Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Óvæntur fornleifafundur á hafsbotni: Fyrsta úthafsskipið fundið?

Óvæntur fornleifafundur á hafsbotni: Fyrsta úthafsskipið fundið?
Voru Kanaansmenn þvert oní það sem við höfm talið miklir siglingakappar? Og kunnu þeir að sigla yfir hafið, en ekki einungis meðfram ströndum? Myndin sýnir endurgerð skips af því tagi sem sökk fyrir 3.400 árum.

Fyrir ári síðan var rannsóknarskip á ferðinni alllangt úti í hafinu vestur af ströndum Ísraels. Það var að leita að ummerkjum um gaslindir á hafsbotni. Ekki fer sögum af því hvort þær fundust en hins vegar sáu vísindamenn í tækjum sínum undarlega þúst á botninum á meira en tveggja kílómetra dýpi.

Fjarstýrðar myndavélar voru sendar niður í djúpið og já, þarna reyndist vera flak, og bersýnilega af fraktskipi aftan úr fornöld.

Nú fyrir fáeinum dögum kynntu vísindamenn ísraelsku fornleifastofnunarinnar niðurstöður bráðabirgðarannsókna á flakinu, en þeir höfðu verið fengnir til aðstoðar af orkufyrirtækinu sem sent hafði rannsóknarskipið á vettvang.

Fjarstýrður kafbátur hafði verið sendur niður að flakinu og hann náði upp tveim leirkerjum sem í flakinu höfðu verið.

Því miður höfðu lokin á kerjunum ekki þolað svo langa vist svo djúpt á sjávarbotni og allt sem í kerjunum var virtist horfið og í staðinn voru þau fullt af sandi. Annaðhvort hafði það sem í kerjunum var leyst upp í sjónum eða það hafði hreinlega verið étið af sjávardýrum.

Nú stendur til að sækja fleiri ker og gera nákvæmar rannsóknir á sandinum í þeim. Vonir standa til að einhverjar örlitlar leifar af innihaldinu séu eftir, vonandi nógu mikið til að hægt verði að efnagreina þær.

Myndavélar sýndu að flakið á hafsbotni virtist afar heillegt.Myndin er fengin að láni frá ísraelska blaðinu Haaretz.

Hitt sáu vísindamennirnir fljótt hverjir höfðu búið til þessi leirker og gengið frá þeim um borð í skipinu og hvenær. Skipsflakið reyndist vera 3.400 ára gamalt sem þýðir að skipið var á ferðinni um árið 1375 FT — fyrir upphaf tímatals okkar, eða fyrir Krist.

Og kerin voru af gerð sem vísindamennirnir þekktu. Þau voru bersýnilega búin til af Kanaansmönnum, íbúum á því svæði sem síðar kallaðist Palestína, Ísrael, Júdea ...

Gyðingaþjóðin, sem varð til sem sérstök þjóð um þetta leyti og þó líklega frekar nokkru seinna, hún var hluti Kanaansmanna.

Ísraelsku vísindamennirnir vekja athygli á því að hingað til hafi Kanaansmenn ekki verið þekktir siglingakappar. Ef fraktskipið sem fórst þarna úti í hafinu reynist hafa verið gert út og mannað af Kanaansmönnum getur það breytt verulega mynd okkar af þeim.

En að sjálfsögðu gæti skipið hafa verið til dæmis fönikískt, þótt farmurinn hafi verið útbúinn af Kanaansmönnum. Vonast er til að frekari rannsóknir á næstunni geti upplýst það.

En allra merkilegast er samt hve langt frá ströndu flakið fannst. Í þá daga voru ýmsar þjóðir við Miðjarðarhafi byrjaðar að smíða skip og sigla um hafið en eftir því sem best var vitað höfðu þær allar enn þann háttinn á að sigla meðfram ströndum og hætta sér aldrei úr landsýn.

Hvort tveggja var að skipin voru yfirleitt smá og veikburða og þoldu illa óveður sem geisuðu á opnu hafi og svo höfðu menn engin siglingatæki sem tryggðu öruggar siglingar um úthöfin. Vissulega voru siglingamenn byrjaðir að stýra eftir sól, tungli og stjörnum en kunnu þó ekki að sigla langar leiðir úr landsýn.

Að því er menn héldu.

Getur verið að sjómennirnir hafi fyrir 3.400 árum haft yfir að ráða einhverjum fullkomnari siglingatækjum en þeim sem við höfum hingað til vitað um? Það er ekki óhugandi. Við vitum satt að segja furðu lítið um hinar fyrstu siglingaþjóðir og siglingaþekkingu þeirra.

Þótt Miðjarðarhafið sé vissulega ekki úthaf, þá má þó kalla þau úthafsskip, þau skip sem eru fær um að sigla langar leiðir yfir sjó langt úr landsýn.

Svo var þarna komið eitt fyrsta úthafsskipið?

Nokkurn veginn þar sem línan endar fannst flakið á hafsbotni.

Hvað sem því líður, ef skipið hefur verið á ferð á þeim slóðum þar sem flakið fannst af fúsum og frjálsum vilja skipstjórnarmannanna, þá þarf að endurskoða ýmislegt því flakið fannst hvort meira en minna en 90 kílómetra frá strönd Ísraels.

Miklu lengra úti í hafinu en vitað var til að nokkur kaupskip hættu sér fyrir 3.400 árum.

Að sjálfsögðu getur verið að skipið hafi hrakist burt frá ströndinni í illviðri og síðan sokkið.

Ýmislegt bendir þó til þess að svo hafi ekki verið og sjómennirnir hafi verið á ferðinni svo langt frá landi af því þeir hafi einfaldlega kunnað að sigla yfir hafið — verið til dæmis á leiðinni til Kýpur eða jafnvel Grikklands, nú eða Egiftalands — fremur en þræða strandlengjuna.

Jacob Sharvit og dr. Karnit Bahartan skoða leirkerin af hafsbotni.Myndin er frá ísraelsku fornleifastofnuninni en birtist í blaðinu Haaretz.

Hið helsta sem þykir benda til þess er að farmur skipsins — allur fjöldinn af leirkerjum — var ósnertur um borð. Ef sjómennirnir hefðu hrakist burt frá ströndum og borist langar leiðir út á hafið, þá er ekki ólíklegt að þeir hefðu reynt að létta á skipi sínu með því að varpa farminum eða hluta hans útbyrðis.

Eða þá, ef skipið hefur hrakist undan illveðrum langt út á haf, þá er líka alls ekki ósennilegt að farmurinn hefði eitthvað gengið til og því dreifst víða um hafsbotnin þegar skipið sökk loks.

En svo fór ekki, allur farmurinn var á sínum stað í flakinu. Skipið virðist hafa sokkið mjög í heilu lagi og á skömmum tíma.

Hvers vegna er ekki vitað. Kannski verða menn nær um það eftir að fjarstýrði kafbáturinn sem þarna er nú að störfum hefur grafið upp allt flakið.

Hér er altént að ýmsu að hyggja.

Kjósa
46
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Árásin á Bastilluna: Franska byltingin hófst með því að geðveikir kynferðisglæpamenn og falsarar voru frelsaðir
Flækjusagan

Árás­in á Bastill­una: Franska bylt­ing­in hófst með því að geð­veik­ir kyn­ferð­is­glæpa­menn og fals­ar­ar voru frels­að­ir

Í dag, 14. júlí, er Bastillu­dag­ur­inn svo­kall­aði í Frakklandi og er þá æv­in­lega mik­ið um dýrð­ir. Dag­ur­inn er yf­ir­leitt tal­inn marka upp­haf frönsku bylt­ing­ar­inn­ar ár­ið 1789 þeg­ar feyskinni ein­valds­stjórn Bour­bon-ætt­ar­inn­ar sem hrund­ið frá völd­um. Bylt­ing­in var gerð í nokkr­um áföng­um en vel má segja að eft­ir 14. júlí hafi ekki ver­ið aft­ur snú­ið. Basill­an var virki í Par­ís­ar­borg sem hýsti...

Mest lesið

Guðfaðir plokksins: „Þú brennir meira með því að plokka en skokka“
6
Fréttir

Guð­fað­ir plokks­ins: „Þú brenn­ir meira með því að plokka en skokka“

„Þetta er ekki rusl­ið þitt en þetta er plán­et­an okk­ar,“ seg­ir Erik Ahlström, guð­fað­ir plokks­ins. Ekki bara felst heilsu­bót í plokk­inu held­ur seg­ir Erik það líka gott fyr­ir um­hverf­ið og kom­andi kyn­slóð­ir. Hann tel­ur mik­il­vægt fyr­ir sjáv­ar­þjóð eins og Ís­land að koma í veg fyr­ir að rusl fari í sjó­inn en 85 pró­sent þess kem­ur frá landi. Blaða­mað­ur Heim­ild­ar­inn­ar fylgdi Erik út að plokka.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

„Ég er mjög stolt af því að hafa tekið þennan slag“
5
Fréttir

„Ég er mjög stolt af því að hafa tek­ið þenn­an slag“

Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu komst í dag að þeirri nið­ur­stöðu að ís­lenska rík­ið hefði ekki brot­ið á Bryn­dísi Ásmunds­dótt­ur. Hún seg­ir skrít­ið að tala um tap þeg­ar Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu veitti henni áheyrn. Nú geti hún loks náð and­an­um. Mark­mið­um um að vekja máls á brota­löm­um í ís­lensku rétt­ar­kerfi hafi náðst, ekki síst þeg­ar sig­ur vannst í öðru mál­inu.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár