Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra segir að aðgerðirnar sem ráða þarf í í Grindavík eftir nýjustu atburði muni vera högg – fyrir ríkisfjármálin, hagkerfið en fyrst og síðast fólkið sem þar býr. „Vonandi verður þetta ekki svo mikið högg á hagkerfið, en þetta mun kosta.“
Heimildin náði tali af fjármálaráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Þórdís Kolbrún segir að það þurfi að skoða hvaða áhrif aðgerðir muni hafa á ríkisfjármálin. „Og hvort það kallar á einhverja breytta forgangsröðun eða hliðrun í öðrum fjárfestingum, aðgerðum og öðru slíku. Við gerum þetta með sem ábyrgustum hætti. Það er það sem verður að gera.“
Þórdís Kolbrún vildi ekki tjá sig um hvort að til stæði að kaupa upp allt húsnæði í Grindavík. Næstu aðgerðir væru enn í vinnslu. Hún gerði þó ráð fyrir því að geta tekið einhver skref fljótlega.
Í ljósi aðgerða eru ríkari kröfur um að taka ákvarðanir til lengri tíma. „Núna þarf fólk svör til að minnsta kosti allmargra mánaða,“ segir Þórdís Kolbrún.
Hún segir ekki hægt að áætla hver mögulegur kostnaður aðgerða gæti orðið. „Það er hægt að segja að það séu mismunandi sviðsmyndir en það fer bara algjörlega eftir því hvaða ákvarðanir eru teknar.“
Er búið að skoða það hvaðan fjármagn verður sótt til að milda höggið á ríkissjóð?
„Þetta er allt bara í skoðun og vinnslu og það eru mismunandi ákvarðanir sem hægt er að taka í því. Ríkissjóður er rekinn af fjármagni skattgreiðenda og svo höfum við svigrúm til þess að taka lán og slíkt. En við þurfum auðvitað þar að huga að svona heildar markmiðum og gera það með ábyrgum hætti. En við gerum það sem gera þarf.“
Með því móti verður hægt að bregðast hratt og örugglega við vanda Grindvíkinga, auk margvíslegra annarra mála tengdum sameiginlegum innviðum og stjórnvöld landsins hafa látið drabbast.
Landslagið er að breytast - bókstaflega. Kannski er þetta rétt að byrja. Jarðvísindafólk býst við því að nýtt skeið eldsumbrota sé hafið í sögu lands og þjóðar sem getur varað í áratugi, jafnvel aldir og það krefst nýrra og djarfri lausnarmiðaðra hugmynda við öflunar fjármuna í aðsteðjandi vanda.
Það gengur ekki lengur að koma upp með þá andlausu og ónægu lausn að skatta sífellt tekjur venjulegs launafólks og lífeyrisþega til að leysa vandann. Nú verða idol fjármálaráðherra - efstu 10% - að leggjast á árar og sýna fram að það sé ekki hrært úr græðginni einni saman.
Það ætti að vera hæg heimatökin hjá ráðherranum að sansa þá kjósendur sína sem kunna bregðast illa við aukinni greiðslubyrði sinni, Grindvíkingum og samfélagi þeirra til hagsbóta. Áfram Grindavík!