Ef Útlendingastofnun telur að þetta fólk verði ekki merkt og því mismunað í framtíðinni þá er sú frásögn með algjörum ólíkindablæ,“ segir Helgi Þorsteinsson Silva lögmaður um hóp 180 Venesúelabúa sem sendir voru frá Íslandi til Venesúela í lögreglufylgd í gær.
Lögreglumenn tóku á móti hópnum á venesúelska vellinum, tóku af þeim vegabréfin og létu fólkið skrifa undir skjöl án lögfræðiaðstoðar. Þá eru sömuleiðis óstaðfestar heimildir um að ferðastyrkur sem hælisleitendurnir fengu frá íslenskum stjórnvöldum hafi verið tekinn af þeim við komuna til Venesúela. Talsmenn fólksins hér á Íslandi hafa jafnframt heyrt af því að einhverjum hafi verið gert að játa á sig landráð, segir Jón Sigurðsson – formaður stjórnar félags talsmanna umsækjenda um alþjóðlega vernd (FTA).
„Þetta er einn af mörgum slæmum hlutum sem maður hefur heyrt að hafi átt sér stað þarna við komuna,“ segir Jón. „Það er ekki staðfest nákvæmlega hvað hefur gerst, við höfum þetta eftir fólkinu sjálfu og skjólstæðingum okkar sem eru hér á landi og eru í beinu sambandi við þau. Ég hef að minnsta kosti séð myndband af því þegar er verið að láta þau skrifa undir eitthvað svona plagg á vellinum með fulltrúum yfirvalda. En ég hef enga sérstaka ástæðu til þess að draga [frásagnir fólksins] í efa.“
„Ef þetta snýst um að það vanti einhver gögn um að þau myndu verða fyrir einhverjum pólitískum ofsóknum þá þurftum við ekki að bíða lengi eftir því“
Fellur ekki í fjöldann
Svo stór endursending til Venesúela hefur ekki verið framkvæmd áður.
„Það var lítið vitað um það hvernig er að vera endursendur til Venesúela í einni flugvél sem kemur sérstaklega í þeim tilgangi,“ segir Helgi. „Það er ekki eins og þú fallir í fjöldann. Yfirvöld vita að þessi vél kemur frá Íslandi með fólk sem er búið að flýja. Það er ekkert eins og að vera eitt af hundrað sætum.“
Fyrirsjáanlegt að þetta yrði niðurstaðan
Jón telur rannsóknarskyldu nú hvíla á íslenskum stjórnvöldum um að taka atburðina til skoðunar.
„Ég tel að það liggi í augum uppi að íslensk yfirvöld þurfa að taka þessar upplýsingar til greina og þetta hlýtur að koma til álita í tengslum við allar þær umsóknir sem eru til meðferðar og allar þær kærur sem eru til meðferðar,“ segir Jón. „Okkur sem störfum á þessum vettvangi fannst þetta mjög fyrirsjáanlegt. Íslensk stjórnvöld töldu öruggt að senda þetta fólk til baka og svo það sem mætir þeim er augljóst brot á réttindum þeirra.“
Styrkja þessir atburðir málstað þeirra venesúelsku ríkisborgara sem eru að sækja um vernd á Íslandi?
„Mér finnst það augljóst. Ef þetta snýst um að það vanti einhver gögn um að þau myndu verða fyrir einhverjum pólitískum ofsóknum þá þurftum við ekki að bíða lengi eftir því,“ segir Jón.
Og hvað með fólkið sem hefur mögulega játað á sig landráð? Hvað er gert við mann ef maður er landráðamaður í Venesúela?
„Það er refsivert brot að vera landráðamaður, það er það líka á Íslandi. Venesúela er alræðisríki og það er alveg viðurkennt að pólitískar ofsóknir tíðkast í Venesúela. Þeir sem gerast sekir um landráð – án þess að vera sérfróður um venesúelsk lög þá er augljóst að það mun koma sér mjög illa fyrir fólk,“ segir Jón.
„Hagsmunir stjórnvalda af því að bíða í einhverja daga eru svo litlir miðað við þá hagsmuni sem verða fyrir borð bornir ef þetta fer á versta veg“
Ættu að bíða með frekari endursendingar
Helgi telur að eftir atburðina í Venesúela ættu stjórnvöld að bíða með að senda fleiri þangað.
„Hagsmunir stjórnvalda af því að bíða í einhverja daga eru svo litlir miðað við þá hagsmuni sem verða fyrir borð bornir ef þetta fer á versta veg,“ segir Helgi.
Í nokkur ár veittu íslensk stjórnvöld nánast öllum þeim Venesúelabúum sem sóttu hér um hæli viðbótarvernd vegna slæmra aðstæðna í Venesúela. Fyrr á þessu ári staðfesti kærunefnd útlendingamála nokkra neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar í málum Venesúelabúa þar sem aðstæður í heimalandinu hefðu batnað.
Þessu hafa Venesúelabúar mótmælt harðlega enda eru aðstæðurnar í Venesúela enn mjög slæmar, glæpatíðnin þar er ein sú hæsta í heimi, fáir hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu og flestir almennir borgarar eiga erfitt með að mæta grunnþörfum sínum.
„Ég vil ítreka það sem ég hef áður sagt: Að í þessari stöðu þar sem eru vísbendingar um hugsanlega ögn betra ástand þá hefði verið í betra samræmi við mannúð og meðalhóf að bíða aðeins og fá reynslu mögulega frá öðrum löndum um það hvernig er að endursenda til Venesúela,“ segir Helgi.
Fjöldi hælisumsókna venesúelskra ríkisborgara hér á landi hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum – þær fóru úr 14 árið 2018 í 1.209 í fyrra en frá janúar til september á þessu ári voru þær enn fleiri: 1.318. Eftir að kærunefnd útlendingamála staðfesti neikvæða úrskurði Útlendingastofnunar fór umsóknunum að fækka.
Enn efast ég um gjörning minns forföður!!!!