„Þetta er svo fáránleg og tilgangslaus sundrung. Því það er verið að setja allt of mikið af hugtökum undir eitt orð og flytja það inn í einhverju menningarstríði sem hefur aldrei verið hér í gangi.“
Þetta segir ráðgjafinn Karen Kjartansdóttir spurð út í þá umræðu sem sprottið hefur upp um hugtakið „vók“ síðustu daga.
Hún telur að það hafi verið vonlaust að flytja inn svona flókið hugtak úr annarri menningu. „Ég held að það hafi bara aldrei virkað á Íslandi. Mér finnst þetta ekki viðeigandi hér. Ég verð eiginlega að segja það. Við erum alveg nógu lítið og upplýst samfélag til að geta tekið umræðuna á einhverjum dýpri grunni – og haft fleiri núansa í henni.“
Mikil umræða spratt um hugtakið „vók“ eftir að rithöfundurinn Hallgrímur Helgason og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tókust á um það á Samstöðinni á dögunum. „Mér fannst bæði Sólveig og Hallgrímur hafa rétt fyrir sér – en þau höfðu líka bæði rangt fyrir sér,“ segir Karen. „Vegna þess að þau bara skildu orðið öðruvísi. Þetta er sitt hvort hugtakið fyrir þeim, þótt það sé sama orðið.“
Hugtakið hefur verið vopnvætt
Karen segir hugtakið „vók“ klárlega hafa verið vopnvætt af ákveðnum hugmyndafræðilegum öngum. Til dæmis hafi fólk vinstra megin við miðju notað það til að smána hugmyndir sem því fannst ekki nógu kórréttar, upplýstar og vel orðaðar. „Mér fannst það oft mjög grimmdarlegt. Fólk verður að fá tækifæri til að skipta um skoðun, gera mistök og eiga samskipti. Og núna er verið að nota þetta á móti. Það er svo oft verið að gera fólki upp einhverjar skoðanir.“
Karen nefnir að hugtakið hafi verið vopnvætt mikið í Bandaríkjunum og bendir á að þetta geti verið mjög sniðug leið til að afvegaleiða umræðuna. „Að fá fólk til að tala um brjálæðislega flókið hugtak sem allir skilja á sinn háttinn – því þá er fólk síður að ræða efnahagsmál, umhverfismál, húsnæðismál, heilbrigðismál og önnur vandamál sem þarf að taka á. Og eru flóknari fyrir stjórnvöld.“
Hún leggur til að fólk velji orð sín betur og tali frekar um það sem það meini. „Ekki að setja upp einhverja sundrandi hatta og hugtök sem eiga enga samleið í íslensku samfélagi og menningu. Heldur reyna að hreinsa umræðuna úr þessum frösum sem eru bara til þess að sundra fólki.“
Karen segir aðspurð að ef til vill væri hægt að draga þann lærdóm af umræðu síðustu daga að einfalda raunveruleikann ekki um of. „Vók er fullkomlega ónothæft hugtak af því það er verið að nota þetta sem hatt yfir allt sem þér mislíkar eða allt sem þér finnst gott. Það verður eitrað hugtak því í þessu felst oft svo mikil dyggðaskreyting og hroki og vitsmunalegur fantaskapur. Á meðan við ættum bara að leyfa okkur að eiga dýpri og upplýstari samtöl og nota fleiri orð.“
Hún leggur til að fyrir neikvæðari merkingu orðsins væri hægt að nota orð eins og dyggðaskreytingu eða hroka. En hinn skilninginn orð svo sem mannúð, samkennd, tillitssemi og umburðarlyndi.
Athugasemdir (1)