„Nei, í sjálfu sér ekki,“ segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og andvarpar, aðspurð hvort eitthvað nýtt hafi komið fram á opnum fundi nefndarinnar í vikunni þar sem óskað var eftir nánari skýringum frá fyrrverandi fjármálaráðherra á ráðgjöf sem hann fékk við sölu á Íslandsbanka.
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sagði á fundinum að hann hafi gert ráð fyrir blessun þingsins á að ekki þyrfti að gæta að hæfi hans gagnvart hverjum og einum kaupanda á Íslandsbanka í mars 2022. Þinginu hefði átt að vera augljóst að ekki væri hægt að fylgja hæfisreglum í sölumeðferðinni sem valin var. Þetta hafi verið vegna þess að sölumeðferðin byði ekki upp á það sökum þess hraða sem þurfti að vera á henni. Bankasýsla ríkisins hafi enn fremur verið sú sem lagði til þessa sölumeðferð, ekki Bjarni, þótt hann hafi samþykkt hana.
Ákvörðun um sölu og fyrirkomulag á ábyrgð ráðherra
Þórunn segir að nefndarmenn hafi reynt að fá frekari skýringar frá Bjarna um hvernig hann geti varpað ábyrgðinni um að gæta hæfis á Alþingi. „En það liggur svo sem fyrir hvað hann sagði á fundinum. Mín upplifun var sú að ráðherra var enn og aftur að beina fingrinum frá sjálfum sér og á þingið á meðan það er alveg ljóst að ákvörðunin um söluna og fyrirkomulag hennar var og er á ábyrgð ráðherrans,“ segir Þórunn. Óskað var eftir að Bjarni kæmi fyrir nefndina eftir að hann sagði af sér ráðherraembætti í október í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis sem komst að þeirri niðurstöðu að Bjarni hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um sölu á ríkisbanka til félags í eigu föður síns.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, átti frumkvæði að fundinum og sakaði hún Bjarna um útúrsnúninga og stæla á fundinum. „Mér heyrist að hér sé í uppsiglingu eins konar pólitískur fundur sem á að nýtast til þess að velta sér upp úr löngu liðnum hlutum sem ég hef nú þegar axlað ábyrgð á,“ sagði Bjarni. Þórhildur Sunna benti honum þá á að þetta væri pólitískur fundur í pólitískri nefnd. „Er þetta pólitísk nefnd?“ spurði Bjarni. „Já, þetta er þingnefnd,“ svaraði hún.
„Hann situr í ríkisstjórn Íslands“
Bjarni sagðist einnig hafa það sterklega á tilfinningunni að fundarmenn hafi ekki kynnt sér gögnin. „Það er ekki svaravert,“ segir Þórunn þegar blaðamaður leitar viðbragða við ummælum fyrrverandi fjármálaráðherra. Hún segir að það hafi ekki verið að heyra á framkomu hans á því sem sagt var á fundi nefndarinnar að Bjarni hafi axlað ábyrgð á sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka.
Uppgjöri á sölu Íslandsbanka er ekki lokið að mati Þórunnar. Ráðherrastólaskipti Bjarna hafi ekki dugað. „Hann situr í ríkisstjórn Íslands.“ Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um næstu skref af hálfu nefndarinnar. „En það er að sjálfsögðu í höndum þingmanna hvað gerist næst,“ segir Þórunn.
Athugasemdir