Ég heiti Ríkey Guðmundsdóttir Eydal og við erum á Landnámssýningunni í Aðalstræti. Ég er menntaður safnafræðingur og ég tók verknám hérna hjá Borgarsögusafni og þegar ég var búin með verknámið buðu þau mér helgarstarf hérna í móttökunni og ég þáði það.
Sumir sem heimsækja safnið hafa mikla þekkingu á sögu Íslands, sérstaklega á landnámsöldinni, mjög margir sem hafa mikinn áhuga á víkingaöld og landnámsöldinni á Íslandi. Og svo eru aðrir sem koma hingað alveg blint og þekkja ekki neitt og finnst gaman að koma og fá fullt af upplýsingum á stuttum tíma um sögu Íslands.
Mér finnst söfn svo ótrúlega áhugaverð. Þessi ákvörðun um hvað á að sýna og hverju á að safna og af hverju og hvort það sé eitthvað sem við erum að gleyma. Hvernig samtíminn varpar ljósi á fortíðina okkar. Og söfnin eru stallurinn. Þau hafa mjög strangar lagalegar skyldur gagnvart sínu starfi, þau verða að safna gripum og þau verða að varðveita gripina sem þau eru að safna og miðla og rannsaka. Mér finnst safnið áhugaverð stofnun í samfélaginu sem er að varpa ljósi á hvað okkur finnst um okkur sjálf eiginlega á tímanum sem við erum að safna hlutunum, miklu frekar en tímunum sem hlutirnir tilheyra.
„Ég held að okkur langi til að vera gömul þjóð eins og aðrar þjóðir.“
Safnamenning Íslendinga segir mjög margt um okkur. Við erum með ofboðslega mörg söfn á Íslandi sem er frábært, það sýnir að okkur langar til að miðla því hver við erum. Við erum mjög ung þjóð í alþjóðlegu samhengi. Okkur langar til að vera gömul. Ég held að okkur langi til að vera gömul þjóð eins og aðrar þjóðir.
Það er mjög fyndið, ég er hérna með rúst frá 871 plús mínus tveir og ég hef fengið fólk til mín sem hefur horft á mig og sagt: það eru bara hús í borginni minni sem eru eldri en þetta. Þessi rúst. Við eigum mjög ríka sögu og mjög áhugaverða sögu þó svo að hún sé ekkert sérstaklega löng. Það sem er líka áhugavert við okkur er að við eigum mikið af sögu almennings. Oft er sagan sem er til erlendis bara saga mikilmennanna. Auðvitað eru torfbæirnir sem varðveittust stórir og frá heldra fólki. En það er ekkert svo langt síðan fólk bjó í torfbæ þannig að það er auðveldara fyrir okkur að grípa í það.
Ég get alveg trúað því að við sem þjóð séum í sjálfsmyndarkrísu því við vitum ekki hvort hluti af okkar sjálfsmynd felist í því að við höfum einu sinni verið nýlenda eða hjálenda. Við eigum í flóknu sambandi við Dani. Hluti af sjálfsmynd okkar var búin til á 19. öld, þessi hugmynd um hvað er að vera Íslendingur. Það voru ljóðin okkar og sjálfstæðisbaráttan og Jón Sigurðsson og sú hugsun. Hún verður til mestmegnis á 19. öld og svo nær hún hámarki á miðri 20. öld þegar við verðum sjálfstæð. Þetta var lengi í deiglunni. Þá er þetta mikið svona hraust sál í hraustum líkama, þetta tengist inn í ungmennafélögin og hreysti og alls konar svoleiðis. Við tölum mjög mikið um að við séum bókmenntaþjóð.
Þetta er allt mjög karllægt enda voru það karlar sem bjuggu þessa hugmynd til. Við eigum margar sögur af því að það er verið að setja út á konur sem klæddu sig að dönskum sið, í tískuföt. En íslenski þjóðbúningurinn er undir áhrifum frá eins og til dæmis dönskum sið og öðrum löndum í kringum okkur. Við erum ekki eins mikil eyja og okkur finnst við vera.
Reynslan sem mótaði mig mest var að vera í sveitinni hjá ömmu og afa í Skagafirðinum frá því að ég var barn og fá að taka þátt í búskapnum, fara með að slá og sinna kúnum. Ætli ég hafi ekki verið svona 12 ára þegar kýrnar voru seldar. Amma og afi voru orðin eldri og gátu ekki haldið búinu áfram. Ég fékk að upplifa þessa sveit, í síðasta kaflanum í sögu hennar og það var mótandi.
Ég er Reykvíkingur og alin upp hér en hafði alltaf sveitina mína. Mér finnst gott að komast í annan takt. Í sveitinni voru önnur verkefni sem ég þurfti að sinna og það þurfti að sinna þeim, það þarf að gefa kúnum. Ég var mikill forréttindapési, ég hafði það rosa gott í æsku. Ég hefði getað komist upp með það, meirihlutann af æskunni minni að þurfa ekki að gera neitt. Þarna lærði ég að sumt er ekki val, ég bar ábyrgð á einhverju.
Þeim fannst erfitt að leggja niður búið en kýrnar voru bara seldar á næsta bæ svo við sáum þær allavega. En þetta voru furðulegar tilfinningar. Amma dó á þessum bæ einhverjum tveimur árum seinna. Hún undi sér best í sveit og fannst mjög gaman að hugsa um dýrin sín. Ári eftir að kýrnar fóru hvarf kötturinn þeirra, Litla kisa, og ömmu fannst það ofboðslega erfitt. Þær áttu mjög fallegt samband og þetta hafði mikil áhrif á hana.
Er menningargjá á milli okkar ömmu? Amma upplifði allt aðra hluti en ég, svo já, kannski. Hún upplifði hluti sem ég get ekki gert mér í hugarlund. Ein af fyrstu minningum hennar var þegar torfbærinn sem hún bjó í er að hrynja í jarðskjálfta í Svarfaðardalnum. Síðan bý ég í Reykjavík og mín fyrsta minning er að leika mér með vinum mínum í dúkkuleik út í garði hjá vinkonu minni. Hennar fyrsta minning er húsið hennar að hrynja, hún varð að fara út því það var of hættulegt að vera þar inni á meðan jarðskjálftinn dundi yfir.
Við erum búin að vera í jarðskjálftahrinu núna og þetta er orðið svo fjarlægt manni. Það er eiginlega ekki fyrr en núna eftir Grindavík og allt sem gerðist þar sem maður fattar, já, við eigum kannski að vera hrædd við jarðskjálftana.
Situr saga ömmu eftir í mömmu? Já, sveitin situr eftir í henni. Mikil vinnusemi og elja og ákveðin lífsviðhorf sem koma þaðan. Hún er rosa mikið, hvernig á ég að orða það; stundum þarf að gera meira en gott þykir, hugarfar. En samt rosalega mikil hlýja, maður sinnir fólkinu sínu. Í sveit þá gerir þú ekkert einn og það eru allir velkomnir.
Athugasemdir