„Þetta er svakalegt ástand og maður er bara alveg að gefast upp“ sagði Róbert Paul Scala, leigubílsstjóri og fyrrum íbúi Grindavíkur í samtali við Heimildina. Hann og fjölskylda hans standa nú flutningum og leita að varanlegu húsnæði á Suðurnesjum. Fjölskyldan er nú að flytja í sjöunda sinn frá því að rýma þurfti Grindavík fyrst í nóvember í fyrra.
Eiginkona Róberts, Sigríður Helga Guðmundsdóttir, vakti athygli á erfiðri stöðu fjölskyldunnar í Facebook-færslu þar sem hún auglýsti eftir húsnæði fyrir sig og fjölskyldu sína. Í færslunni greindi Sigríður frá því að ekki sé von á því að komast að í íbúð hjá Bríet leigufélagi fyrr en í fyrsta lagi í mars. Í millitíðinni sé fjölskyldan húsnæðislaus og óviss með hvað framtíðin ber í skauti sér.
Fimm manna fjölskylda með hund og kött
Róbert og Sigríður búa saman ásamt þremur börnum sínum sem eru aldrinum 17 til 21 árs. Ungmennin stunda nám við Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Því þarf væntanlegt húsnæði að vera staðsett á Suðurnesjum til þess að þau geti haldið námi sínu áfram þar. Þá fylgja fjölskyldunni einnig hundur og köttur.
Þegar blaðamaður Heimildarinnar náði tali af Róberti voru hann og fjölskylda hans í óða önn að tæma Airbnb íbúð í Njarðvík sem fjölskyldan hefur búið í tæplega þrjár vikur.
En fjölskyldunni bauðst að flytja á Hótel Ásbrú, við Keflavíkurflugvöll, þar sem þau fá að vera í nokkra daga á meðan þau leita sér að varanlegu húsnæði. Ljóst er að fjölskyldan muni því brátt þurfa að flytja í áttunda sinn og jafnvel oftar áður en að þeim tekst að finna sér viðunandi húsakost.
Í samtali við Heimildina kvaðst Róbert ekki vita hvað taki við næst. Fjölskyldan hafi enn sem komið ekki fengið svör eða upplýsingar frá Bríeti leigufélagi og lítið heyrt frá öðrum leigusölum.
Hafa flutt sjö sinnum frá fyrstu rýmingu
Spurður hvar fjölskyldan hefur búið undanfarna mánuði sagði Róbert að fyrst hafi fjölskyldan skipt sér í tvö húsnæði á höfuðborgarsvæðinu þegar rýma þurfti bæinn í nóvember í fyrra.
Róbert og eldri sonur hans hafi búið hjá elsta syni Róberts í íbúð við Kirkjusand. Á meðan hafi eiginkona hans og yngri börnin tvö flakkað á milli íbúða í Kópavogi og Breiðholtinu áður en þau ákváðu að flytja aftur heim til Grindavíkur þegar það var leyft á sínum tíma.
Heimili fjölskyldunar er hverfinu Norðurhóp sem er skammt frá hrauninu sem fór yfir nokkur hús nyrst í hverfinu Efrahóp í Grindavík.
„svo vorum við búin að vera þar í sex daga þegar við þurftum að yfirgefa það aftur. Þá fluttum við upp á Ásbrú á hótel og vorum þar í fjóra daga og þaðan fluttum við hingað í Njarðvík í Airbnb og núna þurfum við að fara og við vitum ekki neitt,“ sagði Róbert.
Í samtalinu kom fram að félagsþjónusta Grindavíkurbæjar hafi útvegað fjölskyldunni Airbnb-íbúðina í Njarðvík. „Það er Grindavíkurbær sem er að grípa okkur en ekki ríkisstjórnin. Þeir eru að reyna passa upp á okkur, eins og þeir geta,“ sagði Róbert
Ósáttur við stjórnvöld
„Ég er bara orðinn uppgefinn. Maður er búinn að vinna sig upp eftir hrunið í þokkaleg mál og svo bara púff! Allt farið fyrir bí,“ sagði Róbert. Erfitt sé að finna húsnæði sem henti stórri fjölskyldu og leyfi gæludýrahald.
„Það er miklu erfiðara að finna eitthvað svoleiðis þegar maður er með þetta fullorðin börn, en maður bara hendir þeim ekkert út. Maður reynir að hjálpa þeim í gegnum skólann svo þau þurfi ekki að taka þessi námslán, sem eru bara kæfandi í framtíðinni,“ sagði Róbert.
Þá taldi Róbert viðbrögð ríkisstjórnarinnar við neyð Grindvíkinga vera í skötulíki. Í samtalinu velti Róbert fyrir sér seinagangi stjórnvalda sem hann taldi að hljóti að vera að ásettu ráði. „Ég held þau séu bara að þreyta Grindvíkinga út svo að allir selji bara á gjafaverð til ríkisins,“ sagði Róbert.
Í síðasta mánuði tilkynnti ríkisstjórnin aðgerðapakka til þess að bregðast við stöðu Grindvíkinga sem breyttist skyndilega í kjölfar eldgossins sem hófst 14. janúar. Á blaðamannafundi sem haldin var 22. janúar sögðust ráðherrar meðal annars ætla kaupa fleiri íbúðir í gegnum óhagnaðardrifnu leigufélögin Bríet og Bjarg.
Bæta átti við 50 íbúðum við þær rúmlega 70 sem ríkisstjórnin hafði nú þegar skipulagt að kaupa í gegnum leigufélögin. Yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar var meðal annars að eyða óvissunni sem Grindvíkingar höfðu hingað til einir setið uppi með.
Ekkert heyrst í stjórnarandstöðunni
Þessi fyrirheit hafa þó ekki skilað sér til Róberts og fjölskyldu hans og taldi Róbert ráðamenn skorta skilning á stöðu Grindvíkinga. Þá sagðist Róbert einnig vera ósáttur með þingmenn stjórnarandstöðunar sem honum þykir hafa lítið tjáð sig og haft sig frammi um málefni Grindavíkinga undanfarið.
„Manni finnst nú eins og stjórnarandstaðan mætti öskra og æpa og berja í borðið og svona af því það gengur ekki neitt. En það heyrist ekki neitt í þeim,“ sagði Róbert sem veltir fyrir sér hvort það þurfi ekki einfaldlega að stofna nýjan flokk sem veiti stjórnvöldum aðhald í þessum efnum.
Athugasemdir