„Friðarforsetinn“ Trump ræðst á Venesúela

Trump seg­ist hafa lát­ið hand­taka for­seta lands­ins.

„Friðarforsetinn“ Trump ræðst á Venesúela
Eldur í Caracas Fuerte Tiuna, stærsta herstöð Venesúela, sést úr fjarlægð eftir röð sprenginga í höfuðborginni Caracas í dag. Mynd: AFP

Bandaríkin réðust í morgun á Venesúela og segjast hafa handtekið forseta landsins, Niculas Maduro, og eiginkonu hans, undir því yfirskini að þau eigi aðild að fíkniefnasmygli.

Landið býr yfir stærstu olíuauðlindum allra ríkja, svo vitað sé, en býr einnig við einræðisstjórn. Venesúela hefur farið fram á fund í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandið kallar eftir virðingu fyrir alþjóðalögum. Þá vilja Rússar vita hvar Maduro er niðurkominn.

„Bandaríkin hafa gert umfangsmikla árás á Venesúela og leiðtoga þess, Nicolas Maduro forseta, sem hefur verið handsamaður ásamt eiginkonu sinni og fluttur úr landi,“ segir Trump á miðli sínum Truth Social. „Þessi aðgerð var unnin í samvinnu við bandarísk lögregluyfirvöld. Nánari upplýsingar fylgja síðar. Blaðamannafundur verður haldinn í dag kl. 11 í Mar-a-Lago. Þakka ykkur fyrir athyglina á þessu máli! DONALD J. TRUMP forseti.“

Sagðist verða friðarforseti

Donald Trump sneri aftur í embætti og hét því að verða friðarforseti. Tæpu ári síðar hefur hann tekið stríði opnum örmum á mörgum vígstöðvum.

Trump fyrirskipaði í dag umfangsmiklar hernaðarárásir í Venesúela og tilkynnti að vinstrisinnaði leiðtoginn Nicolas Maduro hefði verið handtekinn og fluttur úr landi.

Árásin í ársbyrjun kemur í kjölfar þess að bandaríski herinn gerði árásir á Nígeríu á jóladag, í aðgerð sem Trump sagði að beindist gegn jihadistum sem hefðu ráðist á kristna.

Og nokkrum klukkustundum fyrir árásina í Venesúela varaði Trump við annarri íhlutun Bandaríkjanna á þriðja svæðinu og sagði að bandarískar hersveitir væru „tilbúnar í tuskið“ ef klerkastjórnin í Íran myndi drepa mótmælendur sem hefðu farið út á götur.

Stríðsáhuginn virðist stangast á við forseta sem hefur lýst því hástöfum yfir að hann eigi skilið friðarverðlaun Nóbels fyrir að hafa að sögn bundið enda á átta stríð, sem er mjög umdeild fullyrðing.

Í annarri innsetningarræðu sinni 20. janúar á síðasta ári sagði Trump: „Stoltasta arfleifð mín verður að vera friðarsinni og sameiningartákn.“

En skömmu síðar endurskírði Trump varnarmálaráðuneytið „stríðsmálaráðuneytið“.

Á sama tíma og Bandaríkin hafa lýst Suður- og Norður-Ameríku sem áhrifasvæði sínu í nýrri þjóðaröryggisstefnu hafa bæði Trump og aðstoðarmenn hans halda því fram að hervald sé leiðin að raunverulegum friði. 

„Við erum að skapa frið með styrk. Það er það sem við erum að gera,“ sagði Trump á fjöldafundi í Pennsylvaníu í síðasta mánuði.

„Friður með styrk“ var frægt slagorð Ronalds Reagans þegar hann ýtti undir gríðarlega hernaðaruppbyggingu í lok kalda stríðsins og var eignað rómverska keisaranum Hadríanusi sem byggði upp varnir.

En sú stefna var almennt skilin sem leið til að koma í veg fyrir að stríð hæfist.

„Svokallaðir þjóðarbyggjendur“

Það sem gerir ást hans á valdi enn meira sláandi er að Trump hefur ekki aðeins lýst sjálfum sér sem friðarsinna heldur hefur hann talað gegn íhlutunarstefnu Bandaríkjanna í mörg ár.

Með yfirlýsingunni „Bandaríkin fyrst“ stillti hann sér upp sem annars konar repúblikana en síðasti forseti flokksins, George W. Bush, en stjórn hans gagnrýndi hann harðlega sem stríðsæsingamenn vegna innrásarinnar í Írak árið 2003.

Í ræðu í Riyadh í maí sagði Trump að „svokallaðir þjóðarbyggjendur eyddu mun fleiri þjóðum en þeir byggðu“ og skildu ekki löndin þar sem þeir gripu inn í.

Einn lykilmunur á honum og Bush er að Trump hefur ekki látið í veðri vaka að um langtímaskuldbindingu sé að ræða.

Á síðasta ári fyrirskipaði hann sprengjuárásir á írönsk kjarnorkusvæði til stuðnings ísraelskri árás, auk árása í Sýrlandi til að hefna fyrir morð á bandarískum hermönnum.

En líkt og Bush, þá er Trump sama um samþykktir Sameinuðu þjóðanna eða aðra alþjóðlega samninga um stríð.

Stjórn Trumps heldur því fram að Maduro hafi verið eftirlýstur vegna fíkniefnaákæru í Bandaríkjunum, en ríkisstjórn Maduros er aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, jafnvel þótt flest vestræn ríki telji hann ólögmætan í forsetastóli í kjölfar kosninga sem einkenndust af óreglu.

Úr löggu í eineltissegg

Öldungadeildarþingmaðurinn Ruben Gallego, demókrati og uppgjafahermaður úr Íraksstríðinu, kallaði Venesúela „annað óréttmæta stríðið á minni ævi,“ þótt hann væri sammála því að Maduro væri einræðisherra.

„Það er vandræðalegt að við fórum úr því að vera heimsins lögga yfir í að vera heimsins eineltisseggur á innan við ári. Það er engin ástæða fyrir okkur að vera í stríði við Venesúela,“ sagði hann á X.

Það er kaldhæðnislegt að nýjustu friðarverðlaun Nóbels, sem Trump þráir svo heitt, fóru til stjórnarandstöðuleiðtogans í Venesúela, Maria Corina Machado, en nafn hennar virtist bandaríski forsetinn ekki þekkja í fyrstu.

Trump hefur þó unnið ein friðarverðlaun síðan hann tók við embætti.

Forseti FIFA, Gianni Infantino, afhenti Trump í síðasta mánuði verðlaun frá alþjóðaknattspyrnusambandinu í aðdraganda þess að Bandaríkin halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu.

Infantino sagði að Trump, sem hefur hæðst að innflytjendum frá þróunarlöndum og hótað ofbeldi gegn innlendum andstæðingum, fengi viðurkenningu fyrir „einstakar og óvenjulegar aðgerðir til að stuðla að friði og einingu um allan heim.“

Fékk verðlaunGianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusamtakanna FIFA, veitti Trump friðarverðlaun fyrir hönd samtakanna, þegar dregið var í riðla fyrir keppnina sem halda á í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada í sumar.

ESB vill að alþjóðalög séu virt

ESB kallaði eftir hófstillingu og virðingu fyrir alþjóðalögum í Venesúela á laugardag eftir að Donald Trump forseti tilkynnti að bandarískar hersveitir hefðu handsamað leiðtogann Nicolas Maduro í stórfelldri árás.

„ESB hefur ítrekað lýst því yfir að hr. Maduro skorti lögmæti og hefur talað fyrir friðsamlegum valdaskiptum,“ skrifaði Kaja Kallas, æðsti erindreki sambandsins, á X eftir að hafa rætt við bandaríska utanríkisráðherrann, Marco Rubio.

„Í öllum kringumstæðum verður að virða meginreglur alþjóðalaga og sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við köllum eftir hófstillingu,“ skrifaði hún.

ESB hefur ekki viðurkennt niðurstöður kosninganna árið 2024 sem veittu Maduro þriðja kjörtímabilið, og hefur beitt tugi venesúelskra embættismanna refsiaðgerðum fyrir að grafa undan lýðræði í landinu.

Innanríkisráðherra Venesúela, Diosdado Cabello, sagði í morgun að land sitt „myndi sigrast á“ hrinu hernaðarárása Bandaríkjanna.

Cabello, sem er talinn einn valdamesti maðurinn í Caracas, sagði í viðtali við staðbundna sjónvarpsstöð að „í lok þessara árása munum við sigrast,“ og bætti við að „þetta er ekki okkar fyrsta barátta gegn þjóð okkar ... okkur hefur tekist að lifa af við allar aðstæður.“

Ný þjóðaröryggisstefna boðar afskipti

Þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar Trumps um afskiptaleysi og áherslu á frið hefur hann tekið upp róttækt breytta stefnu sem kristallaðist í nýrri þjóðaröryggisstefnu í desember. Þar var boðuð uppfærð „Monroe-kenning“ um rétt Bandaríkjanna til að stjórnma málum í Suður-Ameríku. Trump hefur haft afskipti af kosningum í Hondúras og Argentínu með því að hóta afleiðingum fyrir löndin séu hans fulltrúar ekki kjörnir. Þá náðaði hann fyrrverandi forseta Höndúras, sem hafði verið dæmdur í 45 ára fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að eiga þátt í fíkniefnasmygli til Bandaríkjanna. 

Bandaríkin hafa síðan drepið á annað hundrað manns í loftárásum í Karíbahafi og Kyrrahafi vegna ásakana um fíkniefnasmygl.

Í þjóðaröryggisstefnunni voru boðuð afskipti af innanríkismálum Evrópuþjóða, með orðréttri áherslu á „að ýta undir andstöðu innan Evrópuþjóða við núverandi stefnu álfunnar“, einna helst í innflytjendamálum. Dregið er mjög úr áherslu á að Rússland væri ógn.

Trump hefur ítrekað talað um að Bandaríkin „þurfi“ að yfirtaka Grænland í skyni þjóðaröryggis og ekki útilokað beitingu hervalds, þótt hann telji það ekki þurfa.

Kjósa
5
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • JG
    Jón Gíslason skrifaði
    Við þau sem ennþá eru dyggir stuðningsmenn Trumps er lítið hægt að segja til að ná til þeirra. Hann sóttist eftir því að verða forseti til að fá enn meiri völd, upphefja sjálfan sig og hefna sín á Obama eftir kvöldverðinn 2015 þar sem gert var gys að honum. Punktur.

    Fólk virkilega trúir því ennþá að Trump vildi komast í embættið vegna þess að hann vildi berjast fyrir fólk. Stuðningsfólk hans heldur í alvöru að honum sé svo annt um velfarnað vinnandi fólks verandi viðskiptajöfur með sjálfsdýrkun og skort á veruleika tengingu við meðal Bandaríkjamanninn. Hneykslismálin sem hafa hrannast upp á síðastliðnum árum tengd honum segja meira en þúsund orð. Er fólk í alvöru svo blint af hollustu við hann að það skynjar hluti sem hann hefur gert, gerir og segist ætla að gera sem hið fínasta mál en myndi á sama tíma hneykslast og froðufella yfir því ef annar stjórnmálamaður gerði sömu hlutina?

    Saksóknarinn Kamala Harris og viðskiptajöfurinn Donald Trump eru ekki samanburðarhæf í stjórnmálum. Einhver má endilega benda mér á þau ógrynni af hneykslismálum sem hafa skotið upp kollinum í tengslum við Harri sem gerðu hana að slæmum kosti sem forseta. Verri en Trump þ.e.a.s. Ég bíð.
    0
  • Gunnar Björgvinsson skrifaði
    Tilgáta um brjálsemi þjóðarleiðtoga

    Þjóðarleiðtogar eru oft miklir egóistar og eru í stöðugri keppni um að vera fremstir. það er þessi keppni um að vera fremstir sem veldur brjálsemi þeirra - það kemst ekkert annað að. Sumir þeirra vita ekki afhverju þeir vilja vera þjóðarleiðtogar, þeir vita það eitt að þeir vilja vera fremstir.

    Þjóðarleiðtogar eiga það til að fangelsa eða ryðja úr vegi stjórnarandstæðingum og þeim sem gætu átt til að gagnrýna þá, dómurum og blaðamönnum og stundum fara þeir í stríð. Ástæðan fyrir þessu gæti verið að þeir eru að verja þá hugmynd um sjálfa sig, um að vera fremstir og til að þessi sjálfsmynd bíði ekki hnekki, gera þeir hvað sem er. Þeir eru í raun hræddir menn að verja hugmyndina um sjálfa sig sem mikilmenni og númer eitt og ryðja þeim úr vegi sem gætu raskað þeirri hugmynd.

    Rótin að þessu ástandi gæti verið lífsskoðun eins og sú, að láta engan vaða yfir sig. Í slíku lífsviðhorfi felst átök, jafnvel átakasækni (til að sanna sig) og ákveðin mikilmennskukennd, því ef enginn getur vaðið yfir viðkomandi þá hlýtur hann að vera númer eitt?

    Mótefnið við þessu kann að vera "jafnaðarmennska", tilfinningaleg meðvitund, kærleikur, átakafælni og muna að fæstir eru fullkomnir?
    1
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bandaríki Trumps

Mest lesið

Maður getur ekki tekið neinu sem sjálfsögðum hlut
6
Viðtal

Mað­ur get­ur ekki tek­ið neinu sem sjálf­sögð­um hlut

Linda Þor­valds­dótt­ir er húsa­mál­ari sem mál­ar mál­verk og steypu­lista­verk í líki dauð­ans hafa vak­ið at­hygli á lóð­inni henn­ar. Und­ir niðri kraum­ar þung­lyndi sem hef­ur fylgt henni alla tíð. Sorg­ina þekk­ir hún, eft­ir að hafa misst syst­ur sína en í fyrra lést barns­fað­ir henn­ar þeg­ar hann féll of­an í sprungu í Grinda­vík. Eft­ir kuln­un hóf hún störf hjá Kirkju­görð­um Reykja­vík­ur.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörðinni“
4
Innlent

„Allt í einu koma þessi skrímsli upp úr jörð­inni“

Und­ir­skrifta­söfn­un er haf­in til að mó­mæla fram­kvæmd­um í Skafta­felli. Fund­ur um breyt­ing­ar fram­kvæmd­anna var hald­inn um há­sum­ar. „Það dugði til að gera skyldu sína,“ seg­ir íbúi á svæð­inu. Íbú­ar ótt­ast að sam­keppn­is­hæfni muni minnka ef fyr­ir­hug­uð ferða­g­ist­ing rís. „Ég sé ekki ann­að en að þetta auki tekj­ur og at­vinnu á svæð­inu,“ seg­ir Pálm­ar Harð­ar­son, sem stend­ur að fram­kvæmd­inni ásamt Arctic Advent­ur­es.

Mest lesið í mánuðinum

„Ég var lifandi dauð“
2
Viðtal

„Ég var lif­andi dauð“

Lína Birgitta Sig­urð­ar­dótt­ir hlú­ir vel að heils­unni. Hún er 34 ára í dag og seg­ist ætla að vera í sínu besta formi fer­tug, and­lega og lík­am­lega. Á sinni ævi hef­ur hún þurft að tak­ast á við marg­vís­leg áföll, en fað­ir henn­ar sat í fang­elsi og hún glímdi með­al ann­ars við ofsa­hræðslu, þrá­hyggju og bú­lemíu. Fyrsta fyr­ir­tæk­ið fór í gjald­þrot en nú horf­ir hún björt­um aug­um fram á veg­inn og stefn­ir á er­lend­an mark­að.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár