Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að búið sé að senda lista með nöfnum þeirra sem fengið hafa samþykkt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar til egypskra stjórnvalda. „Það liggur algjörlega fyrir. Það er meira að segja búið að senda uppfærðan lista.“ Katrín segir þó aðgerðina ekki vera svo einfalda að það þurfi aðeins að senda lista.
„Það hafa verið mjög virk samskipti utanríkisráðuneytisins við egypska sendiráðið í Osló,“ segir hún.
Katrín segir að til þess að aðilar geti komist yfir landamærin þurfi samskipti við utanríkisþjónustuna bæði í Ísrael og Egyptalandi. Eftir hennar skilningi hafi öll gögn borist frá íslenska utanríkisráðuneytinu.
Katrín segir að mikið hafi verið unnið í máli fjölskyldusameininganna. „Þetta þykir auðvitað töluverður fjöldi fyrir svona litla utanríkisþjónustu og stjórnsýslu að takast á við. Það er bara staða málsins að þetta er ennþá í vinnslu.“
Stór aðgerð fyrir litla utanríkisþjónustu
Heimildin spurði Katrínu á hverju sameiningarnar strönduðu þá. „Mér skilst að þetta snúist svolítið um bæði að það sé flókin stjórnsýsla og stór hópur. Þetta sé heilmikil aðgerð,“ sagði forsætisráðherrann. „Það hefur verið mat fólks að þetta sé töluvert flókin aðgerð.“
Hún segir að mjög misunandi sé staðið að málum á hinum Norðurlöndunum. „Við erum auðvitað ekki með svona sambærilega utanríkisþjónusutu og þau.“
Eftir því sem stjórnvöld skilji þurfi að senda fólk til að taka á móti flóttamönnunum þegar þeir koma yfir landamærin frá Gasa. Samkvæmt upplýsingum Katrínar sé ekki nóg að Alþjóðaflutningsstofnunin (IOM) taki á móti fólkinu.
Athugasemdir (3)