Þriðja bókablað Heimildarinnar í ár er tileinkað skáldsögunni en allir og amma þeirra eru að gefa út skáldsögu fyrir þessi jól, þar á meðal Bergþóra Snæbjörnsdóttir og Ófeigur Sigurðsson sem prýða forsíðu blaðsins.
Ófeigur líkir jólabókaflóðinu við „kjötkveðjuhátíð“ og að hann hafi áhyggjur hvort flóðið komi niður á gæðum bóka, hvort bókaútgáfa sé orðin að afþreyingariðnaði og hvort það sé pláss fyrir listaverk í flóðinu eða bara fyrir markaðsvörurnar. Listaverkin séu auðvitað hluti af flóðinu en „hlunkast bara með“. Bergþóra segist ástfangin af skáldsagnarforminu og að hún hafi upplifað við lestur bóka að þær breyti lífi hennar.
En hvaða erindi á skáldsagan í dag? Í heimi þar sem fólk á sífellt erfiðara með að þekkja í sundur skáldskap og sannleika, í heimi þar sem fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, var rekinn af The Times fréttamiðlinum fyrir að skálda kvót en náði samt að verða forsætisráðherra. Í heimi þar sem hinir valdamiklu geta skilgreint hvað sé stríð og hvað sé friður, hverjir séu fórnarlömb og hverjir séu gerendur.
Ásgeir H. Ingólfsson leitar svara við þessari spurningu um erindi skáldsögunnar í nútímanum í greininni Stjörnukíkir inn á við, sem finna má í þessu tölublaði. Í þeirri leit tók hann viðtöl við þýðendur og höfunda, kennara og hljóðbókaframleiðanda. Það var Oddný Eir rithöfundur sem líkti skáldsögunni við sjónauka eða stjörnukíki í samtali við Ásgeir.
Hún benti á að sjónaukanum eða kíkinum, og þar með skáldsögunni, væri ekki beint út í loftið og út í geim heldur inn á við. Inn í samfélagið, inn í manneskjurnar og tengsl hennar við alheiminn. Skáldsagan væri líka sjónauki á ný sjónarhorn en á sama tíma þurfi að víkka sjónarhorn út þangað til lesandann verkjar í sjóntaugarnar. „Annars er hún bara tímaeyðsla og rusl.“
Haukur Már Helgason rithöfundur segir að skáldsagan sé leikur og sama eigi við um lestur og skrif. Það góða við leik sé að hægt sé að gleyma sér í honum. Það sé því aðgerð gagnvart heiminum að skrifa, yfirlýsing við hann og átök á sama tíma.
„Að segja: nei, ekki núna, við heiminn. Bíddu aðeins. Að taka sér hlé frá heiminum er að takast á við heiminn.“
Kona með pung
Í nýrri skáldsögu sinni, Einlífi ástarrannsókn, tekst Hlín Agnarsdóttir á við minningar sínar og reynslu af ástinni í samhengi við heiminn. Til þess notar hún blöndu af skáldskap og reynslu. Í viðtali við Höllu Harðardóttur í Víðsjá kallar hún verknaðinn bræðing eða blending þar sem uppskáldaða sögupersónan og mannfræðingurinn Saga Líf stundar eigindlegar rannsóknir á ástinni og tekur viðtal við Eyju Björk, sem er útgáfa af Hlín, eins og hún orðar það.
Í þættinum fara þær Halla og Hlín yfir að ástarrannsóknir séu ekki nýjar af nálinni, að Anna Guðrún Jónasdóttir, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi prófessor við Örebro-háskóla, hafi sett fram kenningar í ástarrannsóknum og verið sú fyrsta til þess. Þær tala um að Anna Guðrún hafi skoðað falin valdatengsl í samböndum. „Það er alltaf spurning hver hefur valdið hverju sinni,“ segir Hlín við Höllu.
Í bókinni fjallar Hlín meðal annars um drusluskömm, en orðið drusla er vopn sem karlar og feðraveldið hafa notað yfir konur sem hafa sofið of mikið hjá, eins og þeir sjá það. Hlín notar Medúsu úr grískri goðafræði sem dæmi um konu sem var kölluð drusla. Karlar gerðu úr henni skrímsli eftir að henni var nauðgað.
Hlín segir það gamla sögu og nýja og að hún undrist sömuleiðis hvernig sumar sögur lifi lengi.
„Sagan af Medúsu er búin til af karlmönnum sem vildu réttlæta nauðgun Póseidons en notuðu Aþenu til að fría sig allri ábyrgð á glæpnum,“ segir í bókinni. Karlmenn höfðu orðið og karlmenn höfðu söguna og skáldskapinn í gíslingu og hafa að einhverju leyti enn.
Í færslu á Facebook-síðu sinni hrósar rithöfundurinn Hallgrímur Helgason Hlín fyrir verkið og segist hugsi eftir lesturinn, að líklega hefði karl aldrei skrifað svona bók, að líklega hefðu konur bara stærra erindi í dag. „Hér skrifar kona með pung sína ástarsögu,“ skrifar Hallgrímur, sem er með miklu stærra svið en Hlín og hljóðstyrkurinn í hans míkrafón er mun hærri en hennar.
Það skiptir máli þegar orð eru skrifuð eða sögð, sögur eru búnar til, skáldaðar eða sannar, hver hefur orðið og hversu margir heyra. Undir færsluna skrifar Harpa Rún Kristjánsdóttir, höfundur og útgáfustjóri Hlínar hjá Króniku. „Þið getið líka alveg farið að tala um að vera með leg. Það þarf helvítis pung til að vera með leg stundum.“
Heilar manneskjur
Hlín fjallar um það í bók sinni að konur sem lifa einlífi séu heilar manneskjur, séu ekki að bíða hins helmingsins, þær skorti ekkert. Hún segir í Víðsjá að sífellt sé verið að spyrja hana hvar hinn helmingurinn sé. Spurning sem karlar eru sjaldan spurðir að, hvorki í Krónunni né viðtölum.
Í afþreyingarefni hafa konur lengi vel og eru enn skilgreindar út frá aðalsöguhetjunni sem iðulega er karlmaður. Þær eru aukahlutverk á sporbaugi við karlana sem sitja í miðju heimsins.
Í leikritinu Lér konungur, eftir Shakespeare, eru aðalsögupersónurnar einn maður og þrjár dætur hans. Lér konungur situr í hásæti sínu í miðju heimsins og dætur hans snúast í kringum hann. Í byrjun sögunnar vill hann skipta konungsríki sínu á milli þeirra þriggja en hlutdeild þeirra myndi ráðast af opinberri ástarjátningu þeirra, hvort þær væru honum að skapi. Kordelía sagðist engin orð eiga til að lýsa ást sinni á föður sínum. Lér sturlast, skipar henni í útlegð og gerir hana arflausa. Kordelía á að vera táknmynd hinnar góðu konu sem þegir mest allt verkið en systur hennar tvær eru táknmynd ringulreiðar og ósóma fyrir að tala of mikið.
„Það skiptir máli þegar orð eru skrifuð eða sögð, sögur eru búnar til, skáldaðar eða sannar, hver hefur orðið og hversu margir heyra.“
Kordelía kemur aðeins fram í byrjun verksins og undir lok þess og það seinasta sem við sjáum af henni er dáin líkami hennar í örmum föður síns. Þar sem hann fær seinasta orðið um örlög hennar og af hverju hún fór og hvernig hún lét. Verkið er enn þann dag í dag vinsælt og oft sett upp, víða um heim. Edgar Allan Poe skrifaði eitt sinn að það ljóðrænasta sem til er væri dauði fallegrar konu.
Árið 2017 tók Mieko Kawakami rithöfundur viðtal við Haruki Murakami. Hann gefur ekki oft viðtöl en gerði undanþágu vegna aðdáunar sinnar á verkum Kawakami. Hún spurði Murakami út í kvenkyns karaktera í bókunum hans en kvenkyns karakterar í bókum hans eru í flestum tilfellum miðaðir út frá karlkyns söguhetju. Hún segist endilega vilja heyra skoðanir hans á því af hverju konur þjóni fyrst og fremst hlutverki líkama í verkum hans og þjóni kynlífsdraumórum karlanna í bókunum. „Ég er ekki að fylgja þér,“ svaraði Murakami og síðar í viðtalinu sagðist hann í það minnsta ekki vera að gera þetta viljandi.
Orð geta stækkað heiminn og orð geta minnkað heiminn. Sumir höfundar koma öllum heiminum fyrir í einni setningu og aðrir einfalda heiminn um of í einni setningu. Sumar skáldsögur takast á við heiminn og breyta honum og aðrar staðfesta heim sem hentar þeim best.
Athugasemdir