Viðreisn er með 13,8% fylgi samkvæmt nýrri könnun Maskínu á fylgi flokka á Alþingi. Flokkurinn var með um 11% fylgi í síðustu könnun sem gerð var í september. Sjálfstæðisflokkurinn er með 13,7% fylgi samkvæmt könnuninni og er ekki marktækur munur á fylgi flokkanna. Sjálfstæðisflokkurinn var með um 13% í könnun Maskínu fyrir septembermánuð.
Samfylkingin er áfram stærsti flokkurinn, með 22,8% fylgi, Miðflokkurinn næst stærstur með 17% og koma Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn þar á eftir, samkvæmt niðurstöðunum fyrir könnun októbermánaðar.
Þrír flokkar mælast með um 7% fylgi; Flokkur fólksins með 6,6%, Píratar 6,8% og Framsókn 7%. Sósíalistar eru með 5,3%, Vinstri græn með 4,5% og Lýðræðisflokkurinn með 2,4%.
Samkvæmt fylgistölum miðað við svörun í könnuninni eftir stjórnarslit, dagana 15.-18. október, myndu þingsætin skiptast svo: Samfylkingin 14, Miðflokkurinn 12, Sjálfstæðisflokkur 9, Viðreisn 8, Framsókn 5, Flokkur fólksins 5, Píratar 3, Vinstri græn 3 og Sósíalistaflokkurinn 3.
Könnun Maskínu fór fram dagana 2.-18. október og tóku 1772 svarendur afstöðu til flokks. Úrtakið var svonefnd Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks (e. panel) sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá. Um netkönnun var að ræða.
Athugasemdir