Það var vel til fundið hjá núverandi ríkisstjórn að kalla eftir hugmyndum frá almenningi í ársbyrjun um hagræðingu í ríkisrekstri. Kallið gefur þeirri hugmynd undir fótinn að nú ætli ríkisvaldið að taka sig á og byggja upp traust milli sín og almennings í landinu. Um 4.000 tillögur bárust og skaut ríkisstjórnin þeim til hóps af fólki sem vann úr þeim og skilaði hópurinn af sér skýrslu í mars síðastliðnum. Í skýrslunni er áætlað að spara megi hátt í 71 milljarð, sé farið í að framkvæma eitthvað af þeim tillögum sem lagðar voru fram. Tillögurnar sem úrvinnsluhópurinn leggur áherslu á eru reyndar ekki allar frá almenningi, en sumar komu frá ríkisstofnunum og aðrar frá ráðuneytum. Gera má greinarmun á því hvaðan tillögurnar koma í skýrslunni, þar sem vitnað er til uppruna þeirra. Þar eru þó nokkrar undantekningar á. Á blaðsíðu 21 er lagt til að stefnt verði að því að setja á fót Safnastofnun, eins og það er kallað, með sameiningu Gljúfrasteins, Listasafns Einars Jónssonar, Listasafns Íslands og Þjóðminjasafns Íslands. Ekki er ljóst hvaðan sú hugmynd er komin. Gera má að því skóna að hugmyndin sé runnin undan rifjum ráðuneytisins sem fer með málefni safna, en það kvisaðist út síðastliðið haust að þar innandyra væri verið að ræða sameiningar einhverra af þessum söfnum eins og Listasafns Íslands og Listasafns Einars Jónssonar.
Sameiningarhugmyndir
Sameiningarpælingar á sviði safna eru ekki nýjar af nálinni á vegum hins opinbera. Á tíunda áratugnum höfðu nýfrjálshyggjuhugmyndir um nýbreytni í opinberum rekstri hlotið brautargengi innan stjórnsýslu ríkisins og Reykjavíkurborgar til dæmis, og urðu söfn skotspónn nýbreytninnar eins og aðrar samfélagslegar stofnanir. Í grunninn má segja að nýbreytnin hafi falið í sér ríka áherslu á að skilgreina ábyrgð stjórnenda í að halda sig innan fjárheimilda stofnana, innleiða árangursmælikvarða, og hvatt var til þess að auka sértekjur stofnana s.s. með samningum við einkafyrirtæki.
Það kom því engum á óvart, sem fylgjast með þessari þróun í pólitískri deiglu menningarinnar, að Ríkisendurskoðun lagði fram skýrslu til Alþingis á vordögum 2009 um „Íslensk muna- og minjasöfn: Meðferð og nýting á ríkisfé.“ Skýrslan er ein af nokkrum sem embættið stóð að um endurskoðun á stjórnsýslu ríkisins. Í skýrslunni er áhersla á að skoða umgerðina á stjórnun safnamála en megináherslan er á fjárhagslegt umhverfi þeirra. Ríkisendurskoðun leggur fram 9 tillögur til breytinga og/eða áhersluauka í þessum efnum og þar á meðal að stefna skuli að færri og öflugri söfnum, eins og segir í lið 7 í tillögum Ríkisendurskoðunar til Alþingis:
„Ríkisendurskoðun telur að stefna eigi að öflugri og hagkvæmari rekstrareiningum safna sem standa undir faglegum kröfum samtímans. Í þessu skyni ber að hvetja skyld söfn sem starfa á sama landsvæði til að sameinast eða auka samvinnu sína og stuðla að aukinni verkaskiptingu. Breyta þarf úthlutunar- eða reiknireglum um rekstrarstyrki svo að þær ýti fremur undir slíka þróun en dragi úr henni.“ (bls. 6)
Af þessum orðum að dæma eru meginforsendurnar fyrir tillögum um sameiningu safna fjárhagslegar og því haldið fram í skýrslunni að slík fjárhagsleg samlegð geti eflt innri og ytri starfsemi þeirra á ýmsum sviðum. Sams konar tiltrú um slíkan árangur af sameiningu safna hefur síðan verið slengt fram af aðilum eins og Viðskiptaráði – og nú síðast í hagræðingatillögum starfshóps forsætisráðherra. Í tillögunum hópsins segir: „Með sameiningu má ná fram bættri nýtingu húsnæðis, fjármagns og mannauðs, sem og samlegð í framtíðarverkefnum meðal annars er varðar stafræna varðveislu.“ (bls. 21). Meginmarkmiðið með þessum pælingum er með öðrum orðum að sýna ábyrgð í meðferð skattfjár, auka árangur, og einnig að færa starfsemi stofnana til nútímalegs horfs. Pælingarnar í stjórnsýslunni hafa haft merkjanleg áhrif á söfnin í landinu og eru ýktustu dæmin um það á sveitarstjórnarstigi niðurlagning borgarstjórnar Reykjavíkur á Borgarskjalasafni og bæjarráðs Kópavogs á skjalasafni bæjarins árið 2023.
Við upphaf nýs þings nú á haustdögum hefur svo ríkisstjórnin lagt fram tillögur að nokkrum sameiningarhugmyndum safna. Kvikmyndasafn Íslands, Hljóðbókasafn Íslands og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn á nú að sameina í eina stofnun, sameina á Listasafn Einars Jónssonar og Listasafn Íslands, sameina á Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun og loks á að vinna að skoðun á sameiginlegu varðveisluhúsnæði safna.
Hverjir eru sérfræðingarnir?
Það er sannarlega góðra gjalda vert að opinberir aðilar séu sífellt á tánum og spyrji sig að því hvort að gera megi betur þegar kemur að ráðstöfun fjármagns sem þeim er trúað fyrir. Það er hins vegar ekki sama hvernig sú vinna er unnin eða hverjir það eru sem koma að slíkri vinnu. Ein grundvallarspurning sem lýtur að núverandi sameiningarpælingum ríkisstjórnarinnar er hvað það er í rekstri og starfsemi þeirra safna sem ætlunin er að sameina sem kallar á slíkar breytingar. Slíkar greiningar liggja ekki fyrir eftir því sem ég kemst næst.
Eitt af því sem stingur í augun þegar reynt er að skyggnast á bak við staðhæfingar um árangur af sameiningum safna, er að engin gögn eru aðgengileg og handbær sem styðja við slíkar fullyrðingar. Sem dæmi virðist sem svo að sú staðhæfing hagræðingarhópsins um að tillaga þeirra um sameiningu áðurnefndra safna muni „ná betri nýtingu húsnæðis [...] og mannauðs“ byggi ekki á öðru en óskhyggju. Eftir því sem ég kemst næst eru ekki til neinar greiningar á þessum þáttum og þar með útlistanir á því hvaða áhrif þeir geti haft á framtíðarstarfsemi fyrirhugaðra breytinga. Frá sjónarhóli sérfræðings á sviði safnamála skýtur það skökku við og sætir furðu að láta tilviljun, og í raun kæruleysi, ráða hvernig þeim málum muni vinda fram.
Það er út af fyrir sér sérstakt rannsóknarefni hverjir sérfræðingarnir í málefnum safna eru í þeim tillögugerðum um sameiningar safna sem komið hafa fram á undanförnum árum, hvort sem það er á vegum Ríkisendurskoðunar, Viðskiptaráðs og núna Stjórnarráðsins. Yfirleitt eru tillögurnar gjörsneyddar af gagnsæi og því miður hefur maður grun um að þeir aðilar sem koma að svona tillögugerðum séu með góða þekkingu á fjárhagslegum, stjórnunarlegum og lagalegum hliðum opinbers rekstrar fyrst og fremst. Þeir aðilar reyna eftir megni að afla sér gagna með ýmsum hætti, eins og viðtölum við sérfræðinga safna, en eiginleg úrvinnsla og mótun tillagnanna er ekki í höndum þeirra síðastnefndu að mér sýnist. Svo virðist einnig að fullmótaðar tillögur séu almennt ekki sendar í rýni hjá utanaðkomandi sérfræðingum til athugasemda eða gagnrýni. Þetta er alvarleg yfirsjón, þar sem söfn eru mjög sérstakar samfélagslegar stofnanir. Þau mennta fólk til sérfræðistarfa, þau hafa hlutverk og markmið sem lýtur að almannaheill og eru sprottin upp úr grasrótarstarfi fólks úti um allt land. Það grasrótarstarf er enn við lýði, en meginuppistaða í starfsemi safna byggir á gjöfum til þeirra frá almenningi. Góður skilningur og þekking á sérfræðiþekkingu, sögu, hlutverkum og markmiðum safna er því mikilvægur í öllum útreikningum á hugmyndum um sameiningu slíkra stofnana. Þar er opinberum aðilum sem fá slíkar grillur auðvelt um vik – ef ekki skylda – að leita til fólks sem býr yfir slíkri þekkingu hér á landi. Sé það ekki gert, er hætt við að vantraust á opinbera sviðinu grafi enn frekar um sig.
Höfundur er prófessor í safnafræði við Háskóla Íslands og fyrrverandi safnstjóri Ljósmyndasafns Reykjavíkur, Kvikmyndasafns Íslands og Menningarmiðstöðvar Þingeyinga.
Athugasemdir