„Það er augljóst ákall um breytingar,“ sagði Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, þegar hún ávarpaði gesti á kosningavöku flokksins í Kolaportinu fyrir skömmu. „Það verða breytingar á stjórn landsmanna, það er augljóst,“ sagði hún.
Samfylkingin var iðulega stærsti flokkur landsins samkvæmt skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga og miðað við fyrstu tölur hefur hún bætt gríðarlegu fylgi við sig frá kosningunum 2021.
Mikil fagnaðarlæti brutust út þegar Kristrún steig á svið en hennar fyrstu orð í ræðunni, þegar fyrstu tölur höfðu verið birtar í þremur kjördæmum, voru: „Halló jafnaðarfólk!“ og uppskar hún mikið klapp.
Kristrún sagði við stuðningsfólk flokksins á kosningavökunni að undanfarnar vikur hefðu verið hreint ótrúlegar: „Þvílikur kraftur í jafnaðarfólki, þvílíkur kraftur í frambjóðendum. Þetta er fáránlega spennandi. Ég er bara svo stolt af okkur öllum og því sem við höfum áorkað nú þegar,“ sagði hún.
Kristrún hvatti fólk til að vera með fæturna á jörðinni, ennþá væri verið að telja atkvæði, en staðan liti vel út.
„Þjóðin er byrjuð að svara fyrir sig,“ sagði hún, með vísan í ákall um breytingar og kvaddi með orðunum: „Áfram gakk“.
Hér má nálgast tölfræði með nýjustu upplýsingum í grafískri framsetningu á vef Heimildarinnar.
Athugasemdir