Bandaríski aðmírállinn sem ber ábyrgð á umdeildum árásum á meinta fíkniefnasmyglara í Karíbahafi sagði í gær að hann myndi láta af störfum eftir aðeins eitt ár í embætti.
Aðmírállinn Alvin Holsey lætur af störfum sem yfirmaður suðurherstjórnar Bandaríkjahers (US Southern Command), sem ber ábyrgð á bandarískum hersveitum sem starfa í Mið- og Suður-Ameríku.
Bandarísk yfirvöld hafa sent umtalsverðan herafla á svæðið, þar á meðal orrustuþotur og sjö herskip, sem hluta af því sem stjórnvöld segja vera aðgerðir gegn fíkniefnasmygli á svæðinu.
Hingað til hafa bandarískar hersveitir gert árásir á að minnsta kosti fimm meinta fíkniefnasmyglbáta í Karíbahafi sem hafa leitt til dauða 27 manns, í herferð sem sérfræðingar segja að sé ólögleg. Trump hefur hins vegar skilgreint grunaða smyglara sem erlenda óvinahermenn og réttlætt með þeim hætti að þeir séu drepnir án dóms og laga.
Hernaðaruppbyggingin hefur vakið ótta í Caracas um að lokamarkmiðið séu stjórnarskipti í Venesúela.
„Frá og með 12. desember 2025 mun ég láta af störfum í bandaríska sjóhernum,“ sagði Holsey í yfirlýsingu sem birt var á X-reikningi suðurherstjórnarinnar.
„Það hefur verið heiður að þjóna þjóð okkar, bandarísku þjóðinni og styðja og verja stjórnarskrána í yfir 37 ár,“ sagði hann, án þess að gefa skýringu á því hvers vegna hann lætur af störfum fyrr en áætlað var. New York Times hefur hins vegar eftir ónafngreindum heimildarmönnum innan kerfisins að aðmírállinn hefði lýst áhyggjum sínum af árásunum á grunaða fíkniefnasmyglara. Trump tilkynnti í vikunni að hann væri að íhuga að gera árásir á landi í Venesúela í stríði sínu gegn meintum smyglurum og klíkum, sem hann fellir undir lög um baráttu gegn hryðjuverkum.
Frá því að Donald Trump forseti hóf sitt annað kjörtímabil í Hvíta húsinu í janúar hefur hann staðið fyrir hreinsunum á æðstu yfirmönnum hersins, þar á meðal formanni herforingjaráðsins, Charles „CQ“ Brown hershöfðingja, sem hann rak án skýringa í febrúar.
Aðrir háttsettir yfirmenn sem reknir hafa verið á þessu ári eru meðal annars yfirmenn sjóhersins og strandgæslunnar, hershöfðinginn sem stýrði Þjóðaröryggisstofnuninni, aðstoðarforingi flughersins, aðmíráll í sjóhernum sem starfaði hjá NATO og þrír háttsettir herlögfræðingar.
Foringi flughersins tilkynnti einnig að hann myndi láta af störfum án skýringa eftir aðeins tvö ár af fjögurra ára skipunartíma.
Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, hefur haldið því fram að forsetinn sé einfaldlega að velja þá leiðtoga sem hann vill, en þingmenn Demókrataflokksins hafa lýst yfir áhyggjum af hugsanlegri pólitískri íhlutun í bandaríska herinn, sem jafnan er hlutlaus.
Fyrr á þessu ári fyrirskipaði Hegseth einnig að minnsta kosti 20 prósenta fækkun á fjölda fjögurra stjörnu hershöfðingja og aðmírála í virkri þjónustu í bandaríska hernum, auk 10 prósenta fækkunar á heildarfjölda hershöfðingja og flotaforingja.
Í síðasta mánuði voru allir yfirmenn yfir herafla Bandaríkjanna, innanlands sem erlendis, boðaðir á fund þar sem Trump forseti og Hegseth stríðsmálaráðherra boðuðu nýjar áherslur í hermálum, meðal annars útvíkkun á skilgreiningu hryðjuverkahópa, sem nú ná yfir andfasista og smyglara, og stríð gegn innri óvini í Bandaríkjunum.
Athugasemdir