Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur miklar áhyggjur af stöðu Samkeppniseftirlitsins (SKE) og þeirri neikvæðu umræðu sem hefur beinst að stofnuninni.
Í nýjasta þætti Pressu ræddi Kristrún afstöðu og stefnu Samfylkingarinnar gagnvart ýmsum málum. Í viðtalinu var meðal annars rætt um ummæli stjórnenda opinberra eftirlitsstofnanna sem hafa lýst því hvernig sérhagsmunahópar og stórfyrirtæki hafa á undanförnum árum beitt sér fyrir því að hafa áhrif á starfsemi umræddra stofnanna.
Í síðasta þætti Pressu sagði Páll Gunnarsson, forstjóri SKE, að á undanförnum árum hafi ýmsir hagsmunahópar, í gegnum eignarhald á fjölmiðlum og ítökum í stjórnmálum, unnið að því skerða getu SKE til þess að sinna eftirlitshlutverki sínu.
Í viðtalinu sagðist Kristrún hafa miklar áhyggjur af umræðunni um Samkeppniseftirlitið og telur hún stjórnvöld bera mikla ábyrgð á þeirri stöðu meðal annars vegna áralangrar vanfjármögnunar á stofnuninni.
„Það hefur orðið samdráttur í fjárframlögum til Samkeppniseftirlitsins á undanförnum árum þrátt fyrir að umsvifin í hagkerfinu hafi aukist,“ segir Kristrún, sem gagnrýnir sömuleiðis þögn ríkisstjórnarflokkanna í þessari umræðu.
Þetta megi glöggt sjá á þeirri takmörkuðu umræðu sem hafi átt sér stað á þingi og meðal ráðherra um rannsókn SKE á samráði skipafélaganna Eimskip og Samskip.
„Það hefur ekkert heyrst frá stjórnvöldum eftir að þessi niðurstaða kom varðandi Eimskip/Samskip, varðandi til dæmis kostnaðinn sem þetta hefur haft í för með sér.“
En samkvæmt nýlegri greiningu er ólöglegt samráð Eimskips og Samskips talið hafa kostað íslenskt samfélag 62 milljaða króna.
Hagsmunahópar vega að eftirlitsstofnunum
Í viðtalinu tekur Kristrún undir með forstjóra SKE og segir ljóst að ákveðnir aðilar í samfélaginu hafi haft mikil áhrif á starfsemi eftirlitsins.
Í máli sínu nefnir Kristrún rannsókn Samkeppniseftirlitsins á Eimskip, en á þeim tíma sem stofnunin rannsakaði félagið, hafði Eimskip kært eftirlitsaðgerðir SKE fjórtán sinnum.
„Þarna sjáum við bara svart á hvítu hvað öflugt Samkeppniseftirlit skiptir ofboðslega miklu máli.“
Kristrún segist vilja innleiða löggjöf sem geri smærri fyrirtækjum og einstaklingum kleift að sækja sér skaðabætur í hópmálsóknum þegar slík sambærileg mál koma upp.
Viðtalið má sjá í heild sinni hér:
Athugasemdir