Greiningardeild ríkislögreglustjóra (GRD) hefur gefið út nýja greiningarskýrslu þar sem lagt er mat á hryðjuverkaógn á Íslandi. Í skýrslunni er kynnt til sögunnar uppfært áhættumat sem byggir á viðmiðum og skilgreiningum á hættustigi vegna hryðjuverkaógnar.
Greiningardeildin hefur undanfarið unnið að því að samræma skilgreiningar á hættustigi við það sem þekkist meðal helstu samstarfsríkja Íslands.
Samkvæmt nýju hættumati er Ísland á þriðja hættustigi af fimm, en það merkir að aukin ógn á hryðjuverkum og að „til staðar er ásetningur og/eða geta og hugsanleg skipulagning hryðjuverka.“
Fjórða stig merkir að þekkt ógn sé til staðar, það sé vitað um ásetning getu og skipulagningu á hugsanlegum hryðjuverkum. Í fimmta og efsta hættustigi er ógnin metin mjög alvarleg og að hugsanleg hryðjuverkáras sé yfirvofandi.
GRD telur hryðjuverkaógnina stafa mestmegnis frá einstaklingum sem aðhyllist ofbeldisfulla öfgahyggju og séu reiðubúnir að fremja hryðjuverk. Í skýrslunni segir að „[k]omi til þess að framið verði hryðjuverk á Íslandi er líklegast að heimatilbúnum og einföldum vopnum verði beitt.“
Einn helsti veikleiki Íslands, samkvæmt skýrsluhöfundum, er talin vera skortur á heimildum til þess að „afla og miðla upplýsingum og gögnum þ.e. beiting fyrirbyggjandi aðgerða í þágu löggæslu.“
Forsendur að baki uppfærðu áhættumati
Taldar eru fram nokkrar forsendur sem liggja að baki matinu. Þar ber helst að nefna tvö nýlega áþreifanleg mál sem voru rannsökuð hér á landi.
Annars vegar er nefnd umfangsmikil rannsókn lögreglu á tveimur ungum mönnum sem ákærðir hafa verið fyrir að skipuleggja hryðjuverk hér landi. Við rannsókn lögreglu var lagt hald á fjölmörg vopn og fræðsluefni sem notað er til að skipuleggja hryðjuverk.
Hins vegar er nefnt til sögunnar nýlegt mál sem kom upp í janúar á þessu ári þar sem karlmaður var handtekinn og sendur til Grikklands ásamt fjölskyldu eftir að lögreglu bárust upplýsingar um að karlmaðurinn væri meðlimur í hryðjuverkasamtökunum ISIS.
Hinar forsendurnar sem taldar eru fram í skýrslu GRD eru talsvert óljósari í eðli sínu. Þar er til að mynda nefnt að aukin spenna í alþjóðasamskiptum, vöxtur og dreifing á öfgafullri orðræðu á samskiptamiðlum og stríðsátök í upprunaríkjum flóttamanna hafi áhrif á áhættumat lögreglu.
Í því samhengi er sjónum sérstaklega beint að átökunum fyrir botni Miðjarðahafs og nefnt að Hamas-samtökin, ásamt öðrum, hafi undanfarið verið iðin við að miðla „miklu magni af hryðjuverkatengdu efni á netmiðlum.“
Þá er einnig talið að stríðsátök og starfsemi hryðjuverkasamtaka á stríðshrjáðum svæðum geti leitt til þess „að meðlimir hryðjuverkasamtaka eða aðilar sem tengjast hryðjuverkastarfsemi með einhverjum hætti, reyni að komast til Vesturlanda sem flóttamenn.“
Ungir menn á spjallrásum
Í skýrslu GRD er þess einnig getið að lögregla hafi í auknum mæli orðið vör við ískyggilega þróun þar sem einstaklingar, sérstaklega ungir karlmenn, komast í kynni við öfgafulla hugmyndafræði á lokuðum spjallsvæðum sem finna má á ýmsum samfélagsmiðlum.
Í sumum tilfellum geti átt sér stað innræting á ofbeldisfullum viðhorfum meðal virkra notenda á slíkum spjallrásum. Þar sem einstaklingar eru hvattir til og gefin ráð um hvernig eigi skipuleggja hryðjuverk.
Notast er við hugtakið „samþætt öfgahyggja“ til að lýsa þessu ferli þar sem einstaklingar taka upp öfgakenndar skoðanir og fá ráðleggingar og hvatningu til að fremja hryðjuverk frá öðrum virkum notendum á slíkum spjallrásum.
Lokuðum??? Merkileg viðurkenning á brotum gegn 88. gr. fjarskiptalaga og 71. gr. stjórnarskrár.