Trump hittir Pútín aftur í Búdapest

Banda­ríkja­for­seti bakk­ar með að af­henda Úkraínu Toma­hawk-stýrif­laug­ar og boð­ar fund með Vla­dimir Pútín í boði Vikt­ors Or­ban, for­sæt­is­ráð­herra Ung­verja­lands.

Trump hittir Pútín aftur í Búdapest
Donald Trump í dag Forsetinn virðist draga í land með að afhenda Úkraínu tomahawk-stýriflaugar. Mynd: AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sagði í dag að hann ætti von á að fundur með Vladímír Pútín, forseta Rússlands, færi fram í ungversku höfuðborginni Búdapest innan tveggja vikna, í boði Viktors Orban forsætisráðherra.

„Ég mun líklega hitta hann á næstu tveimur vikum,“ sagði Trump við blaðamenn á forsetaskrifstofunni í Hvíta húsinu og bætti við að utanríkisráðherrann Marco Rubio myndi fyrst eiga viðræður við rússneska embættismenn.

Trump dró sömuleiðis í land með hugmyndir um að veita Úkraínu Tomahawk-stýriflaugar, sem hefðu gert úkraínska hernum kleift að sækja lengra inn í Rússland til að rjúfa birgðakeðjur og raska vígbúnaðarframleiðslu. Hann sagði Bandaríkin ekki geta „klárað eigin birgðir“. 

Þetta segir Trump daginn áður en hann hittir Volodomyr Zelensky, forseta Úkraínu, sem bundið hefur von við að Trump muni hjálpa til við að binda enda á yfirstandandi innrás Rússa í Úkraínu.

Trump upplýsti jafnframt við blaðamenn að hann hefði einnig rætt við Vladimir Pútín, forseta Rússlands, í símtali um möguleikann á að láta Úkraínu hafa Tomahawk-eldflaugar og að honum „líkaði ekki við hugmyndina.“

Trump greindi frá þessu eftir meira en tveggja klukkustunda símtal við Pútín sem hann lýsti sem „mjög árangursríku“. Að sögn Trumps komust þeir að samkomulagi um að æðstu ráðgjafar þeirra, þar á meðal utanríkisráðherrann Marco Rubio, myndu hittast í næstu viku á ótilgreindum stað. Forsetarnir tveir myndu síðan hittast á eftir því „til að sjá hvort við getum fært þetta ‘alræmda’ stríð, milli Rússlands og Úkraínu, til lykta,“ eins og hann orðaði það.

„Ég tel að mikill árangur hafi náðst með símtalinu í dag,“ sagði Trump í færslu á Truth Social.

Júríj Úsjakov, aðstoðarmaður Pútíns, sagði við rússneskar fréttastofur að fulltrúar ríkjanna myndu hittast „án tafar“ til að undirbúa leiðtogafundinn.

Áður en símtalið fór fram í dag hafði Trump lýst vaxandi gremju gagnvart Pútín. Hann hafði boðað í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í fyrra að náið samband hans við rússneska leiðtogann gæti leitt til skjótrar lausnar á stríðinu. Í ágúst bauð hann Pútín á fund í Alaska en án þess að samkomulag næðist um áætlun til að binda enda á stríðið.

Upp á síðkastið hefur Trump gagnrýnt Pútín fyrir linnulausar árásir á Úkraínu sem hafi grafið undan friðarumleitum. Hann hefur lagt áherslu á hversu erfitt sé að semja við rússneska leiðtogann, jafnvel gefið til kynna að Pútín hafi stundum villt um fyrir honum og nánustu ráðgjöfum hans. „Ég er mjög vonsvikinn vegna þess að við Vladimír áttum mjög gott samband og eigum það líklega enn,“ sagði Trump. „Ég veit ekki af hverju hann heldur þessu stríði áfram.“

Eftir símtalið  í dag kvað við bjartari tón hjá Trump. Hann sagði rússneska leiðtogann hafa óskað honum til hamingju með samninga hans í Miðausturlöndum. Hann bætti við að Pútín hefði lýst þakklæti fyrir störf Melaniu Trump, eiginkonu forsetans, sem hefði átt samtöl við Pútín í því skyni að tryggja endurkomu úkraínskra barna sem aðskilin hafa verið fjölskyldum sínum vegna stríðsins.

„Hann var mjög þakklátur og sagði að þessu yrði haldið áfram,“ sagði Trump. „Við eyddum líka miklum tíma í að ræða viðskipti milli Rússlands og Bandaríkjanna þegar stríðinu í Úkraínu lýkur.“

Hvað verður úr í samningum Trumps við Pútín og hvernig aðkomu Úkraínu verður háttað er hins vegar enn óljóst.

Nýjustu fréttir af víglínunni í Úkraínustríðinu eru að Rússar beita nú fyrir sig drónum með norður-kóreskum klasasprengjum, en vonir Úkraínumanna um að fá bandarískar Tomahawk-flaugar hafa dvínað.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (1)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • PB
    Páll Bragason skrifaði
    Pútín virðist geta leikið á Trump eins og harmónikku.
    0
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Bandaríki Trumps

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Heimaskólinn ákveðin forréttindi
5
Viðtal

Heima­skól­inn ákveð­in for­rétt­indi

Systkini í Mos­fells­bæ fóru í hefð­bund­inn grunn­skóla í haust eft­ir að hafa ver­ið í heima­skóla síð­ustu ár. Sól­veig Svavars­dótt­ir, móð­ir þeirra, sem sinnti heima­kennsl­unni, seg­ir þetta hafa ver­ið dýr­mæta reynslu fyr­ir alla fjöl­skyld­una. Ekk­ert sveit­ar­fé­lag hef­ur veitt heim­ild til heima­kennslu á yf­ir­stand­andi skóla­ári, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá mennta- og barna­mála­ráðu­neyt­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Endurkoma Jóns Ásgeirs
4
Nærmynd

End­ur­koma Jóns Ás­geirs

Jón Ás­geir Jó­hann­es­son er aft­ur orð­inn stór á mat­vörumark­aði, fast­eigna­mark­aði, í fjöl­miðl­um, ferða­þjón­ustu, trygg­ing­um, áfeng­is­sölu, bens­ín­sölu, lyfj­um og stefn­ir á vöxt er­lend­is. Veldi hans og eig­in­konu hans, Ingi­bjarg­ar Pálma­dótt­ur, minn­ir á upp­bygg­ing­una fyr­ir banka­hrun þeg­ar hann stýrði Baugi, Glitni og 365 miðl­um en hlaut enga dóma í mála­ferl­um sem fylgdu hon­um í meira en ára­tug.
„Það var enga vernd að fá“
6
Viðtal

„Það var enga vernd að fá“

„Við sitj­um eft­ir í sorg, horf­um yf­ir sögu son­ar okk­ar og klór­um okk­ur í höfð­inu. Eft­ir stend­ur spurn­ing­in: Hvað gerð­ist?“ seg­ir Hjör­leif­ur Björns­son, en son­ur hans, Há­varð­ur Máni Hjör­leifs­son, svipti sig lífi þann 2. sept­em­ber, að­eins tví­tug­ur. Feðg­arn­ir voru báð­ir áhuga­menn um tónlist, greind­ir með ADHD og glímdu ung­ir við fíkn, en eitt greindi þá að. Há­varð­ur var brot­inn nið­ur af kerfi sem hann féll ekki inn í.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár