1. Sökktu kurli og seldu syndaaflausn
Rannsókn Bjartmars Odds Þeys Alexanderssonar og Sunnu Óskar Logadóttur
Mest lesna rannsóknarefni ársins fjallaði um aðgerðir fyrirtækisins Running Tide á Íslandi. „Ýttu á takkann og bjargaðu heiminum,“ skrifar vísindamaður af kaldhæðni er hann bendir umhverfisráðuneytinu á varúðarorð utan úr heimi um aðferðir sem fyrirtækið Running Tide fékk leyfi stjórnvalda til að prófa í þágu loftslags í Íslandshöfum. Aðgerðirnar umbreyttust í allt annað en lagt var upp með.
2. Lögreglan á nýrri slóð: Fundu skilaboð Þorsteins
Afhjúpun Aðalsteins Kjartanssonar og Helga Seljan
Tæknimönnum á vegum héraðssaksóknara tókst að endurheimta á annað þúsund smáskilaboð sem fóru á milli Þorsteins Más Baldvinssonar og Jóhannesar Stefánssonar, á meðan sá síðarnefndi var við störf í Namibíu. Skilaboðin drógu upp allt aðra mynd en forstjórinn og aðrir talsmenn Samherja reyndu að mála upp árin áður.
3. Handtekinn í sturtu og hjartað stöðvaðist
Rannsókn Auðar Jónsdóttur og Ingibjargar Daggar Kjartansdóttur
Ívar Örn Ívarsson var 22 ára gamall íþróttamaður sem lifði fyrir að leika sér, átti kærustu og bjarta framtíð. Þangað til hann fékk sitt fyrsta og eina geðrof, var handtekinn í sturtu, fékk hjartastopp, heilaskaða og lamaðist varanlega.
4. Leyniupptaka lýsir vinargreiða og hrossakaupum Bjarna og Jóns
Afhjúpun Aðalsteins Kjartanssonar og Helga Seljan
Sonur og viðskiptafélagi Jóns Gunnarssonar, fyrrverandi þingmanns, fullyrti í upptökum sem teknar voru af gervifjárfesti að Jón hefði samþykkt beiðni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að þiggja sæti á lista gegn því að Jón kæmist í aðstöðu til að veita hvalveiðileyfi til Hvals hf. Það yrði arfleifð Jóns að tryggja Kristjáni Loftssyni, nánum vini sínum, leyfið. Það væri hins vegar eitthvað sem ætti að fara leynt.
5. Móðir Marks heitins: „Þetta er í raun og veru léttir“
Úttekt Erlu Hlynsdóttur
Mark Gunnar Roberts fannst meðvitundarlaus í fangaklefa sínum á Hólmsheiði nokkrum dögum fyrir jól í fyrra. Hann var endurlífgaður og fluttur á sjúkrahús þar sem hann lést nokkru síðar. Mark ólst upp við drykkju og ofbeldi föður síns og áratugum saman reyndi móðir hans að fá hjálp fyrir son sinn, sagði hann „hættulegan án lyfjagjafar“, en án árangurs. Síðustu ár átti Mark ekki í nein hús að venda önnur en neyðarskýli fyrir heimilislausa eða fangelsi.
6. Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
Úttekt Inga Freys Vilhjálmssonar
Fyrrverandi starfsmenn Alvotech lýstu vinnuálagi sínu hjá fyrirtækinu sem ómanneskjulegu og leituðu til stéttarfélaga vegna meðal annars ógreiddrar yfirvinnu. Vinnuaðstæðurnar höfðu verið svona vegna vinnu við að fá markaðsleyfi fyrir samheitalyf Humira í Bandaríkjunum.
7. Saga af áralangri vanrækslu og vonleysi: „Þetta heitir Betra líf sko“
Rannsókn Ölmu Mjallar Ólafsdóttur og Erlu Hlynsdóttur
Greint var frá aðbúnaði og sögum þeirra sem bjuggu á áfangaheimilinu Betra lífi í Kópavogi. Slökkviliðið hafði kært Arnar Gunnar Hjálmtýsson, forráðamann heimilisins, til lögreglu fyrir að hafa stefnt lífi og heilsu íbúa í hættu eftir að eldur kviknaði í starfseminni í fyrra húsnæði.
8. Enginn tekur ábyrgð á slysi sem leiddi til kvalafulls dauðdaga
Rannsókn Ragnhildar Þrastardóttur
Maður lést eftir að 60 kílóa hurð féll inni í herbergi hans á hjúkrunarheimili. Dætur hans segja óviðunandi að enginn hafi tekið ábyrgð á slysinu og að föður þeirra hafi verið kennt um atvikið. Önnur eins hurð hafði losnað áður en slysið varð en engin frekari hætta var talin vera af hurðunum.
9. Tilgangsleysi og gáleysi birtist í rannsókn slyssins í Grindavík
Afhjúpun Helga Seljan
Það svaraði ekki kostnaði að fara í framkvæmdir við að bjarga húsinu við Vesturhóp 29 í Grindavík, samkvæmt skýrslu tveggja matsmanna sem skoðuðu húsið rúmum mánuði áður en að verktaki lést við sprungufyllingu við húsið. „Þetta er bara stórkostlegt gáleysi af fólkinu sem stýrir verkinu,“ sagði samstarfsmaður Lúðvíks Péturssonar í vitnaskýrslu hjá lögreglu.
10. Hulduheildsali flytur inn hundruð tonna af kjöti
Rannsókn Helga Seljan
Huldufyrirtæki skráð í íbúðarhúsi á Álftanesi flytur inn stóran hluta alls nautakjöts á Íslandi. Fyrirtækið skaut óvænt upp kollinum þegar félagsmenn Kaupfélags Skagfirðinga gerðu uppreisn gegn innflutningi Kaupfélagsins, í beinni samkeppni við eigin félagsmenn.
Athugasemdir