Ung stúlka er látin eftir að hafa fallið í sjóinn við Reynisfjöru, ásamt föður sínum og systur um miðjan daginn í dag.
Ekki tókst að ná stúlkunni á land fyrr en þyrla Landhelgisgæslunnar fór á svæðið. Stúlkan var flutt á Landspítalann en var þar úrskurðuð látin.
Um var að ræða erlenda fjölskyldu á ferðalagi um Ísland.
Þetta er sjötta banaslysið í Reynisfjöru á innan við áratug, en sjöunda dauðsfallið varð í Kirkjufjöru, skammt frá.
Heimildin fjallaði í síðasta tölublaði sínu um áskoranir vegna fjöldaferðaþjónustu á Suðurlandi. Um fjörtíu ferðamenn hafa látist af slysförum í þeim landshluta frá árinu 2000. Þar var rætt við bónda nálægt Reynisfjöru sem sagði þúsundir manns hafa lent í öldu, án þess þó að hafa tekið út. „Maður hefur fylgst með fólkinu. Það er bara svo mikil gleði í því að vera komið í fjöruna. Það bara rýkur niður í fjöru,“ sagði hann.
Eftir því sem banaslysum hefur fjölgað hefur vaknað umræða um hvernig eigi að fjármagna viðbúnað á svæðinu. Landeigendur við Reynisfjöru fá greitt fyrir notkun bílastæða á svæðinu, sem kosta á bilinu 750 til 1.000 krónur fyrir hverja fólksbifreið sem þar er lagt.
Varað við í vikunni
Í fyrradag birti íslensk kona, sem var á ferð í Reynisfjöru, myndir á Facebook af börnum að leik í fjörunni. „Ótrúleg hegðun i Reynisfjöru,“ sagði hún. „Viðvörun var gul, miðlungshætta, en þarna gengu tvær mæður með þrjú berfætt börn sem hlupu hvað eftir annað út i öldurnar. Þær horfðu ekki einu sinni á þau. Kannski er ég komin a einhvern hneykslunaraldur en mér ofbauð.“

Í rannsókn sem gerð var árið 2019 kom fram að 15% ferðamanna, sem svöruðu spurningarkönnun í Reynisfjöru, voru lítið eða ekki meðvitaðir um hættuna á svæðinu.
Árið 2023 var sérstakur samráðshópur myndaður til að auka öryggi við Reynisfjöru.
Athugasemdir