Ég er að fjarlægja tyggjóklessur fyrir framan 10/11 í Austurstræti. Það er alveg gríðarlegt magn af tyggjói sem er hent hér. Ég byrjaði á þessu í Covid, en þá missti ég vinnuna út af ástandinu, eins og margir. Ég var að vinna í ferðaþjónustu, við hótel, í markaðsmálum. Okkur var öllum sagt upp vegna óvissunnar. Þá byrjaði ég að ganga til að hreyfa mig og gekk mikið. Og hugsaði: Ég verð að gera eitthvað í þessu. Mér blöskraði.
Ég hafði komið að þessu áður, úti á Spáni, þegar ég bjó þar árið 2008. Þegar ég var að jafna mig eftir aðgerð þá datt mér þetta í hug, að það gæti verið gott fyrir mig að gera þetta. Það vakti mikla lukku.
Það lætur mér líða vel að gera hreint. Það er svo margt sem ég fæ út úr þessu. Í Krakkaskaupinu kom eitthvert grín um tyggjókarlinn. Krakkarnir eru enn að heilsa mér, þessi aldurshópur sem var þá kannski átta ára en er bráðum að útskrifast úr grunnskóla og fara í menntaskóla. Ég segi alltaf að þessi aldurshópur komi ekki til með að henda tyggjói.
Áður vann ég við fataiðnaðinn í áratugi. Það var gríðarlega blómlegur fataiðnaður hérna til fjölda ára. Svo hrundi hann, einn tveir og þrír. Ég man að árið fyrir hrun, – ætli það hafi ekki verið 1987 eða 1986, seldi ég 75 iðnaðarsaumavélar. Næsta ár á eftir seldi ég aðeins eina. Og árið þar á eftir seldi ég enga saumavél. Ég hrundi með fataiðnaðinum og missti mitt fyrirtæki. Það má segja að það hafi breytt lífi mínu að lenda í hruni. Svo kom Covid og breytti mínu lífi, aftur, í öðru hruni.
Athugasemdir