Ég byrjaði að skrifa þennan pistil síðasta daginn minn í sumarfríi. Ég lét hugann reika og tók saman afrek sumarsins. Þau voru engin. Það er að segja engin á mælikvarða Framkvæmdafrúarinnar. Framkvæmdafrúin er undarlegt áreiti sem lifir í hugarfylgsnum kvenna og lætur okkur sjaldnast vera. Hún telur manni sífellt trú um að tími manns eigi einungis að vera umgjörð framleiðslu. Við eigum alltaf að vera að gera eitthvað. Að slaka er að slæpast og slæpingur er fararsnið iðjuleysingjans. Iðjuleysingi þykir almennt neikvætt lýsandi orð. Skyldheiti eru meðal annars letingi og trassi, spjátrungur og landleyða. Grannheiti eru til dæmis kaffihúsaslæpingi og slangurmenni. Sterk og lýsandi íslensk orð sem mörg hver eru fremur fyndin. Ég velti því fyrir mér hvort að Framkvæmdafrúin sé búin að skilyrða hegðun kvenna á þann hátt að allar mínútur í lífi okkar eigi að hafa svörun í formi tilgangs. Skaðleg atferlismótunin er orðin svo venjuvædd að við tökum ekki lengur eftir henni. Ég reiddist við tilhugsunina um að mitt eigið sumarfrí skyldi enn eina ferðina verða mælt útffrá mælikvarða sem engum er hollur. Hvert á að fara? Hvað á að gera?´Ég verð að njóta! Hugurinn fór á yfirsnúning og ég örmagnaðist við tilhugsunina Ég ákvað því að gerast ótugt þetta sumarið, gera uppreisn og vera iðjulaus kona.
Ég ákvað að slæpast og gerði mikið af því. Ég át líka mat sem oft og tíðum er á bannlista Framkvæmdafrúarinnar. Frúin vill að við hugsum út frá víddarhugsun. Hlutir eru annaðhvort góðir eða slæmir, hollir eða óhollir. Mælikvarðinn er allt, annars ertu ekkert. Ef þú ert ekki að næra, þá ertu að særa. Ég gerði uppreisn og fór á kaffihús og pantaði mér kaffi og sætt með og var með engin áform um að refsa mér í kjölfarið. Ég fékk mér kókoskúlu. Svoleiðis hafði ég ekki fengið mér síðan ég var krakki. Ég virti girnilega kókoskúluna fyrir mér og hugsaði: „Ertu virkilega svona mikill skaðvaldur, vinan, eða er búið að ætla þér allt hið versta?“ Ég tók bita og fannst hún góð. Himnarnir féllu ekki og rassinn á mér stækkaði ekki um sautján stærðir. Bannlisti Framkvæmdafrúarinnar er oftast ekki á rökum reistur og svo virðist vera að hann verði fyrir áhrifum af froðusnakki sjálfskipuðu sérfræðinganna sem þekja samfélagsmiðlana hverju sinni.
Þeirri lúmsku og skaðlegu skilyrðingu er komið fyrir í kollinum á okkur að á eftir regluleysi sumarsins eigi að koma refsing. Skynsemi og sjálfsmildi eru óvinir frúarinnar og hún forðast þá eins og heitan eldinn. Framkvæmdafrúin felur refsingar í formi órökréttra krafna. Órökréttu kröfurnar eru árstíðabundin áreiti. Það eru utanlandsferðir sem skilja eftir sig skuldahala en á sama tíma fjölskyldumynd við ströndina sem á að endurspegla afslöppun og áhyggjuleysi. Það eru föstur, súpur og safakúrar á haustin og líkamsræktarátök óháð orkuformi og á jólamyndinni átt þú að líta betur út en ætíð áður þrátt fyrir að vera á hraðri leið í kulnun. Miðjarðarhafsmataræði allt árið um kring en samt mígandi samviskubit yfir því að vera að éta kjöt og dýraafurðir. Á vorin á maður að hafa næga orku til að rísa upp eftir annasömu rútínur allra sem á þig stóla og þá tekur við hin þráláta og skaðlega kapítalíska áminning úr öllum áttum að þú gætir alltaf litið betur út. Sumarið er jú handan við hornið. Þetta er endalaus vítahringur sem einkennir allt vaxtarferli kvenna. Grunlaus samþykkir þú þessa skaðlegu skekkju og breytist hægt og rólega í þinn versta óvin.
Framkvæmdafrúin reynir að telja þér trú um að sumarleyfið sé ekki marktækt nema að einhvers konar tengsl við upprunann hafi átt sér stað. Helst þarf að heimsækja allt og alla og öll sambönd þurfa að upplifa gildi og tilgang á sjúklega streitufullu sex vikna spani. Ég lét til leiðast og ákvað að heimsækja Vopnafjörð, æskuslóðir pabba míns heitins. Ég átti minningu úr æsku þar sem ég stóð á toppi Hellisheiðar eystri og horfði yfir stórkostlegt víðfeðmi Héraðsflóans. Í minningu minni var þetta fallegasti staður Íslands. „Ertu viss um að þú viljir fara veginn?“ sagði maðurinn minn með tortryggilegum tón enda reyndur Reyðfirðingur. „Að sjálfsögðu!“ hváði borgardaman, við hálfmóðguð í skóm sem pössuðu engan veginn við aðstæður. Ég hugsaði með mér að hádramatísk og tilfinningarík úrvinnsla sorgarinnar sem sat eftir við fráfall föður míns væri einungis möguleg uppi á toppi og nálægt himni. Ég sá fyrir mér Instagram-mynd með undirskriftinni „heil“ eins hallærislegt og það er og í raun helber lygi líka því ég er svo langt frá því að ganga heil til skógar, hvað þá heiðar.
Ég var komin hálfa leið upp á toppinn þegar ég komst að því að ég sá sárlega eftir að hafa barist fyrir þessari dramatísku vegferð minni. Skætt tilfelli af lofthræðslu lét á sér kræla og ekki var hægt að snúa við á miðri leið. Þverhnípi á alla kanta og vegurinn svo mjór, skrykkjóttur og brattur að hann ætti í raun að vera lokaður. Ég bað til allra guða. Einhver þeirra svaraði því enginn annar bíll mætti okkur. Það takmarkaða sem var eftir af tilfinningalegum stöðugleika mínum fór rakleiðis út um gluggann og niður þverhnípið. Mig byrjaði að sundla og svima. Ég fór ekki út úr bílnum uppi á toppi, leit ekki í átt að himneskum flóanum og bað þess í stað manninn minn að hefja ferð sína tafarlaust niður. Ég áttaði mig á að uppgjör við sorgina og söknuðinn hefði verið betur settur inni á bar yfir einum svellköldum og tveimur rótsterkum.
Á leiðinni niður heiðina í miðri þverhníptri brekku, greip mig svo mikil hræðsla að ég rauk út úr bílnum og gekk dágóðan spöl. „Það tekur enginn samfélagsmiðlamynd þegar hlutirnir ganga ekki upp,“ hugsaði ég og skakklappaðist skíthrædd og náföl niður heiðina. „Ertu ok, ástin mín?“ kallaði maðurinn minn út um gluggann á bílnum tveimur beygjum neðar. Ég svaraði ekki þar sem ég var of upptekin að missa ekki takið á einni stiku á meðan ég var að teygja mig í þá næstu. Ég dirfðist ekki að horfa niður, hélt mig fjallamegin og hreyfði mig á hraða snigilsins á meðan mig sundlaði eins og veruleikafirrtri hvítvínskonu eftir langa dagdrykkju. Ég komst heil niður en með brotið stolt. Frúin hafði platað mig í vitleysu eins og svo oft áður. Ég fór heim eftir fríið enn staðfastari í þeirri trú minni að iðjuleysi er vanmetinn stíll í sumarfríi íslenskra kvenna.
Þrátt fyrir hrakfarir heiðarinnar þá umturnaði ég ekki lífi mínu á neinn hátt þetta sumarið og sný ekkert öðruvísi til vinnu nema aðeins feitari. Ég málaði enga veggi og enga palla. Ég þreif ekki íbúðina og fór ekki í gegnum gamalt dót. Ég tók ekki gluggana að utan. Ég kom hreyfingu ekki í rútínu og keypti mér ekki rafhjól. Ég fór ekki með dósirnar í endurvinnsluna og bíllinn minn er enn skítugur. Ég fór ekki í allar heimsóknirnar sem ég ætlaði mér og geðheilsan heldur enn stöðugu jafnvægi á títiprjónshausi líkt og áður. Ég leyfði mér að gera mistök og stóð að mestu kyrr á meðan allt annað hreyfðist. Það skýrði sýn og leysti margt. Ég fór úr athöfnum í áhorfanda og komst að því að sú tækni er vanmetin. Ég fór að hlusta betur. Ég sat með góðri vinkonu í auðmýkt og hrokinn varð hljóður, allavega um stund. Innivinnan varð fyrirhafnarlaus þrátt fyrir erfiði. Ys og þys þagnaði og ég heyrði betur í sjálfri mér. Kannski breyttist meira en ég hélt. „Kannski fólst uppreisnin í því að gefa mér meira rými án krafna,“ hugsaði ég og byrjaði rólega að skrifa aftur án þess að fullkomnunaráráttan hengi hrikaleg og dæmandi yfir öxlinni á mér.
Í þessum töluðu orðum er ég að borða ljúffenga pekanköku á uppáhaldskaffihúsinu mínu niðri í bæ. Framkvæmdafrúin öskrar í eyrað á mér að 90 kílóa konur eigi ekki að njóta sín þegar þær éta sykur en eftir uppreisn og hrakfarir sumarsins er ég betur í stakk búin til að segja henni að snauta sér. Kaffihúsaslæpinginn og landleyðan ég sit sátt með kökuna mína og finn til engrar skammar. Frelsistilfinning fylgir haustinu mínu og ég óska þér, kæri lesandi, að þú farir með öllu Framkvæmdafrúarlaus inn í haustið þitt.
Athugasemdir