Utanríkisráðherra, Bjarni Benediktsson, mætti í viðtöl, fyrsti á Stöð 2, svo á RÚV, í kvöldfréttatímum, 6. febrúar sl. Umræðuefnið var vilji og geta íslenzkra stjórnvalda, þá fyrir og fremst utanríkisráðherra sjálfs, til að hjálpa þeim upphaflega 128 Palestínumönnum, sem höfðu fengið hér dvalarleyfi, á grundvelli laga og reglna um fjölskyldusameiningu, til að komast út úr því fangelsi píslar og hörmunga, sem Gaza er, yfir til Egyptalands, og svo áfram til Íslands.
Raunar er það svo, að íslenzk stjórnvöld eru ekki lagalega skuldbundin til að veita þessa hjálp, og hafa tilteknir ráðherrar borið það fyrir sig, en flestir hér munu líta svo á - alla vega allir, sem kenna sig við mannúð og samúð með þeim, sem líða og þjást, hafa nokkurn mannkærleika í brjósti sér - að þessi hjálp sé minnst siðferðisleg skylda okkar.
Allir þessir Palestínumenn - þar af mikill meirihluti börn - eiga nána ættingja hér, sem bíða þess í örvæntingu og ofvæni, að hægt verði að bjarga fólkinu út af Gaza, út úr hinni aðþrengdu borg þar, Rafah, en íbúar hennar, sem eru venjulega 180.000, eru nú yfirþyrmdir af langt yfir milljón flóttamönnum, sem flúið hafa norður- og miðhluta Gaza.
Þar hefur Ísraelsher lagt nánast allt í rúst, jafnað flest mannvirki og innviði við jörðu og drepið hátt í 30.000 manns, þar af um 10.000 börn. Eru þá limlest og slösuð börn og fullorðnir ótalin, en þau munu vera enn miklu fleiri.
Í Rafah sýnist manni ástandið vera eins og ímynda má sér helvíti á jörðu, og veit enginn, hvort hann lifi daginn af eða ekki. Hluti af þessari písl er auðvitað það, að Ísraelsmenn halda niðri aðflutningi á mat, drykk, lyfjum og öðrum hjálpargögnum, og líður fólkið því á nánast allan hátt.
Netanjahú, fyrir mér eitt mesta ómenni okkar tíma - jafnvel hótinu verri en sjálfur Pútín og álíka hættulegur og Donald Trump - hefur lýst því yfir, að Ísraelsher muni gera allsherjar árás á Rafah, og þá auðvitað um leið fólkið þar, innan skamms. Á næstu dögum eða vikum.
Þó að Biden, Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands og margir aðrir málsmetandi menn, svo ég tali nú ekki um Xi, forseta Kína, hafi krafizt þess, að íbúum og flóttamönnum í Rafah verði með einhverjum hætti komið í skjól, áður en atlagan að borginni hefst, verður ekki séð, að Netanjahú hafi haft nokkra tilburði í þá veru, hvað þá tryggt slíka lausn.
Þetta eru raunaðstæður þeirra 128 Palestínumann, sem fengið hafa hér dvalarleyfi, og utanríkisráðherra er að fjalla og tjá sig um.
Stuttur utanríkisráðherraferill Bjarna hefur reyndar fyrir undirrituðum ekki verið góður eða gleðilegur. Skemmst er að minnast „Var þetta árás?“ spurningarinnar í Osló, þegar fréttamaður spurði hann um afstöðu til tiltekinnar árásar Ísraelshers á flóttamannabúðir í Gaza, þar sem ekki voru aðeins sprengd upp hús og mannvirki, þau lögð í rúst, heldur líka fólk, konur og börn, limlest, tætt í sundur og drepin.
Þegar ég horfði og hlustaði á Bjarna í fréttum 6. febrúar, fór hreinlega um mig. Svo bágborin fannst mér málflutningur og framkoma mannsins. Þóttist vilja þessum dvalarleyfishöfum allt gott, vera fullur af samúð og velvilja, fullyrti að hann væri að berjast fyrir lausn fyrir þá, þannig, að þeir kæmust sem allra fyrst út úr þeim hörmungum og því fári, sem þeir búa við.
Á RÚV sagði Bjarni m.a. þetta: „Við getum ekki haldið áfram að senda út þau skilaboð, að á Íslandi sé auðveldast að koma og fá dvalarleyfi, auðveldast að fá fjölskyldusameiningu og innviðir á Íslandi eru hreinlega sprungnir. Þessvegna hefur ráðherranefndin verið að skoða þetta í heildarsamhengi“ (frá 29. desember, þá í sex vikur, vel að merkja).
„Skoða þetta í heildarsamhengi“, m.ö.o. getur það verið, að ráðherranefndin hafi það verkefni, að leita leiða til að íslenzk stjórnvöld geti komið sér út úr, svikið, dvalarleyfisveitingar sínar gagnvart þessu aumingjans fólki?
Hvað þarf að skoða í afgreiddu máli, veittum dvalarleyfum? Hér er lyktin af óheilindum og undanbrögðum sterk. Þó að Bjarni beri hér höfuðábyrgð, er þetta mál auðvitað á ábyrgð allrar ríkisstjórnarinnar, þá ekki sízt forsætisráðherra.
Fyrir undirrituðum, og, ég hygg, fjölmörgum öðrum, væri rétt og heiðarleg leið og lausn sú, að setja fullan kraft í það að hjálpa þessu fólki, á grundvelli mannúðar og veittra dvalarleyfa, til að komast út úr því víti, sem því er haldið í, yfir til Kaíró. Þrjár vaskar íslenzkar konur, sjálfboðaliðar, náðu 4ra-manna fjölskyldu út á nokkrum dögum. Fulltrúar íslenzku ríkisstjórnarinnar, sem virðast vera komnir á staðinn, ættu að geta leikið þetta eftir og vel það, ef fullur vilji er til.
Al ir þessir Palestínumenn eiga ættingja hér - þessvegna fengu þeir einmitt dvalarleyfi - og má ætla, að ættingjarnir muni taka á móti komumönnum, taka þá inn í sín hús og inn á sínheimili og sinna þeim, þannig, að álag þessa eina hóps muni ekki leggjast af miklum þunga á stjórnvöld eða innviði.
Annað mál er það, að þessi ráðherranefnd getur svo auðvitað rætt og tekið á nýjum og opnum flóttamannamálum skv. því, sem efni standa til. Eflaust er það rétt, að við Íslendingar þurfum að staldra við og skoða vel, hversu langt við getum gengið í móttöku erlendra flóttamanna. Auðvitað eru þar mörk, eins og í öllu, en það er bara allt annað mál.
Athugasemdir