Á einu kvöldi breyttist allt. Á einum klukkutíma. Nokkrum mínútum.
Árás á menningarnótt, bílrúðan brotin og ungmenni stungin. Af barni.
Barni sem varð barni að bana. Barni sem situr nú í myrkrinu, eftir að fórnarlamb hans hvarf til sólar. Himnarnir skörtuðu sínu fegursta, á meðan samfélagsmiðlar loguðu:
„Þú áttir þetta ekki skilið,“ skrifuðu vinir stúlkunnar.
Ólíkir heimar
„Bryndís er hetja og mun bjarga mörgum mannslífum,“ sagði í færslu frá Lindakirkju, sem skrifuð var í samráði við og með leyfi aðstandenda hennar og vina.
Hún var hetja. Hann skúrkur.
„Hann er ógeð.“ „Hengja þetta ógeð.“ „Fara með hann í miðbæinn og setja tvær kúlur í hausinn,“ skrifar ungt fólk á samfélagsmiðla í reiði sinni og sorg.
Bæði voru bara börn, unglingar, ólögráða einstaklingar. Börn af mismunandi menningarheimum – ef svo má segja. Tvö íslensk börn, sem bjuggu við gjörólíkar aðstæður, með mismunandi bakland og allt annan reynsluheim.
Annað þeirra sagt hafa verið með hlýja nærveru og bjart bros. Fallega tæra ljósið.
Hitt uppfullt af heift. Reiði sem gat brotið bílrúðu. Það þarf ekkert smá átak til.
Hvað gerðist eiginlega?
Síendurtekin saga
Að undanförnu hefur hvert áfallið rekið annað. Árásin var framin tveimur dögum eftir að hjón fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað. Síðar sama dag var maður handtekinn á Snorrabraut. Hann situr nú í gæsluvarðhaldi. Í ljós kom að maðurinn sem grunaður er um morð er fárveikur.
Samfélagið fyrir austan hafði reynt að grípa hann og sýna stuðning í verki, en raunveruleg úrræði voru annaðhvort ekki til staðar eða þeim var ekki beitt.
Ekki frekar en svo oft áður.
Sagan sem er sögð allt of oft.
Og hefur verið endurtekin allt of lengi.
Hvað þarf til?
Ellefu ára drengur
Nú eru 35 ár liðin frá einu óhugnanlegasta morðmáli Íslands.
Sumarið 1989 fékk sjö ára drengur leyfi frá móður sinni til að hjóla niður að Glerá í fylgd eldri drengja. Hún sá son sinn aldrei aftur á lífi.
Ári síðar drukknaði annar sjö ára drengur í Glerá. Hann fannst í mórauðri ánni þegar hleypt var af stíflunni. Afi hans fylgdist með aðgerðum á vettvangi.
Lögreglan hóf rannsókn á málunum. Sami strákurinn hafði sést á vettvangi þegar bæði slysin áttu sér stað. Þetta var ellefu ára gamall strákur. Í yfirheyrslu játaði barnið að hafa búið til ratleik, með það að markmiði að koma litlu strákunum niður að ánni, þar sem hann varð valdur að dauða þeirra.
Ekkert var aðhafst
Áður hafði hann beitt börn ofbeldi. Kveikt í barnavagni.
Ekkert var aðhafst.
Sjálfur hafði hann þurft að þola langvarandi og grimmilegt ofbeldi á heimili sínu. Hann var ekki orðinn sjö ára þegar það hófst. Andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi. Oftar en einu sinni hafði hann fundist ráfandi fáklæddur um að næturlagi, fjarri heimilinu. Dauðhræddur við að fara heim því þar biðu hans barsmíðar. Ástandið var vel þekkt, en það þótti ekki ástæða til að fjarlægja hann af heimilinu. Heimilisofbeldi var einkamál.
Ekkert var aðhafst.
Eftir fyrra morðið trúði hann skólafélaga sínum fyrir myrkraverkinu. Sá hafði verið stimplaður sem vandræðabarn, svo þegar hann leitaði til lögreglunnar trúði hún honum ekki.
Ekkert var aðhafst.
Skilin ein eftir í sorginni
Móðir annars drengsins sagði að reynt hefði verið að þagga málið niður. Eins og til að hlífa honum. Eða fjölskyldu hans. Án stuðnings glímdi hún við missinn. „Eins og ég upplifði þetta var samúðin miklu frekar hjá honum en fórnarlömbunum.“
Hún efaðist ekki um að hægt hefði verið að koma í veg fyrir fráfall sonarins ef yfirvöld hefðu gripið fyrr í taumana, jafnvel þótt hún hefði ekki trú á endurhæfingu banamannsins: „Barn sem er fjöldamorðingi hættir ekki. Ég vil trúa því að þessi brenglun í höfðinu sé þarna frá fæðingu. Ég vil ekki trúa því að það sé samfélagið sem geri fólk að morðingjum,“ sagði hún.
Máli sínu til stuðnings benti hún á að margir þurfa að þola hryllilegar aðstæður í æsku án þess að verða öðrum að bana.
Reiðin hafði fylgt henni í gegnum lífið. Rétt eins og sorgin.
Ofbeldi elur af sér ofbeldi
Árið 2014 tjáði hann sig sjálfur um voðaverkin. Þá var hann orðinn fullorðinn maður.
Hann tók undir þau sjónarmið að ekki væri hægt að kenna slæmum aðstæðum í æsku um gjörðir sínar. Með því að tala um æskuna væri hann ekki að sækjast eftir vorkunn, heldur veita innsýn í sínar aðstæður: „Ég varð fyrir grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi á mínu heimili og þá sérstaklega af stjúpa mínum. Ofan á það bættist kynferðisleg misnotkun stjúpa míns og fleiri einstaklinga,“ útskýrði hann. „Móðir mín átti sjálf mjög erfitt á þessum tímum og hafði því ekki tök eða getu til að styðja mig gegn ofbeldinu.“
Eftir vistun á barnageðdeild Landspítalans var honum komið fyrir á vistheimili. Hjónin sem ráku vistheimilið komu fram við hann eins og eitt af sínum börnum. „Þarna fékk ég í fyrsta sinn eins eðlilegt uppeldi og hlýju og hægt var undir þessum kringumstæðum.“
Átján ára undirgekkst hann sálfræðimat og var ekki lengur talinn hættulegur umhverfi sínu.
„Það hefði átt að grípa inn í fyrr. Það var því miður gert tveimur mannslífum of seint. Með því er ég ekki að afsaka það sem ég gerði,“ áréttaði hann, „en staðreyndin er sú að eftir að ég komst í réttar hendur og farið var að vinna með fortíð mína náði ég smám saman tökum á sjálfum mér.“
Fortíðin fylgir alltaf
Móðir hins drengsins leit málið öðrum augum: „Ég kenndi þessum strák aldrei um þetta. Ég hef alltaf litið á það þannig að hann hafi fyrst og fremst verið óskaplega veikur,“ sagði hún. „Ég lít svo á að hann hafi fengið sinn dóm.“
Refsingin fólst í því að þurfa að lifa með gjörðum sínum. „Ég mun alltaf þurfa að lifa með því sem ég gerði. Það er mín refsing,“ sagði hann.
„Að hafa tvö líf á samviskunni er mjög erfitt. Það er ekki hægt að lýsa því. Hver sem er náinn mér eða í nánu sambandi við mig þarf að vita sögu mína. Þú getur ímyndað þér hvernig það er fyrir mig að segja fólki sem ég elska að ég hafi drepið börn.“
Til að takast á við sjálfan sig hafði hann unnið að því að aðstoða fólk sem hafði orðið fyrir alvarlegu ofbeldi og áföllum.
En fortíðin fylgir honum hvert skref.
Er og verður óbærilegt
Fortíðin fylgir líka fjölskyldunum sem misstu börnin sín.
Sumt verður aldrei aftur tekið – og aldrei bætt.
Sár sem aldrei geta gróið.
„Þetta fór mjög illa með okkar líf, það breytti í rauninni öllu fyrir mig og mína fjölskyldu að upplifa þennan hrikalega atburð. Ég gat ekki átt fleiri börn eftir þetta,“ sagði móðir annars drengsins.
Systir konu sem var myrt lýsti því eitt sinn hvernig hún missti móður sína um leið: „Ég gleymi aldrei nístandi öskrum móður minnar og hvernig hún brotnaði niður og varð að engu. Þetta varð því einnig dagurinn sem ég missti mömmu mína. Mömmu mína eins og ég þekkti hana áður, því hún varð aldrei söm á ný eftir þetta áfall.“
„Við vildum að það væru til töfraorð sem hugga og geta breytt stöðunni en þau eru engin til, þetta er óbærilegt og verður það áfram,“ sagði í færslu Lindakirkju.
Reiðin er réttmæt
Sextán ára strákur situr nú í fangelsi. Vegna líflátshótana varð að flytja hann af meðferðarheimili fyrir unglinga inn í lokað fangelsi. Kallað var eftir hefndaraðgerðum vegna gjörða hans. Á samfélagsmiðlum er hann úthrópaður, fordæmdur og fyrirlitinn.
Þannig verður einstaklingurinn morðið sem hann framdi.
Reiðin er réttmæt. Árásin var ofsafengin. Ekkert réttlætir slíkt ofbeldi. Og á endanum ber enginn ábyrgð á ofbeldi nema sá sem beitir því.
Fólk syrgir stúlkuna sem átti framtíðina fyrir sér. Ungt fólk er ringlað, hrætt og reitt. Það veit ekki hvernig það á að takast á við aðstæður, þegar það stendur andspænis slíkum voðaverkum. Nú þarf að hjálpa því sem hjálpar eru þurfi að takast á við áfallið, tjá og fá útrás fyrir tilfinningarnar, og finna sorginni farveg.
Reiði getur verið hreyfiafl í samfélaginu, drifkraftur breytinga, til góðs eða ills.
Strákar sem samfélagið þarf að sinna
Strákar sem bera hnífa eru sagðir aumingjar. Einföld afgreiðsla, en ekki líkleg til árangurs.
Strákar sem bera hnífa eru hræddir og hafa villst af leið. Þetta eru strákarnir sem samfélagið þarf að hlúa sérstaklega vel að. Af því að þeir eru brotnir. Samfélaginu ber skylda til að grípa brotin börn áður en þau eru farin að valda sjálfum sér og öðrum skaða.
Einkennin eru til staðar: Vanlíðan, uppreisn og reiði. Andfélagsleg hegðun. Og alls konar. En til að hægt sé að mæta þessum börnum af festu þurfa kerfin að virka. Geðhjálp hefur lengi talað fyrir því að veita eigi forvarnir fyrir ofan fossinn – í stað þess að kasta björgunarhring á eftir börnum sem falla niður, í veikri von um að þau nái að grípa.
Börn bera ekki hnífa ef þeim líður vel, eru örugg og í góðum tengslum við umhverfi sitt.
Velferð en ekki ölmusa
Hér hefur allt sem heitir velferð meira og minna verið vanrækt eða svelt. Kennarar, barnaverndarfulltrúar, meðferðarfulltrúar, sálfræðingar, læknar, geðlæknar og lögregla. Sama hvar ber niður er kvartað undan skorti á fjármunum, mannafla og getu til að sinna verkefnum vel vegna álags. Það er ekki hægt að halda allri þjónustu í lágmarki og verða svo hissa þegar eitthvað brestur.
Í Finnlandi er talað um velferðarkerfið sem velsældarkerfi sem á að stuðla að heilsu, hamingju og farsæld allra. Grunnhugmyndin var sú að samfélagið hefði ekki efni á að missa af hæfileikum hinna jaðarsettu, sem hefðu ella ekki átt sömu möguleika á árangri.
Hér er eins og litið sé á slíka þjónustu sem ölmusu, eitthvað sem skapar ekki verðmæti og veitir ekki fjárhagsleg gæði, þegar raunin er önnur þegar rýnt er í tölurnar.
Hvernig virði er annars mannslíf?
Tvö börn eru látin
Aldrei hafa verið fleiri morð framin á Íslandi á einu ári – og haustið var rétt að hefjast.
Tvö börn eru látin vegna voðaverka á árinu.
Og tvö börn hafa átt aðild að slíkum málum. Fyrr á árinu var sautján ára stelpa dæmd fyrir að koma manni ekki til aðstoðar á meðan lífið var murkað úr honum. Þess í stað tók hún upp myndskeið af árásinni. Og nú situr sextán ára strákur í fangelsi. Hann á líklega langa og stranga leið fram undan.
Tvö önnur börn lentu á spítala vegna árásarinnar á menningarnótt. Líf þeirra verður heldur aldrei samt.
Skiptir baksagan máli?
Aðdragandi árásarinnar hefur ekki enn verið opinberaður. Kannski skiptir hann ekki máli.
Almennt er þó talið að vitneskja sé lykill að árangri. Í baráttu gegn ofbeldi er þá mikilvægt að skilja aðstæður og aðdraganda. Ekki til að svipta gerendur ábyrgð heldur einmitt til að hægt sé að fyrirbyggja frekara ofbeldi. Til þess þarf meðal annars að halda að þeim ábyrgð, en um leið að styðja þá til bata.
Kannski kemur í ljós að sagan sé flóknari en virðist í fyrstu. Kannski munum við heyra enn eina söguna af því hvernig samfélagið brást barni, sem síðan situr uppi með afleiðingarnar. Og þarf að lifa með gjörðum sínum.
Samfélagið grætur vegna voðaverka. Sorgin er fyrst og fremst fjölskyldu, vina og vandamanna hinna látnu. Hugsum til þeirra með hlýju og von um að þeim verði veittur sá stuðningur sem þarf.
Vonum líka að vitundin vakni og viðhorfsbreyting verði á. Þannig að gripið verði til raunverulegra aðgerða. Aðgerða sem stuðla að aukinni heilsu, hamingju og farsæld allra – og samfélagsins um leið.
Eins og faðir stúlkunnar sagði: „Nú þarf að hafa hátt og tryggja með skipulegum og úthugsuðum hætti, að þessi martröð, missir okkar og líf Bryndísar minnar muni leiða til betri veruleika fyrir íslenskt samfélag! Þessi dýra og óbærilega fórn hennar, skal og verður að bjarga mannslífum.“
Nei , það hefur enginn gert, en hvers vegna ?