slenskt efnahagslíf hefur vaxið umfram mörg viðmiðunarlönd síðustu ár, en stöðnun hefur leynst undir yfirborðinu.
Hagvöxtur á Íslandi hefur mælst ágætur síðustu ár. Raunhagvöxtur, að teknu tilliti til verðlags, hefur verið 2,6% að meðaltali árin 2020 til 2024, tvöfalt meiri en í Evrópusambandinu og örlítið meiri en í Bandaríkjunum.
Það segir hins vegar ekki alla söguna. Þegar tekið er tillit til mannfjölgunar, sem hefur verið mikil á Íslandi síðustu ár vegna innflutnings fólks, er hagvöxtur á Íslandi minna en þriðjungur af því sem hefur verið í Evrópusambandinu að meðaltali. Hagvöxtur á mann var aðeins 0,3% að meðaltali á ári síðustu fimm árin á Íslandi, en hann var 2,1% í Danmörku, 1,8% í Bandaríkjunum og 1% í Evrópusambandinu.
Þetta kemur fram í stöðugreiningu Stjórnarráðs Íslands fyrir atvinnustefnu Íslands, sem nú er komin í samráð.
Fjölgun innfluttra fylgir „verulegt álag“
Síðustu 15 árin hafa sviptingar í efnahagslífinu birst í því að húsnæði hefur hækkað þrefalt í verði að nafnvirði, en tvöfalt að raunvirði. Þetta hefur skert aðgengi almennings að húsnæði, sem ekki á það fyrir. Orsakir þess eru aukning útleigu íbúða til ferðamanna og fólksfjölgun, sem stafar að miklu leyti af þörf fyrir starfsfólk í ferðaþjónustu.
Sömu orsakaþættir hafa skapað álag á þjóðvegina, en umferð um Þjóðveg 1 jókst um 80% á síðustu 15 árum. Fjöldi barna á grunn- og leikskólaaldri sem eru með erlent ríkisfang hefur þrefaldast.
Heilbrigðiskerfið hefur ekki náð að halda í við fólksfjölgun. Þannig hefur sjúkrrýmum á hverja 100 þúsund íbúa fækkað um 30% frá því sem mest var árið 2007.
Staðnað hagkerfi
Hagkerfi Íslands óx mikið á öðrum áratugi aldarinnar, en verulega hefur hægt á. Þannig var hagvöxtur á mann 1,1% frá 2010 til 2024 að meðaltali, en féll svo. Það var engu að síður enn lægra en í Evrópusambandinu á sama tímabili.













































Athugasemdir (2)