Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir nýlegt tilboð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra til sjálfstætt starfandi háskóla landsins sé til marks um mikla stefnubreytingu í fjármögnun háskólakerfisins. Hann telur að breytingin muni að óbreyttu hafa neikvæð áhrif á rekstur Háskóla Íslands.
Í svari við fyrirspurn Heimildarinnar segir rektor að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnendur Háskóla Íslands um ákvörðun ráðuneytisins.
„Þetta tilboð hefur ekki verið útskýrt fyrir okkur í HÍ af hálfu stjórnvalda umfram það sem fram hefur komið í fréttatilkynningu ráðuneytisins og umfjöllun í fjölmiðlum,“ segir Jón Atli og bendir á að breytingin geti haft umtalsverð áhrif á háskólakerfið á Íslandi.
„Því slær þetta okkur í HÍ illa,“
„Í stuttu máli er verið að leggja ríkisrekna og einkarekna háskóla að jöfnu óháð skyldum þeirra gagnvart samfélaginu og rekstrarformi. Því slær þetta okkur í HÍ illa,“ segir Jón Atli. Þá segir hann að stjórnendur og starfsfólk skólans hefðu viljað ræða og greina fyrirhugaðar breytingar áður en þær yrðu framkvæmdar.
Tilboðið komi niður á rekstri Háskóla Íslands
Í svari Jóns Atla segir einnig að út frá umræðunni sem hefur spunnist í kringum tilboð ráðherra megi ráða að ekki eigi að auka fjármagn til háskólakerfisins. En háskólaráðherra hefur sagt að breytingarnar rúmist innan fjárveitinga sem getið er til um í fjárlögum ársins 2024.
„Af þeirri ástæðu er ljóst að fjármagnið sem aukið er inn í einkareknu háskólanna sem þiggja tilboðið kemur niður á öðrum háskólum og að stærstum hluta HÍ þar sem hann er um 2/3 hlutar af háskólakerfinu“
Þá segir Jón að þessi aðgerð hafi leitt til þess að háskólinn þurfi að endurmeta stöðu sína. „HÍ er nú þegar að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu sem verður enn verri að óbreyttu með breytingunni á skólagjöldum. Við erum að yfirfara alla starfsemina, þ.á m. fækka störfum og námskeiðum og hugleiða að leggja niður námsleiðir.“
Misjafnar viðtökur við tilboði ráðherra
Fyrr í þessum mánuði tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um að sjálfstætt starfandi háskólum landsins stæði til boða að fá fulla fjármögnun gegn því að fella niður skólagjöld.
Hingað til hafa sjálfstætt starfandi háskólar fengið um 60 til 80 prósent af þeim framlögum sem þeir hefðu annars fengið ef rekstrarform þeirra væri opinbert.
Í tilkynningu ráðuneytisins kom fram að helstu ástæðurnar að baki breytingunni væru að stuðla að jöfnum tækifærum og valfrelsi til háskólanáms. Færð voru rök fyrir því að ekki væri sanngjarnt að gera upp á milli nemenda eftir rekstrarformi háskólanna einu og sér.
Listaháskóli Íslands þáði boðið sama dag og ráðuneytið tilkynnti um það. Hins vegar hafnaði stjórn Háskólans í Reykjavík tilboðinu. Í tilkynningu sem stjórn Háskólans í Reykjavík sendi frá sér kom fram að tilboðið fæli í sér skerðingu rekstrartekjum skólans upp á rúman milljarð króna á ári.
Taldi stjórn Háskólans í Reykjavík að ekki væri hægt að tryggja gæði menntunar og sérstöðu skólans til framtíðar með því að þekkjast tilboð ráðherra að óbreyttu.
Háskólanum á Bifröst var einnig boðið að fá full fjárframlög gegn afnámi skólagjalda en stjórnendur skólans hafa enn sem komið er ekki brugðist við tilboðinu formlega.
Athugasemdir