Þau voru búin að skipuleggja hinn fullkomna brúðkaupsdag. Þann 11.11.2023 ætluðu Anita Gurrý Friðjónsdóttir og Frank Bergmann að ganga í það heilaga í Laugarneskirkju og halda síðan brúðkaupsveislu í sal Verkalýðsfélags Grindavíkur.
Allt var til reiðu fyrir brúðkaupið þegar þau tóku ákvörðun – aðfararnótt laugardagsins á meðan allt lék á reiðiskjálfi í Grindavík vegna jarðhræringanna – um að aflýsa því.
„Við héldum lengi í vonina og ætluðum að finna annan sal en á endanum ákváðum við bara að hætta við,“ segir Anita sem er 25 ára en Frank 27. Þau hafa verið saman í átta ár, trúlofuð í eitt.
Komin með sjóriðu heima hjá sér
Á föstudag tóku þau æfingu fyrir brúðkaupið í Laugarneskirkju. „Við vorum öll orðin svo spennt, tilbúin fyrir morgundaginn,” segir Anita. Þau höfðu ekkert sérstaklega verið að fylgjast með fréttum, fannst þau bara vera að venjast endurteknum skjálftum og höfðu ekki miklar áhyggjur.
„Þegar við komum aftur heim til Grindavíkur fundum við hvað þetta var orðið svakalega mikið. Fyrst vorum við ekki beint hrædd. En við vorum samt ekki vön því að þetta væri stanslaust. Upphaflega höfðum við ætlað að vera heima um nóttina en síðan þurftum við að yfirgefa bæinn okkar. Þá var ég alveg komin með sjóriðu og í magann,“ segir hún.
Þau höfðu ákveðið að gifta sig í Laugarneskirkju því þar voru foreldrar Anitu gefnir saman. Þeir búa í Njarðvík en foreldrar Franks, og nánast öll hans stórfjölskylda, býr í Grindavík.
Ekki andlega viðstödd
Það hafði verið mikið stress á föstudeginu vegna undirbúnings. Anita segir þau hafa verið komin með aðgang að veislusalnum og við það að fara að skreyta hann. Mamma hennar hafi síðan verið á heimili sínu í Njarðvík á fullu að elda. Jörðin var byrjuð að skjálfa en þau héldu ótrauð áfram, í von um að þetta myndi allt lagast. „Við sögðum að við ætluðum að reyna að halda brúðkaupið,” segir hún.
Anita viðurkennir að hún hafi verið orðin ansi ringluð þarna um kvöldið þegar þau voru þó að reyna að halda sig við upphaflegt plan, að gifta sig næsta dag. „Ég var eiginlega farin að labba í hringi og þurfti að hringja í systur mína og biðja hana um að hjálpa mér því ég var ekki lengur andlega viðstödd.”
Þegar þau voru síðan að undirbúa sig áður en þau færu frá Grindavík og til foreldra Anitu í Njarðvík gleymdist margt. Foreldrar Franks höfðu orðið eftir í Reykjavík fyrr um daginn og þau byrjuðu á að fara heim til þeirra til að sækja sparifötin þeirra.
Sár og reið
„Við gátum varla hugsað skýrt. Ég tók varla nein föt með fyrir mig. Við vorum seinust til að fara úr blokkinni okkar. Frænka mín sem býr við hliðina á okkur kom með. Annars voru allir farnir,” segir hún en þau fóru ekki fyrr en um klukkan tvö um nóttina heim til foreldra Anitu í Njarðvík.
„Þegar við vorum komin heim til mömmu tókum við stöðuna og mátum þetta þannig að það væri ekkert sniðugt að gera þetta. Við sendum þá á alla að það væri búið að hætta við brúðkaupið.”
Ákvörðunin var þeim afar þungbær. „Þetta var svolítið ömurlegt og maður var bæði sár og reiður. Við vitum ekki hvenær við ætlum að halda brúðkaupið fyrst að staðan er enn svona óviss í Grindavík. Okkur bara leið ekki vel með að ætla að fagna, að geta ekki farið í íbúðina okkar, vita ekki hvort við værum að fara að missa eignina okkar,” segir Anita en þau búa á Ásabraut, rétt við sprunguna stóru sem myndaðist í fyrradag.
Fengu hlýjar kveðjur
Á áttunda tug veislugesta voru væntanlegir en Anita og Frank hafa fengið hlýjar kveðjur frá þeim sem voru á leið í brúðkaupið þeirra. „Fólki fannst bara ömurlegt að þetta skyldi gerast á deginum okkar en við myndum bara fagna ennþá betur þegar við fáum að gera það,” segir hún.
„Ég er varla búin að sofa neitt”
Þar sem þau voru tilbúin með mat fyrir yfir sjötíu manna veislu hafa þau síðan verið dugleg að bjóða fólki í mat. En þau eru enn í gríðarlegu uppnámi.
„Við erum bara í sjokki og áfalli. Ég er varla búin að sofa neitt. Maður er bara fastur yfir fréttunum og reynir að halda í vonina um að allt fari vel. Við erum samt mjög stressuð yfir því hvort íbúðin okkar sé skemmd. Við viljum bara komast heim,” segir Anita.
Athugasemdir