Þið hafið sjálfsagt heyrt einhvern tíma í sjónvarpsþáttum eða lesið í sögubókum að allt frá því 1066, þegar Vilhjálmur hertogi í Normandý sigldi með her sinn yfir Ermarsund og sigraði enska herinn við Hastings, þá hafi enginn innrásarher náð fótfestu á Englandi, hinu ósigrandi vígi í hafinu.
Þetta er rétt — og þó ekki.
Rúmum sex öldum eftir að Vilhjálmur hertogi vann orrustu sína við Hastings og tók sér svo konungsnafn á Englandi, þá kom nefnilega annar öflugur herfloti að ströndum Englands, annar erlendur fursti steig á land og gerði kröfu til konungstignar og svo öflugur var her hans að allt lið enska kóngsins hrökk undan í fáti og það leið ekki langur tími þangað til útlenski innrásarfurstinn hafði verið krýndur konungur yfir Englandi.
Af tilviljun hét hann sama skírnarnafni og hertoginn frá Normandý og er hann því í enskum sögubókum kallaður William 3.
En í rauninni hét hann Willem Hendrik van Oranje og ef ykkur finnst nafnið hljóma svolítið hollenskt, þá er einföld skýring á því.
Willem Hendrik van Orjanje var hollenskur.
Í fylkingarbrjósti innrásarhers
Hollenskur fursti — hann kallaðist raunar prins — hafði komið í fylkingarbrjósti innrásarhers og hrakið enska kónginn úr hásætinu og sest þar sjálfur með kerlu sinni.
Innrás! Valdarán! Hernám! — hljótum við að kalla þetta.
En hvers vegna er því þá eindregið haldið fram í sögubókum að síðan 1066 hafi enginn innrásarher lagt undir sig England?
Það er vegna þess að málið er örlítið flóknara en frásögn mín hér að ofan gefur til kynna.
Og í tilefni af fótboltaleik Englands og Hollands í undanúrslitum EM, sem fram mun fara í kvöld, þá er kjörið tækifæri til að rifja upp þá dramatískustu atburði í sögu ríkjanna tveggja sem áttu sér í nóvember 1688.
Þegar Hollendingar lögðu undir sig England, þó allir hafi síðan sammælst um að þagga það niður.
Forysta Hollendinga
Baksvið atburða var svona, í örstuttu máli:
Um miðja sautjándu öld háðu Englendingar og Hollendingar gríðarlega keppni um siglingar og siglingaleiðir og verslun og viðskipti á úthöfunum. Nokkrum sinnum á öldinni kom til stríðsátaka en þau fóru aðallega fram á höfunum og oftast veitti Hollendingum betur.
Þeir voru færri en Englendingar en lengst af útsjónarsamari, naskari og vefvísari á tækifæri, gróðavegi og góð skip.
Hollendingar voru þá sjálfstæðir og yfir þeim réði svokallaður „stadtholder“ eða ríkisstjóri. Undanfarna öld hafði embætti ríkisstjóra í raun verið arfgengt í fjölskyldu prinsanna af Óraníu eða Oranje.
Óranía er ekki í Hollandi
Það er ein af brellum sögunnar að Óranía er í rauninni alls ekki í Hollandi heldur er um að sveit eina og svolítinn bæ allra syðst í Frakklandi, nánast við Miðjarðarhafsströndina.
Ástæðan fyrir því að prinsinn í Hollandi kenndi sig við Óraníu — og hollenska landsliðið í fótbolta kennir sig líka við Oranje — er einfaldlega sú að árið 1544 erfði þáverandi ríkisstjóri Hollendinga titilinn „prins af Óraníu“ sem ættingi hans hafði áður skartað.
Willem de Zwijger var þessi Hollendingur kallaður, eða „hinn þögli“, og hann var alls ekki kominn af neinum fyrri prinsum af Óraníu, en kunni vel við nafnbótina og notaði hana síðan.
Og 1672 tók við embætti ríkisstjóra Hollendinga nýr prins af Óraníu, Willem Hendrik sonarsonarsonur Willems hins þögla. Það er til marks um hver stöndugir Hollendingar voru að móðir Willems Henriks var konungsdóttir frá Englandi.
Keppinautar á hafinu
Karl 1. Englandskonungur hafði gefið hana til eiginorðs þáverandi prinsi af Óraníu þrátt fyrir eða kannski einmitt vegna þess hvað Hollendingar voru miklir keppinautar Englendinga á hafinu um þær mundir.
Willem Hendrik var þannig systursonur Jakobs 2. Englandskonungs sem tekið hafði við völdum 1685.
En ekki nóg með það, heldur hafði Willem Hendrik nokkrum árum fyrr gengið að eiga dóttur Jakobs, náfrænku sína, Maríu að nafni.
Þau voru systkinabörn, Willem Hendrik og María.
Willem Hendrik hafði sóst eftir hjúskap við frænku sína beinlínis til þess að eiga meiri möguleika á hagstæðum samningum við Englendinga og altént til að reka fleyg milli Englendinga og Frakka sem höfðu verið í skuggalegu bandalagi gegn Hollendingum.
Englandskóngur á undir högg að sækja
En stuttu eftir að Jakob móðurbróðir og tengdafaðir Willems Hendriks komst til valda á Englandi, þá fékk hollenski Óraníuprinsinn allt í einu óvænt tækifæri upp í hendurnar.
Jakob 2. reyndist vera mjög óvinsæll í landi sínu, sér í lagi meðal nokkurra valdamestu og valdaríkustu aðalsmannanna. Fyrir því voru ýmsar ástæður en sú helst að hann var kaþólskur en aðalsmennirnir ekki.
Brátt kom á daginn að illska milli Jakobs konungs og aðalsmannanna var orðin slík að eitthvað hlyti undan að láta.
Aðalsmennirnir hófu að undirbúa uppreisn gegn konungi sínum.
En hvað áttu þeir að gera eftir að kóngi væri steypt af stóli? Hver átti þá að taka við?
Dóttir gegn föður
Jú, þá staðnæmdust þeir við Maríu, þá eldri af tveimur dætrum Jakobs kóngs. Hún var ekki kaþólsk og því vel ásættanleg. Það sakaði heldur ekkert að hún var nú gift Willem Hendrik ríkisstjóra Hollands sem líka var af bresku konungsættinni, þótt í móðurætt væri.
Þegar ámálgað var við Maríu hvort hún væri til í að setjast í hásætið á Englandi ef faðir hennar væri rekinn úr því, þá reyndist hún alveg til í það.
Sennilega hafði henni alltaf leiðst pabbi sinn hvort eð var.
Og Willem Hendrik var líka alveg til í að fylgja konu sinni út í þetta ævintýri. Hann gerði samt aðalsmönnunum ensku fulljóst að ef hann tæki þátt í að reka Jakob tengdaföður sinn frá völdum og setja Maríu í hásætið í staðinn, þá ætlaði hann ekki að sætta sig við valdalaust hlutverk viðhengimennis konu sinnar.
Innrásarfloti úti fyrir ströndum
Hann krafðist þess að þau hjón myndu þá ríkja sameiginlega sem jafningjar í hásætinu.
Og þá krafðist hann þess líka að aðalsmennirnir birtu opinberlega bréf þar sem þeir bæru sig aumlega undan harðstjórn Jakobs 2. og grátbæðu hina góðu dóttur hans og hennar prúða eiginmann, prinsinn af Óraníu og ríkisstjóra Hollands, að koma ensku þjóðinni til bjargar.
Ensku aðalsmennirnir voru svolítið tregir til að samþykkja þetta en létu sig hafa það að lokum.
Og þann 5. nóvember 1688 gerðust óvæntir atburðir úti fyrir strönd smábæjarins Brixham á suðvesturströnd Englands.
Þangað var mættur hollenskur floti sem taldi 463 skip af öllum stærðum og gerðum.
Þetta var mun stærri floti — já, líklega helmingi stærri — en „flotinn ósigrandi“ sem Spánverjar höfðu sent gegn Englendingum einni öld fyrr.
Hervaldið skipti sköpum
Vel þjálfaðir sjóliðar hófust þegar handa um að ferja dáta í land og gekk það allt átakalaust fyrir sig. Í dagslok var nærri 30.000 manna her tilbúinn til að marsera af stað hina rúmlega 200 kílómetra leið til London. Þar átti að setja af Jakob kóng og foringi innrásarhersins ætlaði að setjast sjálfur í hásætið.
Willem Hendrik van Oranjen var þarna mættur.
Síðasti maðurinn sem hefur lagt undir sig England með hervaldi.
Því þótt hann stæði vissulega í makki við enska aðalsmenn, þá var það hervaldið sem skipti sköpum. Þegar fréttist um allt England á svipstundu hve öflugur her væri þarna mættur — þrisvar ef ekki fjórum sinnum fjölmennari en her hertogans af Normandý árið 1066 — þá tók þegar að gufa upp sá stuðningur meðal aðals og herforingja sem Jakob hafði enn talið sig geta gengið að vísum.
Og eftir því sem herinn nálgaðist London, þeim mun meira gufaði upp.
Churchill segir skilið við kónginn
Loks fréttist að eiginlegi eini herforinginn sem eitthvað kvað enn að í liði konungs, John Churchill, hann væri stokkinn frá borði líka og hefði lýst yfir stuðningi við Maríu kóngsdóttur og Willem Hendrik.
Það munaði um hann, hann er sennilega flinkasti herforingi Englendinga fyrr og síðar og öðlaðist síðar frægð sem hertoginn af Marlborough, auk þess sem John Churchill er líka forfaðir — já, þess Churchills.
Rétt fyrir jólin 1688 spurði svo Jakob kóngur að hinn mikli her dóttur hans og tengdasonar væri kominn nálega alla leiðina til London.
Og hann átti öngvan vin.
Þá lúpaðist Jakob konungur úr landi og snemma árs 1689 voru María og Willem Hendrik krýnd til konungs yfir Englandi, Skotlandi, Veils og Írlandi.
Saman í hásætinu
Í breskri sögu eru þessir atburðir nefndir „dýrðlega byltingin“. Ástæðan er sú að þarna urðu vissulega ansi mikil umskipti í bresku stjórnarfari. María og Willem Hendrik — eða Vilhjálmur konungur 3., eins og hann kallaðist nú — féllust á að formgera heilmikil völd þings aðalsmanna.
Frá og með „dýrðlegu byltingunni“ má segja að þingræði hafi farið að þróast á Bretlandseyjum.
Og það hljómaði miklu betur að leggja áherslu á nýjar og spennandi hugmyndir í sögubókum, draga upp mynd af samtaka innlendum aðli að tryggja þjóðinni — eða altént hluta hennar — völd og réttindi, heldur en að horfast í augu við að þarna hafði í rauninni verið gerð innrás og Hollendingar höfðu hernumið England.
Og þau María og Vilhjálmur 3. eru einu konungshjónin sem teljast hafa setið sem jafngild á hásæti Englands eða Bretlands. Aðrir eiginmenn drottninga sem þar hafa setið síðan — Önnu, Viktoríu og Elísabetar 2. — hafa ekki fengið konungstitil að bera.
...➥➥➥ 𝘄𝘄𝘄.𝘇𝗶𝗻𝘁𝗰𝗼𝗶𝗻.𝗰𝗼𝗺
Annars staðar, t.a.m. líka í Englandi, var fólk þegn landeigandans, sem sagt aðalsins; hollustan almúgans tilheyrði ekki konginum í London heldur þeim lávarði sem átti landsvæðið sem fólkið bjó í.
Að þessu leyti er staðhæfingin að "Hollendingar" hafi gert innrás í Englandi kolröng. Það var persónan Willem sem notaði til þess það herafl sem hann réð yfir. Og ef vel er gáð má vera að í þeim herafla hafi verið einstaklingar frá allri Evrópu eins og tíðkaðist í þá daga.