Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, sendi landsmönnum kveðju rétt í þessu vegna eldgoss á Suðurnesjum sem hófst fyrr í kvöld. Grindvíkingar fengu sérstaklega hlýja kveðju frá forsetanum.
„Góðir landsmenn. Eldgos er hafið í grennd við Grindavík. Ekki er ljóst hvaða usla það getur valdið en nú reiðum við okkur á vísindafólk okkar auk allra þeirra sem þurfa að sinna eftirliti og öðrum aðgerðum. Framar öllu verndum við mannslíf en sinnum öllum vörnum mannvirkja eftir bestu getu. Ég sendi sem fyrr hlýjar kveðjur til Grindvíkinga og þeirra sem nú sinna störfum á vettvangi. Og að sjálfsögðu ber fólki að fylgja öllum tilmælum Almannavarna á þessari hættustundu.“


Fyriri klukkutíma sagði forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, að ljóst væri að um væri að ræða töluvert gos. Í færslu hennar sagði að eldgos væri hafið á Reykjanesskaga milli Sýlingarfells og Hagafells en rýming hefur staðið yfir í Grindavík frá 10. nóvember. „Nú sjáum við jörðina opnast og getum þakkað fyrir alla okkar góðu viðbragðsaðila og vísindamenn sem hafa vaktað þetta svæði undanfarnar vikur og mánuði. Varnargarðar eru langt komnir sem mun geta skipt verulegu máli en ég mælti fyrir frumvarpi um heimild til að reisa slíka garða strax í kjölfar rýmingar. Hugur okkar er hjá heimafólki nú sem fyrr, við vonum það besta en ljóst má vera að þetta er töluvert gos. Mikilvægt er að veita viðbragðsaðilum rými til að vinna sína vinnu og fylgja leiðbeiningum um umferð.“

Athugasemdir