Ríkissjóður mun bjóðast til þess að kaupa íbúðarhúsnæði í eigu einstaklinga í Grindavík. Í lagafrumvarpi sem samþykkt var á ríkisstjórnarfundi fyrr í dag er gert ráð fyrir að kostnaðurinn við uppkaup á íbúðarhúsnæði Grindvíkinga muni kosta ríkissjóð um 61 milljarð króna. Þá segir á vef Stjórnarráðsins að stefnt sé að því að festa frumvarpið í lög á Alþingi í næstu viku.
Gert er ráð fyrir því að fasteignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95 prósent af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Sem er í takt við bótagreiðslur sem Náttúruhamfaratryggingar Íslands greiða þegar hús er metin ónýt af völdum hamfara.
Frumvarpið var unnið í samstarfi við alla þingflokka og kynnt fyrir bæjarstjórn Grindavíkur. Aðgerðin er stór liður í langtíma aðgerðáætlun stjórnvalda sem miða að því að eyða þeirri óvissu sem Grindvíkingar hafa búið við frá því í nóvember í fyrra, þegar rýma þurfti bæinn vegna jarðhræringa.
Í gær greindi fjármála- og efnahagsráðuneytið frá því að tekist hafi að semja við tólf lífeyrissjóði um að ríkissjóður muni taka að sér að greiða vexti og verðbætur sem leggjast á lífeyrissjóðslán Grindvíkinga fram til maí mánaðar.
Fasteignafélagið Þórkatla stofnað
Í tilkynningu stjórnarráðsins kemur fram að til stendur að stofna og fjármagna félag sem mun hafa umsjón með kaupum á umræddum fasteignum og rekstri þeirra fyrir hönd ríkissjóðs. Mun nýja fyrirtækið heita Fasteignafélagið Þórkatla.
Þá segir í tilkynningunni að gert sé ráð fyrir að „félagið eigi tilkall til mögulegra bóta úr Náttúruhamfaratryggingu Íslands (NTÍ) og beri mögulegan kostnað við niðurrif komi til þess."
Lagt er til að fyrirtækið verði fjármagnað með tvenns konar hætti. Annars vegar með fjármagni frá lánveitendum og hins vegar með greiðslum úr ríkissjóð.
Samskonar lausn hefði gjarnan mátt bjóða upp á eftir bankahrunið 2008. Nema þá voru íbúðirnar og húsin ekki ónýt og hefði því verið hægt að bjóða þeim sem bjuggu í þeim að leigja húsnæðið á meðan þau voru að koma aftur undir sig fótunum, í stað þess að missa heimilin sín.