Vafalaust mun Katrín Jakobsdóttir reyna að bera sig vel í áramótaávarpinu á eftir. Hún mun jafnvel brosa, ef ég þekki hana rétt.
Sannleikurinn er þó sá að það er fátt broslegt við þessa ríkisstjórn núorðið, ekki einu sinni í merkingu áramótaskaupsins.
Ríkisstjórnin höktir áfram og mun eflaust reyna að lifa fram á árið 2025 svo sem minnstar truflanir verði á launagreiðslum til ráðherranna og trúnaðarfólks þeirra, en sannleikurinn er sá að það er núorðið eini tilgangurinn með þessu ríkisstjórnarsamstarfi.
Ríkisstjórnin skilar auðu í efnahagsmálum. Frammistaða hennar gagnvart verðbólgunni er upp á mínus 23, eins og það var orðað í Lærða skólanum í eldgamla daga.
Hún er einskis virði í húsnæðismálum, vaxtamálum, málum leigjenda, málum öryrkja, gamla fólksins, hún gerir venjulegu fólki á Íslandi ekkert gagn, aldrei og hvergi.
En ríkasta prósentið í landinu gengur til hvílu á hverju kvöldi með þakklætisbæn við Vinstri grænna á vörunum.
Það fólk hefur aldrei haft það betra.
Ríkisstjórnin skilar auðu á svo ótal mörgum sviðum.
Nefnum fjölmiðla til dæmis. Nefnum menntamál. Stjórnmálamenn hafa komið því inn hjá okkur að það sé hámark dónaskapar að kenna þeim um hörmulega frammistöðu Íslendinga í menntamálum barna, en sannleikurinn er þó sá að ábyrgin er auðvitað á endanum þeirra og frammistaða barnanna okkar hefur hrunið alveg sérstaklega í tíð ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur.
Í málefnum útlendinga gerir ríkisstjórnin ekkert nema leyfa mannfjandsamlegustu öflunum að ráða ferðinni. Fyrir löngu ætti að vera búið að marka þá stefnu að mannúðarsjónarmið eigi að ráða ferðinni í einstökum málum, en það hefur ríkisstjórnin kosið að gera ekki.
Í málefnum Gasa skilaði ríkisstjórnin auðu, eins og frægt var. Ekkert káf eftir á breytir því.
Í málefnum er snerta spillingu skilar ríkisstjórnin raunar ekki auðu heldur leyfir henni að blómstra sem aldrei fyrr.
Nefnum Íslandsbankasöluna. Nefnum skipan utanríkisráðherra á vinkonu sinni í embætti sendiherra í Washington.
Og nefnum líka að þótt tugir manna hafi farið héðan á loftslagsráðstefnu í Dubai, þá sá ríkisstjórnin ekki ástæðu til að senda einn einasta mann á alþjóðlega ráðstefnu um spillingu.
Svona mætti lengi telja.
Ríkisstjórnin gerir ekkert gott en margt slæmt og leyfir öðru verra að viðgangast.
Á meðan föndrar Katrín í Stjórnarráðinu og undirbýr vel launaðar stöður fyrir sig og viðhlæjendur sína og aðstoðarfólk.
Það er hennar eini tilgangur núorðið.
Ríkisstjórnin er lifandi lík.
Auðvitað ætti hún að sjá sóma sinn í að fara frá og leyfa þjóðinni að ákveða hvaða fólk hún vill fá til að hreinsa upp eftir dugleysi hennar.
En það segja mér sérfræðingar mínir í lifandi líkum að einkenni þeirra sé að þau átti sig ekki sjálf á að þau séu liðin. Þau haldi sjálf að þau séu hin hressustu.
Við verðum líklega að taka til okkar ráða og kalla þetta svo hátt að stjórn Katrínar heyri það að lokum: „Farið, við treystum ykkur ekki lengur.“
Athugasemdir (4)