa enn beygt sig fyrir honum, krupu og lutu höfði.
Þegar milljónir landsmanna mótmæltu andlýðræðislegum aðgerðum birti hann myndband af sér að dæla skít yfir þau úr lofti, sem orrustuþotuhermaður, en hann hafði komið sér undan herskyldu sem ungur maður.
Að spyrja í dag „hefurðu enga sómakennd?“ - spurningarinnar sem afhjúpaði og afvopnaði McCarthyismann - hefur enga merkingu lengur. Það er engin sómakennd, eða það vilja þau innleiða. Tími velsæmis er liðinn. Allt er spillt og því má valdið allt.

Samstillt áróðursherferð
Samhliða uppgangi fólskunnar er skilgreining á því hverja má beita henni. Þann söguþráð er búið að spinna og vefa. Nú stendur yfir mátun.
Helstu ríkisstofnanir, ráðuneyti og ráðamenn Bandaríkjanna hafa staðið í áróðursherferð í stíl þjóðernissinnaðra fasista á síðustu öld.
„Eitt föðurland. Ein þjóð. Ein arfleið,“ segir í auglýsingu bandaríska atvinnuráðuneytisins, með textanum: „Mundu hver þú ert.“
„Framtíðin tilheyrir föðurlandsvininum. Umfaðmaðu ameríkanisma,“ segir ráðuneytið annars staðar.
Myndir af hvítum Bandaríkjamönnum fortíðar skreyta auglýsingarnar.
„Við munum endurheimta heimili okkar,“ segir Heimavarnaráðuneytið í auglýsingu og birtir slóð á umsóknarvef fyrir ICE-sveitirnar.


„Bandaríkin eftir 100 milljón brottvísanir,“ sagði í færslu Heimavarnaráðuneytisins á gamlársdag við mynd gömlum lúxusbíl á ströndinni við textann:

„Friður þjóðar sem ekki er lengur umsetin af þriðja heiminum.“
Sama dag birti það mynd af vopnuðum mönnum við vefslóð að umsóknarvef fyrir ICE: „Verið föðurlandsvinir meðal föðurlandsvina. Bandaríkin urðu fyrir innrás glæpamanna og rándýra. Við þurfum ÞIG til að koma þeim út!“
Fólskunni verður hins vegar ekki aðeins beint inn á við. „Þetta er OKKAR heimshluti,“ segir í færslu utanríkisráðuneytisins.
„Allt minna en“ að taka yfir Grænland er „óásættanlegt“, sagði Trump í fyrrinótt.
Og af hverju að hætta þar? Verðandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi grínaðist með það í gær, samkvæmt frásögn Politico, að Íslandi yrði 52. ríki Bandaríkjanna.

Yfirgangur og yfirtökur
Síðasta haust var nafni varnarmálaráðuneytisins breytt í stríðsmálaráðuneytið, vegna þess að það stendur ekki til að verjast heldur heyja árásarstríð. Eftir Seinni heimsstyrjöldina var lögð áhersla á varnir og nafnabreytingin átti að fylgja því.
„Einn okkar, allir ykkar,“ segir á ræðupúlti heimavarnaráðherrans, Kristi Noem.
Nú má ekki aðeins drepa þá sem teljast vera hryðjuverkamenn, í útvíkkaðri skilgreiningu sem nær yfir hugsanlegt fíkniefnasmygl og mótmæli, heldur stunda hóprefsingu.
Það er verið að undirbúa almenning undir átök. Slagorðið: „Fuck Around, Find Out“, í skammstöfuninni FAFO, eru skilaboð til almennings um að refsað verði fyrir mótmæli og skort á fylgisspekt. Heill merkingarheimur valdbeitingar tekur yfir.
„Haldið víglínunni, föðurlandsvinir,“ segir við mynd af forsetanum með skyggt andlit í enn einni færslu bandarískra stjórnvalda. „Þjóð okkar er þess virði að berjast fyrir.“

„Bræði réttlætisins“
„Hann mun bráðum standa andspænis bræði bandarísks réttlætis á bandarískri jörð í bandarískum dómstólum,“ sagði Pam Bondi dómsmálaráðherra eftir herferðina og ránið á forseta Venesúela.
Réttlætið hefur oft verið kallað blint. Réttlæti bræðinnar er annað. Bandaríkjastjórn er að marka leiðina á heiðarlegan hátt og senda okkur skýr skilaboð. Hún snýst um að það megi fara fólskulega fram gegn tveimur hópum: Þeim sem ekki fylgja valdi alríkisins undir Trump og þeim sem ekki falla undir skilgreininguna á upprunalegum hvítum Bandaríkjamanni.
Það vekur strax spurningar um hvað hann ætlar að gera við fólkið sem hann innlimar í Bandaríkin, en fellur ekki undir skilgreiningu hans á alvöru og æskilegum Bandaríkjamönnum.
Jarðvegurinn hefur verið plægður fyrir að gera tilvist stórra, skilgreindra hópa fólks óæskilega. Þeir hafa verið metnir óvinir samfélagsins. Sögulega hefur þessi lífssýn, í bland við samþjöppun valds, verið aðdragandi ódæða. Það er þá sem fólskan getur uppfærst í illsku.
Spurningar fyrir 2026
Tvær lykilspurningar eru eftir fyrir árið 2026 og sú þriðja fyrir okkur sjálf. Fyrst er það: Hver mun halda aftur af forsetanum og hversu langt gengur hann í ástandi hömluleysis?
Hann er nú þegar farinn að grínast með að aflýsa bandarísku þingkosningum næsta haust. Hættan er að við förum úr háði í hótanir og þaðan í hreina valdbeitingu og víxlverkandi valdasamþjöppun sem verður erfitt að vinda ofan af.
Kannski var réttlætið blint, áður en það var gætt bræði við yfirstandandi yfirtöku forsetans á því, en það er óþarft að við séum það. Þess vegna þurfum við að spyrja aftur, eftir að hafa hlustað betur á þau: Eigum við örugglega að treysta svona fólki, í þessu ástandi?





















































Athugasemdir (1)