Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn hafa, í samvinnu við Samtök fjármálafyrirtækja (SFF), gert samkomulag um að fella niður vexti og verðbætur af íbúðalánum Grindvíkinga í þrjá mánuði. Samkomulag þessa efnis var undirritað í dag, 22. nóvember. Þetta er gert vegna yfirstandandi náttúruhamfara og óvissuástands í Grindavík. Áður höfðu bankarnir ætlað að mæta stöðu Grindvíkinga, sem var gert að rýma bæinn í síðustu viku og eru nú í tímabundnu húsnæði oft með tilheyrandi viðbótarkostnaði, með því að frysta afborgarnir af íbúðalánum þeirra en leggja vexti og verðbætur við höfuðstól lánanna. Það hafði verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af ráðherrum í ríkisstjórn og öðrum stjórnmálamönnum.
Í tilkynningu frá SFF sem send var út á ellefta tímanum í kvöld segir að með þessu vilji bankarnir koma til móts við viðskiptavini sína í Grindavík sem standa frammi fyrir mikilli óvissu varðandi tekjur, útgjöld, húsnæði og afdrif eigna sinna. Með því að bankarnir þrír hafi komist að samkomulagi er stuðlað að jafnræði sé á milli lántaka bankanna í Grindavík.
Þar segir að þessi aðgerð bankanna og SFF sé liður í heildstæðari úrlausn fyrir Grindvíkinga, með aðkomu stjórnvalda og fleiri aðila, sem gert er ráð fyrir að verði kynnt á næstu dögum. „Niðurfellingin verður á vöxtum og verðbótum fyrir nóvember og desember 2023 og janúar 2024 og mun hún takmarkast við vexti og verðbætur af láni að hámarki 50 milljónir króna. Ef lántaki er með hærra lán miðast niðurfelling við að fjárhæð lánsins sé 50 milljónir króna. Nánari útfærsla á niðurfellingunni er í höndum hvers banka fyrir sig. Samkomulagið tekur til ákveðinna lágmarksviðmiða en felur ekki í sér nein höft á því að einstakir bankar geti veitt viðskiptavinum sínum frekari fyrirgreiðslu eða keppa að öðru leyti á grundvelli viðskiptaskilmála.“
Í niðurlagi tilkynningarinnar segir að það sé fullur vilji allra bankanna að vera hluti af heildarlausn og koma með sanngjörnum hætti til móts við Grindvíkinga. „Ljóst er að enn ríkir mikil óvissa um framhaldið og munu bankarnir fylgjast vel með stöðu mála sinna viðskiptavina.“
Útilokaði ekki „hressilegar“ aðgerðir
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður stéttarfélagsins VR, og Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur tilkynntu fyrr í vikunni að þeir ætluðu að mótmæla daglega við eða í höfuðstöðvar Landsbankans á Hafnartorgi frá og með morgundeginum, fimmtudeginum 23. nóvember. Með þessu vildu þeir þrýsta á að bankarnir kæmu betur til móts við Grindvíkinga sem þurftu að yfirgefa heimili sín fyrr í þessum mánuði.
„Það er lágmarks krafa okkar að vextir og verðbætur verði felldar niður tímabundið eða á meðan mesta óvissan ríkir,“ skrifaði Ragnar á Facebook-síðu sína. Nú er ljóst að þeirri lágmarkskröfu hefur verið mætt. VR hýsir Verkalýðsfélag Grindavíkur sem stendur en 400 félagsmenn VR eru, eða voru eftir því hvernig á það er litið, sömuleiðis búsettir í Grindavík.
Skortur á aðgerðum banka vegna stöðu Grindvíkinga voru líka til umræðu á Alþingi á mánudag. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, og Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, beindu þar fyrirspurnum sínum til Lilju D. Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra, og kröfðu hana um aðgerðir ríkisstjórnarinnar vegna þess skorts.
Hún svaraði því til að stjórnvöld væru í samtali við fjármálastofnanir og að hún gerði fastlega ráð fyrir því að aðgerðir yrðu kynntar í þessari viku sem myndu benda til þess og vera þess háttar að bankar myndy sýna fulla samfélagslega ábyrgð. „Nú er það svo að fjármála- og efnahagsráðherra fer með þessi mál í ríkisstjórninni. Hins vegar fer ég með neytendamálin og sjáum við ekki frekari aðgerðir núna á allra næstu dögum verðum við auðvitað að grípa til þeirra ráða sem við höfum hér. Ég útiloka ekki að það verði bara býsna hressilegt.“
Athugasemdir