Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, spurði Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra, „hvort standi til af hálfu ráðherra að setja á fót sjálfstæða og óháða rannsókn á tildrögum og aðdraganda þessa slyss?“ í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi fyrr í dag. Átti hún við slysið í Grindavík sem varð þess valdandi að Lúðvík Pétursson féll ofan í sprungu.
Heimildin hefur fjallað ítarlega um málið. Fjölskylda Lúðvíks hefur kallað eftir óháðri rannsókn á tildrögum slyssins og þykir óboðlegt að yfirvöld rannsaki sig sjálf. Elías Pétursson, bróðir Lúðvíks, greindi frá því í viðtali við Heimildina að enn hafi enginn sem bar ábyrgð á ákvörðunum í aðdraganda slyssins sett sig í samband við fjölskylduna. Þegar boðað var til fundar með fjölskyldunni var hann afboðaður án skýringa og hefur ekki enn farið fram. Þegar fjölskyldan leitaði svara lenti hún á símsvara.
Elías frétti það frá systur sinni að Lúðvík hefði fallið í sprungu í Grindavík. Hann segir að slysið hafi strax vakið upp sárar og áleitnar spurningar, en því meira sem komi fram um atvikið hafi „ósvöruðum spurningum bara fjölgað.“
Í fyrirspurn sinni nefndi Þórhildur Sunna gagnrýni aðstandenda um samskiptaleysi og andsvaraleysi stjórnvalda í sinn garð í kjölfar slyssins. „Í þessu samhengi er vert að benda á að stjórnvöld hafa sérstökum skyldum að gegna gagnvart rannsóknum af dauðsföllum sem bera að með óeðlilegum hætti. Dómafordæmi Mannréttindadómstóls Evrópu sýnir að slík rannsókn skal vera sjálfstæð og óháð og aðstandendum skuli haldið sérstaklega upplýstum um gang mála.“
Rannsókn í gangi hjá Vinnueftirlitinu og lögreglunni
Dómsmálaráðherra sagði í svari sínu að markmið Almannavarna og dómsmálaráðuneytisins hafi frá upphafi verið að koma í veg fyrir manntjón. „Þetta slys sýndi okkur að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi og það í þeim anda hafa almannavarnir starfað síðustu vikur og mánuði.“
Dómsmálaráðherra sagði að samkvæmt hennar upplýsingum liggi fyrir að rannsókn sé í gangi hjá Vinnueftirlitinu og lögreglunni á tildrögum slyssins.
Þórhildur Sunna hvatti dómsmálaráðherra til að skoða þann möguleika að hefja sjálfstæða óháða rannsókn varðandi tildrög slyssins, vegna sérstakrar skyldu sem stjórnvöld hafa þegar kemur að andlátum sem ber að með óeðlilegum hætti. „Það er mjög skýrt að það á að fara af stað sjálfstæð og óháð rannsókn þegar það ber að.“
Nýlega var lögum um almannavarnir breytt. Stjórnvöld lögðu niður nefnd sem ætlað var að rannsaka hvernig yfirvöld almannavarna færu að og eftirlitið fært yfir til almannavarna sjálfra. Rannsókn í málum líkt og slysinu í Grindavík fer ekki sjálfkrafa af stað eftir atvik heldur þarf sérstaka ákvörðun um að rannsaka þurfi atburði sem almannavarnir komi að.
„Síðan vil ég taka fram að nefndin, samkvæmt fréttaflutningi, var lögð niður vegna þess að henni hefði aldrei verið gert kleift að sinna störfum sínum með fullnægjandi hætti vegna vanfjármögnunar og skorti á stuðningi frá dómsmálaráðuneytinu,“ sagði Þórhildur
Hefur ekki tekið ákvörðun hvort að nefndin verði endurvakin
Þórhildur spurði dómsmálaráðherra hvort að til greina kæmi „að setja á fót starfhæfa og sjálfstæða rannsóknarnefnd almannavarna að nýju?“
Í viðtali við Helga Seljan í Pressu fyrr í mánuðinum sagðist dómsmálaráðherra hafa „heimild, samkvæmt almannavarnalögum, til þess að kalla eftir ytri og innri úttekt. Mér finnst mjög eðlilegt að það verði gert, þannig að vitaskuld þegar að svona hörmulegir atburðir eigi sér stað að þá eigum við að rannsaka þá til hlítar. Hvað gerðist? Hefði verið hægt að koma í veg fyrir það eða ekki?“
Í svari dómsmálaráðherra til Þórhildar fyrr í dag sagðist Guðrún ekki þekkja nákvæmlega hvað olli skorti á aðbúnaði og undirbúningi nefndarinnar sem gerði það að verkum að hún hafi ekki getað sinnt sínu hlutverki. „Allavega var það niðurstaðan að nefndin var lögð niður. Ráðherra hefur ekki tekið ákvörðun um það enn sem komið er hvort þessi nefnd verði endurvakin. En ég minni á það að ráðherra hefur viðamiklar heimildir til þess að kalla eftir bæði ytri og innri rýni á þeim almannavarnaviðbrögðum sem beitt hefur verið úti á Reykjanesi.“
Athugasemdir