Bandarísk yfirtaka gæti leitt til mengunar á Íslandi

Geisla­virkni í jarð­lög­um þar sem finn­ast sjald­gæf­ir málm­ar á Græn­landi hef­ur hindr­að námugröft. Jarð­efna­fræð­ing­ur var­ar við því að Banda­rík­in gætu huns­að um­hverf­isáhrif og vald­ið um­hverf­is­slysi sem næði til Ís­lands.

Bandarísk yfirtaka gæti leitt til mengunar á Íslandi
Ágengni á vafasömum forsendum JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti í fyrra bandarísku herstöðina í Pituffik nyrst á Grænlandi, til að fylgja táknrænt eftir áhuga á að innlima landið í Bandaríkin. Þrátt fyrir að vísa til öryggissjónarmiða hafa Bandaríkin dregið verulega úr og haldið aftur af viðveru bandaríska hersins á Grænlandi, sem er heimilaður með varnarsamningi frá árinu 1951. Mynd: AFP

Námavinnsla á Grænlandi gæti framkallað „umhverfisslys“ sem berst til Íslands, að sögn jarðefnafræðingsins Haraldar Sigurðssonar. Hann varar við því að yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi gæti fylgt umhverfissóðaskapur, þar á meðal geislavirkni.

Haraldur, sem býr í Bandaríkjunum, segir að ástæður fyrir því að námuvinnsla hafi ekki aukist á Grænlandi sé fyrst og fremst lógistík, eða ferlar, innviðir, staðhættir og fjarlægðir, sem og að geislavirk efni séu í jarðlögum þar sem sjaldgæfa málma má finna. Ný náma, sem áætlað er að muni opna 2028, gæti orðið sú stærsta í heiminum með sjaldgæfa jarðmálma.

„Mikið umhverfisslys“ mögulegt

Nú þegar eru því engar pólitískar eða viðskiptalegar hindranir fyrir námuvinnslu á Grænlandi, aðrar en sem viðkemur vilja landsmanna og tilraunum þeirra til að koma í veg fyrir mengun.

Hættan sé að ef Bandaríkin yfirtaki Grænland með valdi, eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur endurtekið boðað, muni þeir heimila mengandi námuvinnslu, enda hefur forsetinn unnið að afregluvæðingu og afnumið verndarstöðu landsvæða og hafsvæða á forsetatíð sinni.

„Ef Ameríkanar ráðast inn á svæðið er ólíklegt að þeir virði þau skynsamlegu mörk sem nú ríkja varðandi umhverfisvernd og skaðleg áhrif geislavirkra efna,“ skrifar Haraldur á Facebook-síðu sinni. „Þá getur orðið mikið umhverfisslys sem kann að hafa áhrif á næsta nágranna, Ísland. Yfirborðsstraumurinn milli Íslands og Grænlands er Austur-Grænlandsstraumurinn, sem stefnir til suðvesturs, en ekkert er vitað um hugsanlega dreifingu á námuúrgangi í hafinu á þessum slóðum.“

Haraldur SigurðssonEr einn fremsti eldfjallafræðingur heims.

Flytja þyrfti inn námumenn

Lítið er um námuvinnslu á Grænlandi nú þegar. Að mati Haraldar „ættu Íslendingar að fagna því að námurnar eru ekki komnar í gang, því mengunin og sóðaskapurinn mun þá fljótt berast þessa stuttu leið til Íslands.“

Haraldur lýsir því hvernig geislavirkni hefur hindrað námuvinnsluna.

„Það kom snemma í ljós að fornar jarðmyndanir Grænlands innihalda mikið magn af geislavirkum efnum eins og úran og þóríum. Á dögum Kalda Stríðsins varð Grænland því spennandi svæði til að vinna þessa málma fyrir kjarnorkuver Dana og til vopnagerðar,“ segir Haraldur.

„Frægasti efnafræðingur Dana, Niels Bohr, kom til dæmis til Grænlands 1957 í því sambandi. En síðar átta menn sig á því að úran og þóríum eru stórhættuleg geislavirk efni, sem hafa mjög skaðleg áhrif á mannslíkamann og allt lífríki yfir langan tíma. Yfirvöld héldu lengi vel mikilli leynd yfir upplýsingum varðandi hættu af völdum geislavirkni en nú eru áhrifin vel þekkt og oft banvæn. Það kom fljótt í ljós að mikilvæg námusvæði á Grænlandi sem voru rík af sjaldgæfu málmunum innihalda einnig mikið magn af úran og þóríum.“

Haraldur lýsir því hvernig staðhættir og skortur á innviðum hafi sömuleiðis hindrað uppbyggingu námuvinnslu.

„Samgöngur eru erfiðar og dýrar í landi sem hefur aðeins rúmlega 100 km af vegum. Það er dýrt að reka þyrluflug til samgangna. Hafnarskilyrði eru einnig mjög takmörkuð en strandferðir skipa er framtíðin. Námufélag sem stefnir á stórt verkefni verður því að byggja upp alla staðhætti frá grunni, höfn, orkuver, þorp, skóla, sjúkrahús, flugvöll og svo framvegis. Stofnkostnaður er því mikill. Einnig þarf sennilega að flytja inn erlenda námumenn og annað starfslið. Loftslag og hinn langi, dimmi og kaldi vetur er auðvitað stór þáttur í erfiðum staðháttum.“

Námuvinnsla þegar til staðar

Það breytir því þó ekki að nú þegar eru tvær námur í notkun og stór náma á teikniborðinu, enda er Grænland „almennt talið vera eitt auðugasta svæði á jörðu hvað snertir málma og önnur dýrmæt efni í jörðu“, að sögn Haraldar.

„Mikið er fjallað um námurekstur á Grænlandi í dag, en raunveruleikinn er sá að það eru nú aðeins tvær virkar námur á Grænlandi,“ segir Haraldur. Önnur þeirra er vinnur bergtegundina anortósít, sem er malað og notað í málningu og skraut. Hin er gullnáma Amaroq, sem stofnað var og er stýrt af Íslendingnum Eldi Ólafssyni. Eldur hefur sagt frá því í innlendum og erlendum fjölmiðlum að hann sjái mikil tækifæri í ásælni Bandaríkjanna í Grænland, þar sem slíkt geti ýtt undir fjárfestingu. Amaroq er skráð í kauphöllina í Kanada og á Íslandi og hækkaði gengið snarpt í vikunni þegar Eldur greindi frá áhuga bandaríska alríkisins til að kaupa hlut í félaginu.

Annars staðar hefur verið horfið frá námuvinnslu vegna geislavirkni í jarðlögum. Það gildir um námu á Kvanefjeld-svæðinu í miðri Eystribyggð, þar sem Eiríkur rauði nam land um 985. Náman lá skammt fá Bröttuhlíð, þar sem Eiríkur rauði reisti sér bæ. En með námunni stefndi í umhverfisslys sem lýðræðið og stjórnmálin á Grænlandi komu í veg fyrir.

„Grænlendingum leist illa á þetta og vildu koma í veg fyrir mikið umhverfisslys,“ lýsir Haraldur. Flokkurinn Inuit Ataqatigiit komst til valda, sem er sjálfstæðissinnaður vinstri flokkur undir forystu Múte B. Egede, formanns landsstjórnar Grænlands þar til í fyrra. Árið 2021 samþykkti þingið bann á vinnslu geislavirkra efna og vinnslu á bergi sem inniheldur meira en 100 ppm (milljónustuhluta) af úran eða þóríum. Í berginu á fyrirhugaða námusvæðinu var um 360 ppm af úran, að sögn Haraldar.

Annars staðar í gömlu Eystribyggð, sunnarlega í landinu á vesturströndinni, er verið að undirbúa námugröft í fjallinu Kringlerne, eða Killavaat. Þar er magn geislavirks úrans um 100 ppm, eða milljónustuhlutar, og sjaldgæfir jarðmálmar um 500 milljón tonn, að sögn Haraldar.

Verkefnið sem stefnir í að verða jafnvel stærsta náma heims með sjaldgæfa jarðmálma er í eigu bandaríska fyrirtækisins Critical Metals Corp. og ástralska námufélagsins Rimbal Pty Ltd. Til umræðu hefur verið að bandaríska alríkið kaupi hlut í félaginu.

Við NuukDanska varðskipið P572 Lauge Koch liggur út af Nuuk, á kosningadegi í mars í fyrra. Í kosningunum var 31 meðlimur grænlenska þingsins, Inatsisartut, kjörinn, og náðu Demókratar, sem vilja fara hægt í sjálfstæði, yfirhöndinni og formennsku í landstjórninni.

Vilji Grænlendinga ekki atriði fyrir Trump

Sem fyrr segir hafa Grænlendingar hindrað námuvinnslu þegar umhverfisáhrifin eru metin of mikil, en þar liggja hagsmunir íslensku og grænlensku þjóðarinnar saman.

Óvíst er þó hver dreifing hugsanlegrar mengunar gæti orðið og hver áhrifin yrði á Ísland.

„Yfirborðsstraumurinn milli Íslands og Grænlands er Austur-Grænlandsstraumurinn, sem stefnir til suðvesturs, en ekkert er vitað um hugsanlega dreifingu á námuúrgangi í hafinu á þessum slóðum,“ segir Haraldur.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur gefið til kynna að hann telji andstöðu Grænlendinga við að verða innlimaðir í Bandaríkin ekki vera hindrun fyrir yfirtökunni. Í gær hótaði hann Grænlendingum beinlínis.

„Ég myndi vilja gera samning, þú veist, á auðveldan hátt. En ef við gerum það ekki á auðveldan hátt, þá munum við gera það á erfiðan hátt,“ sagði Trump á fundi í Hvíta húsinu með stjórnendum olíufyrirtækja í gær, þar sem hann reyndi að sannfæra þá um fjárfestingu eftir valdaskiptin í Venesúela við handtöku sem Trump fyrirskipaði á forseta þess lands.

Allir stjórnmálaflokkarnir á grænlenska þinginu gáfu út yfirlýsingu í gær um að Grænlendingar vildu ekki verða bandarískir. Spurður út í andstöðu Grænlendinga sagði Trump að hann ætlaði „að gera eitthvað varðandi Grænland, hvort sem þeim líkar betur eða verr.“

Kjósa
11
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • RTG
    Reynir Tómas Geirsson skrifaði
    Ísland á að styðja Grænland gegn ásælni BNA. Trump mun not sömu orðræðu til að taka Ísland (og Kanada) þar á eftir.
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var lifandi dauð“
4
Viðtal

„Ég var lif­andi dauð“

Lína Birgitta Sig­urð­ar­dótt­ir hlú­ir vel að heils­unni. Hún er 34 ára í dag og seg­ist ætla að vera í sínu besta formi fer­tug, and­lega og lík­am­lega. Á sinni ævi hef­ur hún þurft að tak­ast á við marg­vís­leg áföll, en fað­ir henn­ar sat í fang­elsi og hún glímdi með­al ann­ars við ofsa­hræðslu, þrá­hyggju og bú­lemíu. Fyrsta fyr­ir­tæk­ið fór í gjald­þrot en nú horf­ir hún björt­um aug­um fram á veg­inn og stefn­ir á er­lend­an mark­að.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár