Bæjaryfirvöld á Akranesi íhuga nú að fjarlægja séra Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM og KFUK, af lista yfir heiðursborgara í bænum. Þetta segja þeir Haraldur Benediktsson bæjarstjóri og Valgarður Jónsson, forseti bæjarstjórnar, í samtölum við Heimildina.
Séra Friðrik var gerður að heiðursborgara árið 1947. Átta einstaklingar hafa verið gerðir að heiðursborgurum á Akranesi.
Ástæðan eru fréttir um að séra Friðrik hafi verið haldinn barnagirnd og áreitt drengi. Rót þeirrar umfjöllunar er bók um ævi séra Friðriks eftir Guðmund Magnússon sagnfræðing. Stóra afhjúpunin í þeirri bók er þessi háttsemi séra Friðriks gagnvart drengjum. Eftir útkomu bókarinnar hafa tvö dæmi um áreitni séra Friðriks gagnvart drengjum á Akranesi komið fram.
Borgaryfirvöld í Reykjavík greindu frá því í gær að stytta af séra Friðriki og dreng í miðbænum yrði fjarlægð í ljós þeirrar umræðu sem bókin hefur leitt af sér.
„Ég býst við að það verði tekin ákvörðun um þetta á næsta bæjarstjórnarfundi, sem verður á þriðjudaginn.“
Ákvörðun tekin á næsta bæjarstjórnarfundi
Haraldur Benediktsson segir: „Við fengum ábendingu um þetta, að hann væri heiðursborgari, og ég veit að pólitíkin er í debatt um þetta.“ Haraldur, sem áður var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er nú bæjarstjóri á Akranesi eftir að hafa verið ráðinn í starfið og er því ekki kjörinn fulltrúi og þar með stjórnmálamaður lengur.
Valgarður Jónsson úr Samfylkingunni segir um málið: „Við erum ekki búin að klára samtalið á meðal kjörinna fulltrúa. En þeirri spurningu hefur verið varpað upp hvort það sé ekki rétt að fjarlægja þetta nafn af listanum yfir heiðursborgara Akraness vegna þeirra upplýsinga sem hafa komið fram.“
Hann segir að ástæðan fyrir umræðunni sé að þolendur séra Friðriks eigi að njóta vafans í málinu. „Ég býst við að það verði tekin ákvörðun um þetta á næsta bæjarstjórnarfundi, sem verður á þriðjudaginn.“
Athugasemdir (2)