Ísland framleiðir nú reglulega meira magn af alífuglakjöti, aðallega kjúklingum, en lambakjöti. Framleiðsla alifuglakjöts fór í fyrsta sinn fram úr framleiðslu á lambakjöti á árinu 2022. Í fyrra hélt þessi þróun áfram.
Samkvæmt gögnum á vef Hagstofunnar var samanlögð framleiðsla á alifuglakjöti 9.501 tonn árið 2022 og var það um 842 tonnum meira en ársframleiðsla á kindakjöti. Framleitt magn af kindakjöti var 8.659 tonn á sama ári.
Mælingar Hagstofunnar á kjötframleiðslu síðasta árs ná út nóvembermánuð. Frá janúar til nóvember 2023 var samanlögð framleiðsla á alifuglakjöti rúmlega 8.955 tonn, á meðan magn af kjöti af slátruðu sauðfé var 8.402 tonn.
Í tilkynningu frá Hagstofunni segir að kjötframleiðsla í nóvember 2023 hafi verið tíu prósent minni en í nóvember 2022. Framleiðsla á kjöti af nautgripum, alifuglum og svínum dróst saman um nokkur prósent milli mælinga. Mesti samdrátturinn er þó í sauðfjárslátrun. Í nóvember í fyrra var aðeins slátrað 135 gripum samanborið við 6.281 í nóvember 2022.
Framleiðsla á kindakjöti hefur dregist mikið saman frá 2017 en þá stóð framleiðslan í 10.619 tonnum. Þrátt fyrir samdrátt í framleiðslu hafa tekjur af sauðfjárrækt aukist milli ára. Samkvæmt skýrslu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, sem birt var í nóvember í fyrra, voru tekjur af sauðfjárrækt árið 2023 alls um 18,5 milljarðar króna. Árið 2018 voru tekjur greinarinnar um 12,2 milljarðar króna.
Kjúklingur er vinsælasta kjötið meðal íslenskra neytenda í fyrra, en lambakjöt situr í öðru sæti. Þá hefur sala á svínakjöti aukist mikið undanfarin ár. Árið 2021 var sala á svínakjöti í fyrsta meiri en sala á kindakjöti.
Milljarðar í styrki til sauðfjárræktar
Þá voru opinberar greiðslur til sauðfjárbænda rúmlega 30 prósent af tekjum búgreinarinnar. Hins vegar ef frá eru talinn liður sem nefndur er aðrar tekjur, sem reiknaðar eru inn í heildartekjur sauðfjárbænda, eru opinberar greiðslur yfir helmingur tekna sauðfjárbænda. Á síðastliðnum fimm árum hefur 31 milljarður króna verið greiddur til sauðfjárbænda.
Í frétt Heimildarinnar sem birt var skömmu fyrir áramót er fjallað um sérstaka ríkisstyrki til sauðfjárbænda, sem eiga að stuðla að auknum gæðum og sjálfbærni í sauðfjárframleiðslu. Til þess að fá slíkan stuðning þurfa sauðfjárbændur að uppfylla ákveðinn skilyrði sem lúta að aðbúnaði sauðfjár, fóðrun, heilsu skepnanna, sjálfbærni í landnýtingu og fleira þvíumlíkt.
Árið 2022 voru þessar svokölluðu gæðastýringargreiðslur rúmlega þriðjungur af heildarupphæð ríkisstuðnings til sauðfjárbænda. Á síðastliðnum þrem árum námu greiðslur af þessu tagi um 5,5 milljörðum króna. Hins vegar var engu eftirliti sinnt með sauðfjárbændum sem þáðu gæðastýringargreiðslur árið 2022.
Þá hafa þingmenn, fræðimenn, starfsmenn opinbera stofnanna eins og Landgræðslan gagnrýnt gæðastýringarkerfið. Þá sérstaklega þann þátt sem snýr að landnýtingunni. Til mynda sagði Landgræðslan í umsögn til Alþingis að tækifæri til þess að draga úr nýtingu á illa förnu landi hafi ekki verið nýtt af mörgum sem tekið hafa við gæðastýringargreiðslunum undanfarin ár.
Viðbótarstuðningsgreiðslur samþykktar í lok síðasta árs
Fyrir árslok 2023 voru tillögur um viðbótargreiðslur til bænda samþykktar í ríkisstjórn og á þingi í fjáraukalögum 2023. Samanlagt hljóðar viðbættur stuðningur upp á 2,1 milljarð króna.
Þar af renna 600 milljón krónur í svokallaðan ungbændastuðning, sem skipt er á milli 181 bænda sem sóttu um nýliðunarstuðning á árunum 2017 til 2023. Þá fara 450 milljónir í viðbótafjárfestingarstuðning til bænda í sauðfjárrækt og nautgriparækt. Meirihlutinn af þessum stuðning rennur renna þó til 239 bænda sem stunda nautgriparækt, samtals 386 milljónir.
Þá fá sauðfjárbændur sem eiga 300 eða fleiri veturfóðraðar kindur greitt sérstakt framlag sem samtals nemur 450 milljónum króna. Snemma á þessu ári fá kúabændur sem stunda mjólkurframleiðslu um 500 milljón krónur í viðbótargreiðslur og kúabændur með holdakýr fá 100 milljón krónur.
Four eggs in Denmark cost the same as one in Iceland.
BTW Egg ma fa i Danmörku 4 stikki , en 1 Stikki A Islandi fyrir sama verð.