Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri sölu-, rekstrar- og þjónustu Bláa lónsins, segir í samtali við Heimildina að rúmlega hundrað gestir og starfsmenn hafi verið staddir á hóteli Bláa lóninsins þegar svæðið var rýmt í nótt. Eldgos hófst í Sundhnúkagígaröðinni laust eftir klukkan 6 í morgun.
„Við erum beintengd við almannavarnakerfið og fáum upplýsingar eins hratt og auðið er,“ segir Helga.
Kom fólki ekki á óvart
Að hennar sögn var þetta yfirveguð rýming sem þýðir að menn höfðu tíma til að pakka í töskur og ganga frá herbergjunum. Hún segir að ekkert óðagot hafi einkennt aðgerðir. „Enda vissum við í hvers konar jarðhræringar stefndi og hvar. Það var búið að koma fram í fjölmiðlum dagana á undan að menn áttu von á gosi við Sundhnúkagígaröðina og ef til þess kæmi þá yrði fyrirvarinn tiltölulega stuttur. Það er akkúrat það sem raungerðist.“ Hún tekur þó fram að Bláa lónið og starfsstöðvar þess liggi ekki einmitt á því svæði.
Gosið kom því ekki á óvart. „Það var búið að upplýsa gesti fyrirfram, svo þetta var ekki að koma fólki á óvart. Gestir sýndu þessu mikinn skilning og yfirvegun.“
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af staðsetningu gossins segir Helga að Bláa lónið fylgi því sem komi fram hjá Veðurstofu og almannavörnum. „Hræringarnar eru fyrst og síðast við Sundhnúkagígaröðina og við erum ekki á því svæði,“ segir hún.
Í Bláa lóninu hefur verið komið upp samræmdu viðvörunarkerfi sem hægt er að setja í gang þar auk Grindavíkur og hjá HS Orku.
Samræmdar viðvörunarflautur nýkomnar upp
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri almannavarna, tekur undir það að rýming hafi gengið vel í Svartsengi og hóteli Bláa lónsins. „Það sem var kannski sérstakt við þessa rýmingu núna að það er búið að koma upp viðvaranaflautum við Bláa lónið og inni í Grindavík. Það var maður sem setti þær í gang og það var búið að æfa það allt saman í vikunni,“ segir hún.
Hjördís segir að hljóðið í viðvarnaflautunum gæti vakið upp einhverjar minningar í þeim sem komnir eru yfir fimmtugt. „Þetta er sama hljóð og í loftvarnarflautunum sem fólk yfir vissan aldur kannast eflaust vel við,“ segir hún.
Athugasemdir