Nýtt gosop opnaðist rétt í þessu örstutt frá byggðinni í Grindavík. Áætluð fjarlægð er um 50 metrar. Hraun hefur nú runnið inn í byggðina í götuna Efrahóp, nyrst í bænum.
„Þetta hraun mun renna í átt að Grindavík. Þetta er bara smáspotti að nyrstu byggð,“ segir Kristín Jónsdóttir, hjá Veðurstofu Íslands, í viðtali við RÚV.

Í beinni útsendingu í hádegisfréttum RÚV heyrðist að fréttafólk var beðið að yfirgefa svæðið. „Þetta er mjög ógnvænlegt eins og þetta lítur út núna,“ segir Fannar Jónsson, bæjarstjóri í Grindavík, í samtali við RÚV.
Vonast hafði verið til þess að hraun myndi ekki renna inn í Grindavík, en nýja gosopið er langt innan varnargarðs. Þótt krafturinn sé lítill í því hraunrennsli, er orðið líklegt að hraun renni í byggð.
Nú þegar hefur hraun runnið yfir Grindavíkurveginn sem liggur til norðurs í átt að Reykjanesbraut. Næst í farvegi hraunsins er heitavatnslögnin sem liggur meðfram veginum.
Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur segir í samtali við RÚV að kvikan færist suðurmeð. „Hún er að þræða þessa sprungu sem hreyfði sig 10. til 11. nóvember og það er jaðarinn á sigalnum. Sprunga sem er með nóg pláss fyrir kvikuna til að renna eftir. Það tognaði mjög á henni. Hún er að lengjast til norðurs, sem er gott. Það er ekki hægt að útiloka að hún haldi áfram suður úr.“
Ármann segir mögulegt að sprungan lengist, þótt hún hafi virst lengjast í norður frekar en suður. Hún hafi ferðast „eftir sprungunni. Kvikan getur núna farið eftir þeirri sprungu og niður í bæ,“ segir hann.
Til stóð að rýma Grindavík á mánudag vegna áhyggja af sprungum í bænum. Íbúar vöknuðu við sírenur í nótt. Til viðbótar við eldgosið hefur orðið gríðarleg tilfærsla á jarðskorpunni. Jörð hefur tognað um einn metra í Grindavík í dag og nótt.




Athugasemdir