Witkoff sendur til Moskvu í leit að friði

Ugg­ur og síð­an efi í Evr­ópu á með­an Banda­rík­in segj­ast vera að inn­sigla friðaráætl­un fyr­ir Úkraínu og Rúss­land. Er­ind­reki Trumps send­ur til fund­ar við Pútín, sem lét sprengj­um rigna yf­ir Kyiv í nótt.

Witkoff sendur til Moskvu í leit að friði
Steve Witkoff Sérstakur erindreki Bandaríkjaforseta í Úkraínustríðinu stefnir til Moskvu. Mynd: AFP

Donald Trump sagði í dag að hann væri að senda erindreka sinn, Steve Witkoff, til fundar við Vladimír Pútín, leiðtoga Rússlands, í Moskvu, þar sem Bandaríkjaforseti reynir að ganga frá samkomulagi um að binda enda á stríðið í Úkraínu.

Trump birti færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann sagði að „aðeins nokkur ágreiningsatriði væru eftir“ – en leiðtogar Evrópu voru efins og rússneskar eldflaugar héldu áfram að dynja á úkraínsku höfuðborginni Kyiv.

Hann lýsti einnig yfir von um að hitta Pútín og Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu, „bráðlega“, „en AÐEINS þegar samkomulagið um að binda enda á þetta stríð er ENDANLEGT eða á lokastigum.“

Upphafleg áætlun Bandaríkjanna, sem var mjög hliðholl Rússlandi, hefur verið leyst af hólmi með nýrri áætlun sem tekur meira mið af hagsmunum Úkraínu. Embættismaður sem þekkir til nýju útgáfunnar sagði AFP að hún væri „mun betri.“

Bandarískir embættismenn viðurkenndu þó að „viðkvæm“ mál væru enn óleyst.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, dró úr væntingum um skjóta lausn og sagði að „greinilega væri enginn vilji af hálfu Rússa“ til vopnahlés eða til að ræða nýju tillöguna sem er hliðhollari Úkraínu.

Lífleg umræða hefur staðið yfir síðan um helgina þegar fulltrúar Úkraínu og Bandaríkjanna komu saman í Genf til að ræða umdeilda 28 punkta áætlun Trumps um lausn á hinum blóðugu átökum.

Nýjustu viðræðurnar, þar sem sendinefndir Bandaríkjanna og Rússlands tóku þátt, fóru fram í Abu Dhabi, að því er bandarískir fjölmiðlar greindu frá. Leiðtogar hóps 30 landa sem styðja Úkraínu hittust einnig á fjarfundi í dag.

Bandaríski samningamaðurinn Dan Driscoll var bjartsýnn eftir fund með rússneskum starfsbræðrum sínum og talsmaður hans sagði: „Viðræðurnar ganga vel og við erum áfram bjartsýn.“

Hvíta húsið nefndi „gríðarlegan árangur“ en varaði við því að „nokkur viðkvæm en ekki óyfirstíganleg smáatriði þyrfti að leysa.“

En stríðið, sem hófst með allsherjarinnrás Rússa í Úkraínu árið 2022, hélt áfram af fullum krafti.

Öflugar sprengingar skóku Kyiv frá því um klukkan 1 að nóttu (23:00 að íslenskum tíma), þegar rússneskir drónar og eldflaugar kveiktu elda í íbúðabyggingum. Borgaryfirvöld sögðu að sjö manns hefðu látist.

Þykkur reykur, sem varð rauður og appelsínugulur í skothríð úkraínskra loftvarna, steig yfir höfuðborgina á meðan íbúar flúðu neðanjarðar í neðanjarðarlestarstöðvar, að sögn fréttamanna AFP.

„Erfið leið framundan“

Trump, sem lengi hefur stært sig af því að geta samið um endalok Úkraínustríðsins á 24 klukkustundum, tilkynnti í síðustu viku að hann vildi að friðartillaga sín yrði samþykkt af Kyiv fyrir næsta fimmtudag – þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum.

En upphaflega áætlunin, sem ýtti undir fjölmörg stríðsmarkmið Rússa, skapaði ugg í Úkraínu og Evrópu. Meðal atriða hennar voru bann við því að Úkraína gengi nokkurn tíma í NATO og krafa um að landið afsalaði sér nýjum landsvæðum til Rússlands sem ekki hafa verið hernumin.

Uppfærða áætlunin er greinilega stjórnvöldum í Kyiv meira að skapi. Embættismaðurinn sem þekkir til textans sagði AFP að eitt lykilatriði væri að hækka fyrirhugað þak á framtíðarherstyrk landsins úr 600.000 í 800.000 manns.

Úkraínski samningamaðurinn Rustem Umerov sagði í dag að „sameiginlegur skilningur væri á kjarna“ samkomulagsins milli Úkraínu og Bandaríkjanna.

Hins vegar ætti að ganga frá þeim smáatriðum sem eftir „við fyrsta tækifæri“ í beinum viðræðum milli Zelensky og Trump, sagði hann.

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, varaði við: „Það er enn langt í land og erfið leið fram undan.“

Rússar hafa hernumið um fimmtung Úkraínu, sem að stórum hluta er í rúst eftir bardaga. Tugþúsundir almennra borgara og hermanna hafa fallið og milljónir hafa flúið austurhluta landsins.

Ivan Zadontsev, liðþjálfi í úkraínska hernum, sagði að samningaviðræður væru „heilbrigðar.“

„Við erum líka að verða þreytt á stríði. Við þurfum hvíld,“ sagði hann við AFP.

En tillögur bæði Bandaríkjanna og Evrópusambandsins „þjóna ekki þjóðarhagsmunum Úkraínu,“ sagði hann.

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Úkraínustríðið

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim
2
ÚttektTýndu strákarnir

Týndu strák­arn­ir – sem fundu leið­ina heim

Á átján ára af­mæl­is­dag­inn vakn­aði Fann­ar Freyr Har­alds­son á neyð­ar­vist­un og fékk lang­þráð frelsi eft­ir að hafa þvælst í gegn­um með­ferð­ar­kerfi rík­is­ins. Hann, Gabrí­el Máni Jóns­son og Arn­ar Smári Lárus­son lýsa reynslu sinni af kerf­inu sem átti að grípa þá sem börn og ung­ling­ar. Tveir þeirra byrj­uðu að sprauta sig í með­ferð, samt sam­mæl­ast þeir um að þessi inn­grip séu lík­leg­asta ástæð­an fyr­ir því að þeir lifðu af. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði er fyr­ir stráka sem stend­ur.
„Eiginmaður minn hefur aldrei átt eignarhlut í Skeljungi“
3
Stjórnmál

„Eig­in­mað­ur minn hef­ur aldrei átt eign­ar­hlut í Skelj­ungi“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks í borg­ar­stjórn, fjall­aði ít­rek­að um samn­inga sem vörð­uðu lóð­ir bens­ín­stöðva þrátt fyr­ir að eig­in­mað­ur henn­ar stýrði móð­ur­fé­lagi Skelj­ungs. Lóð­ir bens­ín­stöðva Skelj­ungs hafa síð­an ver­ið seld­ar til tengdra fé­laga fyr­ir vel á ann­an millj­arð króna. Hún seg­ir hæfi sitt aldrei hafa kom­ið til álita.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár